Loftslagsaðgerðir eru ekki allar þar sem þær eru séðar

Ríkisstjórnir hafa í seinni tíð haft sterkar skoðanir á því hvers konar ökutæki almenningur velur sér og reynt að stýra því vali með skattlagningu. Vinstristjórnin sem sat á árunum 2009-2013 var þeirrar skoðunar að landsmenn skyldu færa sig yfir í dísilbíla og fylgdi þeirri skoðun eftir með skattlagningu sem átti að stýra fólki rétta leið. Það hafði nokkur áhrif og slíkum bílum fjölgaði á kostnað annarra.

Þetta var dálítið sérkennileg áhersla, því að eins og allir hafa séð í umferðinni koma meiri óhreinindi út úr dísilbílum en bensínbílum og það er varla eftirsóknarvert. Síðar þótti betra að reyna að ýta almenningi yfir í rafmagnsbíla og hefur sú stefna haldist, með nokkrum áherslubreytingum þó eftir því sem slíkum farartækjum hefur fjölgað. Röksemdin hefur verið sú að þess háttar bílar valdi minni losun gróðurhúsalofttegunda en aðrir, sem kann að eiga við hér á landi, þar sem rafmagn er víðast framleitt á hreinan hátt. Erlendis, þar sem kol eru jafnvel notuð til rafmagnsframleiðslu, hljóta menn þó að furða sig á slíku tali.

En hér á landi er þetta ekki heldur augljóst þegar horft er til þeirrar losunar sem fylgir framleiðslu bifreiðanna. Í umræðum á Alþingi í liðinni viku um frumvarp til laga um kílómetragjald á ökutæki frá fjármála- og efnahagsráðherra kom til að mynda fram í máli Sigríðar Andersen alþingismanns að 70% meiri losun félli til við framleiðslu á rafmagnsbílum en á bensínbílum, og hafði hún þetta eftir bílaframleiðandanum Volvo. Þetta hlýtur auðvitað að skipta miklu máli, enda hefur verið á það bent að til að rafmagnsbifreið losi minna á líftíma sínum en bensínbifreið verði að aka henni mjög langt. Það er því ekki einhlítt að rafmagnsbifreið sé umhverfisvænni en bensínbifreið að þessu leyti, og er þá ekki farið að ræða um rafgeymana, framleiðslu þeirra og förgun.

Þá á einnig eftir að meta áhrifin á vegakerfið, en rafbílar eru mun þyngri en bensínbílar og valda þannig meira sliti á vegum. Sigríður Andersen benti einnig á þetta í ræðu sinni og gagnrýndi greinargerð með frumvarpi ráðherra fyrir að þar vantaði nokkuð upp á í umfjöllun um þetta atriði.

Með þessu er ekki sagt að rafbílar séu slæmir, það er mat hvers og eins og fer eftir aðstæðum. Og vitaskuld ræður fleira vali fólks á bílum en meint áhrif á loftslagið. Meginatriðið er að ríkisvaldið ætti að fara varlega í að hafa vit fyrir fólki í þessum efnum, ekki síst í ljósi þess hve illa hefur til tekist hingað til.

Í því sambandi er ágætt að horfa til skýrslu Hagfræðistofnunar um áhrif aðgerða í loftslagsmálum, sem Sigríður vísaði einnig til í umræðunum um frumvarpið. Hún benti á að í þeirri skýrslu kæmi fram að sem loftslagsaðgerð fengi niðurgreiðsla á kaupum á rafmagnsbílum falleinkunn. Hún væri metin versta leiðin í loftslagsmálum, og væri þá mikið sagt.

Athygli vekur að með eftirgangsmunum tókst Sigríði að fá Daða Má Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, til að ræða þetta og tók hann þá undir með henni um að þessi leið væri ekki skilvirk til að ná markmiðum í loftslagsmálum. Er þá ekki komin full ástæða til að hætta þessari afskiptasemi, taka upp hlutlausa skattlagningu á bifreiðar og leyfa fólki að velja sjálfu hvaða bifreið hentar því best?