Sýning Nemendur MA munu frumsýna Galdrakarlinn í Oz næstkomandi föstudagskvöld í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri.
Sýning Nemendur MA munu frumsýna Galdrakarlinn í Oz næstkomandi föstudagskvöld í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri. — Ljósmynd/Kristján Hirlekar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Það hefur allt gengið að óskum og þetta hefur verið mjög skemmtilegt,“ segir Unnur Ísold Kristinsdóttir, formaður Leikfélags Menntaskólans á Akureyri, LMA, sem setur upp leikritið Galdrakarlinn í Oz í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri á föstudagskvöld, 14

Margrét Þóra Þórsdóttir

Akureyri

„Það hefur allt gengið að óskum og þetta hefur verið mjög skemmtilegt,“ segir Unnur Ísold Kristinsdóttir, formaður Leikfélags Menntaskólans á Akureyri, LMA, sem setur upp leikritið Galdrakarlinn í Oz í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri á föstudagskvöld, 14. mars.

Um 100 nemendur taka með einum eða öðrum hætti í sýningunni, en nemendur skólans eru um 550 talsins.

„Það er mikill áhugi fyrir leiklist og því sem henni tengist í skólanum. Það má segja að mun færri hafi komist að en vildu,“ segir Unnur. Sem dæmi eru 16 á sviðinu en um 120 nemendur sóttu um að vera með.

„Það var mikil aðsókn í allar prufur, ekki bara að leika heldur líka að taka þátt í öðrum verkefnum, eins og danshópi. Það á einnig við um fólkið á bak við tjöldin, við erum með hljómsveit og listræn teymi sem sjá um leikmynd, búninga, förðun og tækni auk þess sem við erum með nemendur sem sjá um markaðsstörf. Það var alls staðar sama sagan, mikil ásókn í að taka þátt,“ segir Unnur.

Mikill metnaður

Hún segir leikfélagið hafa sýnt mikinn metnað um árin þegar kemur að uppsetningu leikverka og byggi það á góðu orðspori.

„Það er rík hefð fyrir leiklist í MA og félagið hefur sett upp margar vandaðar, vinsælar sýningar á liðnum árum. Í fyrra var það Gosi sem fékk góða aðsókn, Footloose þar á undan sömuleiðis. Við erum svo heppin að fá að sýna í Hofi og veitir ekki af þegar við erum með svo stórar og mannmargar sýningar. Áður sýndum við í Samkomuhúsinu en það er eiginlega orðið of lítið fyrir svona stórar sýningar,“ segir hún og bætir við:

„Við höfum um árin oft valið að setja upp sýningar sem henta allri fjölskyldunni og þær hafa fallið í kramið. Það er mikill vilji til þess norðan heiða að sækja leikhús og við njótum góðs af því.“

Æfingar hafa gengið vel og nú er verið að leggja lokahönd á þetta stóra verkefni.

„Það eru allir orðnir frekar spenntir fyrir frumsýningunni og hlakka til. Þetta er allt að verða klárt en það sem skiptir máli til að svona viðamikið verkefni gangi upp er að hafa gott skipulag og sem betur fer hefur okkur tekist það,“ segir Unnur.

Búið er að setja upp sex sýningar á Galdrakarlinum, en tvær sýningar eru nk. sunnudag, kl. 13 og 17, og þá er sýning þar næsta föstudag og tvær sýningar sunnudaginn 6. apríl.

Leikstjóri er Egill Andrason. Aðstoðarleikstjórar eru Stormur Thoroddsen og Agnes Inga Eldjárn. Danshöfundar eru Ásta María Viðarsdóttir og Auður Gná Sigurðardóttir. Tónlistarstjórnendur eru Helga Björg Kjartansdóttir og Viktoría Sól Hjaltadóttir.

Höf.: Margrét Þóra Þórsdóttir