Góð veiði hefur verið að undanförnu hjá bátum sem fiska við suðurströndina, eins og jafnan gerist á þessum tíma vetrar. Skipverjar á Auði Vésteins SU voru í gær rétt út af Hópsnesinu við Grindavík og þar á fínni fiskislóð. Þeir fóru út síðla nætur, drógu línuna og komu svo inn um hádegi í millilöndun með tíu tonn af vænum þorski. Ellert Heiðar Jóhannsson háseti var því glaður í bragði þegar hann stóð á bryggjunni og hampaði þar góðum golþorski fyrir ljósmyndara. Nú þegar tíðin er góð er stíft sótt á sjó og landað var úr fimm bátum í Grindavík um helgina. Sigurður Arnar Kristmundsson hafnarstjóri áætlar að samanlagður afli þeirra verði um 250 tonn; allt góður fiskur sem er eftirsótt hráefni í vinnsluhúsum. Talsvert er umleikis í atvinnulífi í Grindavík um þessar mundir, enda þótt fátt búi í bænum.