Blak
Bjarni Helgason
bjarnih@mbl.is
KA er bikarmeistari í karla- og kvennaflokki í blaki eftir sigra í úrslitaleikjum bikarkeppninnar í Digranesi í Kópavogi á laugardaginn.
Kvennalið KA hafði betur gegn HK eftir oddahrinu í úrslitunum en Akureyringar höfðu betur gegn Aftureldingu á leið sinni í úrslitaleikinn, 3:1. KA komst 2:0 yfir í úrslitaleiknum á laugardaginn. KA vann fyrstu hrinuna nokkuð sannfærandi, 25:18, en HK leiddi framan af í annarri hrinu, 11:6. Þá vöknuðu Akureyringar til lífsins og unnu að endingu þægilegan sigur, 25:17.
Þriðja hrina var æsispennandi þar sem HK komst í 12:3 en þá kom frábær kafli hjá Akureyringum sem komust í 15:12. HK var hins vegar sterkara undir restina og vann 25:22-sigur. HK fagnaði svo sigri í fjórðu hrinu eftir mikla spennu og upphækkun, 26:24, og úrslitin réðust svo í oddahrinunni þar sem KA vann nauman sigur, 15:13. Þetta er í fjórða sinn sem kvennalið KA verður bikarmeistari en liðið varð síðast bikarmeistari árið 2023.
Paula Gomez var stigahæst hjá KA með 27 stig en Julia Bonet skoraði 24 stig. Hjá HK var Helena Einarsdóttir stigahæst með 16 stig og Sóldís Björt Leifsdóttir Blöndal skoraði 11 stig.
Öruggt hjá körlunum
Í úrslitaleiknum karlamegin mættust Þróttur úr Rekjavík og KA en þar voru Akureyringar mun sterkari aðilinn.
Jafnræði var með liðunum í fyrstu hrinu en Akureyringar voru þó alltaf með frumkvæðið og unnu nokkuð örugglega, 25:21. Akureyringar byrjuðu aðra hrinu af miklum krafti og Þróttarar áttu fá svör. Hrinunni lauk með öruggum sigri KA, 25:13, og staðan orðin 2:0.
Þriðja hrinan var jöfn og spennandi allt til enda, en eftir að KA hafði komist í 15:14 tókst Þrótturum að jafna. Liðin skiptust á að skora og var staðan 16:16 og 20:20. Akureyringar voru hins vegar sterkari undir restina og fögnuðu sigri, 25:23.
Þetta er í tíunda sinn sem karlalið KA verður bikarmeistari og í fyrsta sinn í sex ár, eða frá árinu 2019. Akureyringar urðu fyrst bikarmeistarar í karlaflokki árið 1991. Miguel Mateo var stigahæstur hjá KA með 16 stig og Alexander Arnar Þórisson skoraði 10 stig. Alexander Stefánsson og Prezmyslaw Stasiek voru stigahæstir hjá Þrótti með 11 stig hvor.