Gunnar J. Straumland veltir fyrir sér hvenær maður notar tvöfalt ell og hvenær ekki á bolludegi – og mótar það í limru: Hún freistaði Bolla ein bolla í bolla sem átti hún Solla sem vart náði að tolla í vinnu en drolla hún vildi með kallinum Kolla

Pétur Blöndal

p.blondal@gmail.com

Gunnar J. Straumland veltir fyrir sér hvenær maður notar tvöfalt ell og hvenær
ekki á bolludegi – og mótar það í limru:

Hún freistaði Bolla ein bolla

í bolla sem átti hún Solla

sem vart náði að tolla

í vinnu en drolla

hún vildi með kallinum Kolla.

Sólveig Björnsdóttir að Laufási í Hjaltastaðaþinghá spinnur sama þráð:

Þær mættu hér Kolla og Kolla.

Kolla var auðvitað rolla.

Olli því olli,

með óþarfa drolli,

að bolla varð eftir í bolla.

Pétur Stefánsson kastar fram:

Alltaf get ég ort að vild

alls kyns ljóðabragi.

Sumt er lélegt, sumt er snilld,

sumt í meðallagi.

Í svipuðum dúr var sending Sighvats Björgvinssonar til séra Hjálmars Jónssonar um þetta leyti er þeir sátu á Alþingi:

Séra Hjálmar semur ljóð

seint á vetrartíð.

Sum eru léleg, sum eru góð

og sumt er bölvað níð.

Bjarni Jónsson bóndi í Skeiðháholti, sonur Jóns Eiríkssonar, en bærinn stendur á bökkum Þjórsár kvað þessar stökur:

Skúrir þéttar skella á jörð,

skjótt nú spretta stráin.

Grænkar slétta, gróa börð,

gamla skvettist áin.

Ennfremur þessa stöku á köldu vori:

Óðum kvöldar, nálgast nótt,

norðrið köldu gustar.

Stjörnufjöldinn starir hljótt

á stormsins öldur hlustar.

Magnús Halldórsson yrkir um kumpána tvo:

Um þá fjallað er svo títt,

eins og raunar glútín.

En haldið eðli heldur skítt

hjá þeim Trump og Pútín.

Að síðustu limra eftir Eyjólf Ó. Eyjólfsson:

Í torfkofum töluð var þvæla

sem hjáróma gamlingjar hæla

en djísús, fokk, sjitt

er dæmi um hitt

hvað nútímameistarar mæla.