Þorvaldur Þórðarson
Þorvaldur Þórðarson
Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur segir erfitt að segja til um hvort það sé von á nýju eldgosi á Reykjanesskaga á næstunni eður ei. Komi hins vegar til eldgoss segir hann líklegt að það verði í kringum 20

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur segir erfitt að segja til um hvort það sé von á nýju eldgosi á Reykjanesskaga á næstunni eður ei. Komi hins vegar til eldgoss segir hann líklegt að það verði í kringum 20. mars.

Þorvaldur segir að hægst hafi á landrisi við Sundhnúka síðustu daga, sem gæti bent til þess að stutt sé í gos. Líklegt er að gosið hefjist við Stóra-Skógfell líkt og í undanförnum gosum, og að það standi yfir í nokkra daga eða vikur. Segir hann að eldgosatímabilið á Reykjanesskaga sé rétt að byrja og að það geti staðið yfir næstu 200-300 árin. Margt bendi þó til þess að eldsumbrotunum við Sundhnúkagíga sé að ljúka og gerir Þorvaldur ráð fyrir að það verði á þessu ári.

„Þessi umbrotahrina sem stendur yfir núna er að nálgast sín endalok. Ég á því fastlega von á því að Sundhnúkaeldum ljúki á þessu ári,“ segir hann og bætir við að næsta hrina gæti hafist hvenær sem er. Á laugardagskvöld hófst jarðskjálftahrina vestan við Kleifarvatn, sem gæti bent til þess að kvika sé að safnast þar saman.