Sviðsljós
Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
Við vitum það að hér eins og annars staðar er lestur bóka að minnka, í það minnsta hefðbundinn lestur. Staðan fer versnandi enda hefur bókin aldrei verið í eins harðri samkeppni við aðra afþreyingarmöguleika,“ segir Margrét Tryggvadóttir, formaður Rithöfundasambands Íslands.
Dagur bókarinnar var haldinn hátíðlegur í Bretlandi á fimmtudag og af því tilefni var gerð könnun á bóklestri meðal fullorðinna þar í landi. Könnunin náði til rúmlega tvö þúsund einstaklinga og þykja niðurstöðurnar ekki mjög upplífgandi meðal þeirra sem vilja veg bókarinnar sem mestan. Í ljós kom að 40% landsmanna höfðu ekki lesið eina einustu bók síðasta árið. Af þeim sem lásu höfðu 23% lesið eða hlustað á 1-5 bækur síðasta árið og 10% til viðbótar höfðu lesið 6-10 bækur. Önnur 10% lásu 11-20 bækur og 9% höfðu lesið á bilinu 20-50 bækur síðasta árið.
Konur lesa meira en karlar
Könnunin leiddi í ljós að breskir bókaormar kjósa enn prentaðar bækur fram yfir rafbækur, 61% sagðist helst lesa bækur á prenti. Konur lesa meira en karlar, 66% kvenna kváðust hafa lesið eða hlustað á bók síðasta árið en 53% karla höfðu gert það. Konurnar sækja sömuleiðis meira í skáldskap en karlar, 63% kvenna lesa að mestu skáldsögur á móti 46% karla. Þegar horft er til aldurs er ljóst að eldri kynslóðir lesa meira en þær yngri; 65% fólks sem er 65 ára og eldra lesa, 63% fólks á aldrinum 50-64 ára höfðu lesið minnst eina bók en það hlutfall lækkar í 57% í aldurshópnum 25-49 ára. Í aldurshópnum 18-24 höfðu 53% svarenda lesið bók síðasta árið. Fjallað var um þessa könnun í dagblaðinu The Times.
Miðstöð íslenskra bókmennta hefur síðustu átta ár kannað lestur Íslendinga og þar kemur í ljós að staðan virðist öllu betri hér en í Bretlandi. Í könnun sem kynnt var síðla árs í fyrra kom í ljós að þjóðin les eða hlustar að meðaltali á 2,6 bækur á mánuði, samanborið við 2,4 bækur árið á undan. 55% þjóðarinnar verja 30 mínútum eða meira í lestur á dag á meðan 15% verja engum tíma í að lesa eða hlusta á bækur. 31% sagðist ekki hafa lesið neina bók á síðastliðnum 30 dögum, en skilgreining lestrar í könnuninni er lestur hefðbundinna bóka, rafbóka og hlustun á hljóðbækur.
Símarnir eru tímaþjófar
„Þróunin frá 2017 sýnir meðal annars að lestur þjóðarinnar stendur í stað. Lestrarhegðunin hefur hins vegar breyst þegar horft er til þess hvort lesnar séu hefðbundnar bækur, rafbækur eða hljóðbækur og hvaðan lesendur fá hugmyndir að lesefni,“ sagði í tilkynningu Miðstöðvar íslenskra bókmennta.
Margrét segir í samtali við Morgunblaðið að þó staðan sé vissulega betri hér en til að mynda í Bretlandi séu þó blikur á lofti. „Síminn er tímaþjófur en hann er líka truflandi. Ef þú ert að lesa bók þarftu næði. Í þeim heimi sem við lifum í þessa dagana er síminn alltaf eitthvað að pípa. Þetta segir sig auðvitað sjálft; ef þú ert alltaf að lesa og skoða samfélagsmiðla hefurðu minni tíma til að lesa bækur. Þar fyrir utan eru einnig margir aðrir og óþrjótandi afþreyingarmöguleikar. Margir þeirra eru ókeypis.“
Eins og komið hefur fram í Morgunblaðinu hefur kiljusala hrunið síðustu ár. Afþreyingarlestur virðist hafa færst yfir á streymisveitur. „Þetta eru hörmungarfréttir fyrir okkur sem lifum og hrærumst í bókaútgáfu enda fáum við svo miklu meira fyrir hvert prentað eintak en fyrir streymi.“
Bókmenning á TikTok
Það sé þó huggun harmi gegn að bókmenning hafi fundið sér heimili hjá yngri kynslóðinni á miðlum eins og TikTok. Þar er heilt samfélag, BookTok, þar sem einblínt er á bækur og bókmenntir og margir leggja til efni með gagnrýni og umræðum um bækur. Þetta hefur líka ratað hingað til lands og kallast hér BókaTok. „Það er frábært að fylgjast með þessu. Og gaman að sjá að þarna þykir smart hjá ungu fólki að safna að sér flottum bókum, flottum prentgripum,“ segir Margrét.