Ásta Sigrún Þórðardóttir Fjeldsted fæddist 3. apríl 1937 í Hergilsey á Breiðafirði. Hún lést á lyflækningadeild sjúkrahússins á Akranesi þann 7. febrúar 2025.

Foreldrar hennar voru Þórður Valgeir Benjamínsson og Þorbjörg Sigurðardóttir, bændur í Hergilsey og síðar í Flatey á Breiðafirði. Börn þeirra voru: Valborg Elísabet, Sigurður, Dagbjört Guðríður, Björg Jóhanna, Auður, Benjamín, Guðmundur Sigurður, Ari Guðmundur, Sigríður Hrefna, Jóhannes, Guðbrandur, Ásta Sigrún, Ingunn, Gunnar, Gunnar Þórbergur og Sigurbjörg. Ingunn og Sigurbjörg lifa systkini sín.

Hinn 29. maí 1955 giftist Ásta Kristjáni Breiðfjörð og eignuðust þau tvö börn. Þau eru Þórður Hreinn, f. 27. maí 1956, d. 15. febrúar 2018, og Jóhanna Ósk, f. 20. maí 1959. Ásta og Kristján skildu 1966. Hinn 20. júlí 1974 giftist Ásta Núma Ólafssyni Fjeldsted, f. 16. febrúar 1933, d. 20. apríl 2006.

Börn Þórðar eru Andri Már, f. 16. apríl 1987, d. 23. mars 2013, og Egill Örn, f. 4. mars 1993. Eiginmaður Jóhönnu er Guðlaugur Ingólfur Benediktsson, f. 17. nóvember 1953. Börn þeirra eru: Sigrún Ósk, f. 24. apríl 1981, Róbert Hlífar, f. 28. apríl 1991, Númi Fjalar, f. 27. nóvember 1992, og Ásta Þorbjörg, f. 8. mars 2000. Fyrir átti Jóhanna Kristján Örn, f. 7. júní 1977. Langömmubörn Ástu eru tvö.

Útför Ástu fór fram 21. febrúar 2025.

Elsku amma mín.

Það er óendanlega sárt að þú sért farin. Samband okkar var einstakt og þú besta vinkona mín. Við höfum búið saman síðan 2013 og það er skrýtið að hugsa til þess að nú er ég ein eftir. Ég er hreinlega enn að melta þetta. Ég vil þakka þér fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig í gegnum lífið, það er ómetanlegt. Langaði að senda þér þetta ljóð en það er eitt af mínum uppáhaldsljóðum.

Sól, stattu kyrr! Þó að kalli þig sær

til hvílu – ég elska þig heitar.

Þú blindar mín augu, en þú ert mér
svo kær,

og eins hvort þú skín eða bæn
minni neitar.

Ég sæki þér nær, þótt þú færir
þig fjær –

þótt þú fallir í djúpið mitt hjarta til
geislanna leitar.

(Sigurður Sigurðsson frá Arnarholti)

Elska þig elsku amma mín, minning þín lifir.

Þín

Sigrún Ósk.