Ragnheiður Jónsdóttir
Ragnheiður Jónsdóttir
J.K. Rawling: Að taka börn í gíslingu er fyrirlitlegt og algjörlega óafsakanlegt.

Ragnheiður Jónsdóttir

Miðvikudaginn 26. febrúar sl. voru Shiri Bibas og tveir ungir synir hennar, Ariel (ísl.: ljón Guðs) og Kfir (ísl.: ljónsungi), borin til grafar í Zohar í Ísrael, skammt frá Nir Oz-samyrkjubúinu (ísl.: engi styrks), þaðan sem þeim var rænt 7. október 2023 og þau síðan myrt berum höndum – þ.e. kyrkt – af mannræningjunum. Ariel var fjögurra ára og Kfir níu mánaða þegar þeim var rænt og Kfir yngsti ísraelski gíslinn og sá yngsti sem var myrtur í gíslingu, aðeins 10 mánaða. Föður drengjanna, Yarden, var sleppt 1. febrúar sl. eftir tæpra 500 daga gíslingu, þar sem hann var m.a. píndur með sögnum um afdrif fjölskyldu sinnar. Myndir af fjölskyldunni verða brenndar í sálir manna um allan heim; aðallega myndin af hinni grátandi Shiri og skelfingarsvipnum á henni þar sem hún sveipar syni sína í teppi og reynir að vernda þá fyrir helberri grimmdinni þegar verið var að taka þau í gíslingu á heimili þeirra í Nir Oz 7. október 2023.

Yoav Avital

Í Ísrael er fimm ára strákur, Yoav Avital, sem saknar vinar síns, Ariels Bibas. Hann var við útförina. Þegar mamma hans sagði honum að Ariel væri líklega dáinn, stuttu eftir að Bibas-fjölskyldan var tekin í gíslingu, fór Yoav litli í afneitun og sagði: „Nei, hann er í herberginu sínu.“ Síðan leið tíminn og konum og börnum var skilað úr hendi Hamas í vopnahléinu í nóvember 2023 en ekki sneri Shiri aftur ásamt sonum sínum. Yoav hélt, eins og svo margir aðrir um heim allan, í vonina um að sjá vin sinn aftur og sagði í barnslegu sakleysi að Ariel væri eflaust haldið á Gasa svona lengi af því að hann væri svo skemmtilegur. Raunin var önnur. Á leiði Bibas-mæðginanna, sem voru jarðsett í einni kistu, var, auk blóma og bangsa, mynd sem Yoav gaf vini sínum, en á hana hafði hann skrifað: „Dáinn fjögurra ára. Ég er sorgmæddur.“

Afhending líkanna

Lík Bibas-bræðranna voru afhent Ísraelum viku áður, eftir ógeðfellda serímóníu, sem Hamas hafði fram að því viðhaft þegar ísraelskum gíslum var sleppt. Þessi var sérlega vanvirðandi og skelfileg – en bak við kisturnar á uppsettu sviði var mynd af Netanjahú í vampírulíki og myndir af líkunum í blóðpolli fyrir neðan, auk palestínsks áróðurs. Svo braut Hamas á svívirðilegan hátt samninga um lausn gíslanna með því að skila ekki líki Shiri heldur var í kistunni óþekkt kona frá Gasa. Þetta hefur eflaust valdið Bibas-fjölskyldunni enn meiri sársauka en þegar var orðið og sýnir líka vanvirðandi framkomu Hamas gagnvart konunni frá Gasa. Hamas skilaði síðar líki Shiri.

Fréttir RÚV

Á flestöllum stærstu fréttamiðlum heims var greint frá þjóðarsorg Ísraela og útför Bibas-mæðginanna 26. febrúar sl. Öllum nema RÚV. Í sjöfréttum var ekki einu orði minnst á útförina en þar var frétt um sex ungbörn á Gasa sem frusu í hel. Sú staðreynd að það gerðist er hræðileg og undirstrikar ömurleika stríðsins. Fréttaflutningur RÚV hefur um langt skeið verið hallur undir málstað íbúa á Gasa og maður spyr sig: Hvar er hlutleysið? Það hefði mátt minnast á útför Bibas-mæðginanna. Var það ekki frétt líka? Var það minni frétt af því að þau voru ísraelsk? Fréttir eru skoðanamyndandi. Sú frétt sem RÚV birti, kaldhæðnislega á deginum sem Bibas-mæðginin voru jörðuð, er fallin til að ýta undir antisemítisma. Það sama var upp á teningnum 7. október 2024, sem markaði ár frá viðurstyggilegri árás Hamas á Ísrael, en Hamas er jú við völd í Gasa. Meginþungi fréttaumfjöllunarinnar var um stríðið sem fylgdi í kjölfar árásarinnar og hefur (25. febrúar 2025) kostað 48.903 íbúa Gasa lífið og dregið fram til samanburðar að „einungis“ um 1.700 Ísraelar hafi fallið. Umfjöllun RÚV um árásina á Ísrael var lítil. Hefði Hamas ekki ráðist á Ísrael væru yfir 50.000 manns enn á lífi í dag, m.a. Bibas-fjölskyldan og ungbörnin sex á Gasa. Ísrael hefði þá aldrei farið í stríð við Hamas.

Nir Oz

Bibas-fjölskyldan var frá Nir Oz, samyrkjubúi í S-Ísrael með um 380 íbúa (2022) og aðeins 2 km frá Khuza'a á Gasa. Hvergi voru fleiri teknir í gíslingu en í Nir Oz 7. október 2023, eða 71, m.a. gamalmenni, konur og ung börn þeirra. Eins myrti Hamas 46 og lagði samyrkjubúið í rúst eftir að hundruð óbreyttra borgara frá Gasa höfðu farið þar um ránshendi. Meðal hinna myrtu í Nir Oz voru m.a. foreldrar Shiri Bibas; Margit, 63 ára, og Yossi Silberman 67; Siman-Tov-fjölskyldan Tamar og Johnny og tvíburar þeirra Shahar og Arbel, fimm ára, og Omer, tveggja ára sem og Carmela Dan, 80, og einhveft barnabarn hennar Noya, 12 ára. Þar sem Noya var mikill Harry Potter-aðdáandi bað Dan-fjölskyldan höfund bókanna, J.K. Rawling, um aðstoð við að vekja athygli á að börn væru gíslar í haldi Hamas. J.K. Rawling varð við bóninni og ritaði m.a.: „Að taka börn í gíslingu er fyrirlitlegt og algjörlega óafsakanlegt.“

Taka má undir með Rawling; en þegar ung börn allt niður í níu mánaða eru tekin í gíslingu og síðan myrt á hrottalegan hátt og líkum þeirra ekki sleppt svo mánuðum skiptir, þá er verið að taka ógeðið á nýtt stig. Svo loks þegar líkunum er skilað þannig að ástvinir geti kvatt þau þykir það ekki frétt á RÚV.

Höfundur er lögmaður.

Höf.: Ragnheiður Jónsdóttir