Þórir Ólafsson fæddist 16. apríl 1943 í Voðmúlastaðamiðhjáleigu. Hann lést 8. febrúar 2025.
Hann var sonur hjónanna Ólafs Guðjónssonar og Bóelar Kristjánsdóttur. Systkinahópurinn var stór, þau eru í aldursröð: Guðjón Erlingur, f. 1938, Kristján Steinar, f. 1939, Sigmar Reynir, f. 1941, þá Þórir, Svavar, f. 1945, Jóna Sigríður f. 1947, Trausti, f. 1949 og yngst í systkinahópnum er Ásdís, f. 1955.
Þórir gekk í farskóla eins og tíðkaðist á þessum árum. Fljótlega eftir fullnaðarpróf og fermingu fór Þórir að vinna utan heimilisins. Hann var ekki nema 16 ára þegar hann fór fyrst á vertíð í Vestmannaeyjum. Næstu árin fór hann á vertíðir bæði í Vestmannaeyjum og í Þorlákshöfn. Á sumrin vann hann svo bæði heima í Miðhjáleigu og við alls kyns tilfallandi smíðavinnu. Árið 1968 fór hann svo til Reykjavíkur í Iðnskólann að nema húsasmíði. Eftir það var hann starfandi bóndi í Miðkoti allt til dauðadags ásamt eiginkonu sinni Ásdísi Kristinsdóttur.
Þórir og Ásdís eignuðust fimm börn, þau eru í aldursröð: Kristinn, húsasmíðameistari og leigubílstjóri, f. 1971, hann á tvo stráka, þá Tómas og Snorra. Næst er það Bóel Anna bóndi, f. 1973, eiginmaður hennar er Birkir Tómasson. Börn þeirra eru Belinda Margrét, þá næst Róbert Bjarmi, sambýliskona hans er Diljá Perpetuine Pétursdóttir, þau eiga eina dóttur, Jóhönnu Bóel. Þriðja barn þeirra Bóelar og Birkis er Sólrós Vaka og yngstur er Ívar Ylur. Miðjubarn þeirra Þóris og Ásdísar er Ólafur, tamningarmaður og bóndi, f. 1977 eiginkona hans er Sarah Maagaard Nielsen, þau eiga þrjú börn, Viktor Mána, Jakob Frey og Evu Dögg. Næstur í röðinni er Vikar Hlynur verkfræðingur, f. 1980, sambýliskona hans er Snjólaug Ólafsdóttir. Dóttir hans er Kolbrún Klara. Yngst af börnum Þóris og Ásdísar er Þórdís, bóndi og tamningarmaður, f. 1981, sambýlismaður hennar er Stefán Sverrisson. Elstur af börnum hennar er Bergvin Þórir, sambýliskona hans er Sigrún Rós Brynjólfsdóttir, þau eiga þrjú börn: Magnea Guðbjörg, Heiðbjört Arna og Hólmfríður Assa. Svo er það Anna Ágústa, sambýlismaður hennar er Hreinn Ólafsson. Næstur er Ísak Óli og yngst er Karin Thelma.
Útför hefur farið fram.
Ég á margar minningar með honum elsku afa mínum, það var mikil gleði og prakkaraskapur í kringum hann. Hann kom manni alltaf í gott skap og fékk mann til að hlæja, oft þegar við vorum að spila segir hann eitthvað til að stríða manni létt eða prakkarast eitthvað og blikkar mann síðan létt. Afi var ekki mikið fyrir að láta taka myndir af sér en þó hefur maður náð nokkrum skemmtilegum myndum af honum og merku áföngunum sem hann náði að lifa eins og til dæmis þegar hann hitti barnabarnabörnin í fyrsta skipti, þegar hann og amma héldu upp á gullbrúðkaupið sitt í Njálsbúð með besta fólkinu sínu.
Ég hef líka afar góða minningu með afa þar sem við fórum í fjöruferðir saman þegar ég var hjá ömmu og afa í Miðkoti, þar tíndum við skeljar og belgi sem höfðu strandað upp í fjöru. Það var endalaust hægt að dunda eitthvað með afa og alltaf var það ævintýri og skemmtilegt.
Karin Thelma
Bernharðsdóttir.