Vígreifir Liðsmenn sveita bráðabirgðaforsetans Sharaas á palli bifreiðar í Latakia-borg í Vestur-Sýrlandi í gær þar sem þeir takast á við alavíta.
Vígreifir Liðsmenn sveita bráðabirgðaforsetans Sharaas á palli bifreiðar í Latakia-borg í Vestur-Sýrlandi í gær þar sem þeir takast á við alavíta. — AFP/Omar Haj Kadour
Ahmed Sharaa Sýrlandsleiðtogi kallar eftir friði í landinu í kjölfar blóðugra átaka síðustu daga sem mannréttindasamtökin Syrian Observatory for Human Rights, SOHR, segja hafa kostað yfir eitt þúsund mannslíf, þar af 745 líf almennra borgara

Atli Steinn Guðmundsson

atlisteinn@mbl.is

Ahmed Sharaa Sýrlandsleiðtogi kallar eftir friði í landinu í kjölfar blóðugra átaka síðustu daga sem mannréttindasamtökin Syrian Observatory for Human Rights, SOHR, segja hafa kostað yfir eitt þúsund mannslíf, þar af 745 líf almennra borgara.

Hafa stuðningsmenn forsetans fyrrverandi, Bashars al-Assads, sem Sharaa steypti af stóli 8. desember með fulltingi uppreisnarhóps síns, Hayat Tahrir al-Sham, tekist harkalega á við sýrlenskar öryggissveitir í strandhéruðum í vesturhluta landsins við Miðjarðarhafið með miklu mannfalli.

Stuðningsmennirnir eru úr röðum alavíta, arabísks trúarhóps sem Assad og fjölskylda hans tilheyrðu og hefur sætt ofsóknum síðan Sharaa og samtök hans brutust til valda í desember. Greina talsmenn SOHR frá því að áðurnefndir 745 almennir borgarar hafi fallið í þrjátíu „fjöldamorðum“ öryggissveitanna þar sem alavítar hafi verið sérstakt skotmark.

Segir stjórnvöld vanmáttug

„Við verðum að hlúa að einingu þjóðarinnar og friði heima fyrir – okkur mun auðnast að búa saman í þessu landi,“ sagði Sharaa, sem útnefndur var forseti landsins til bráðabirgða á Byltingarsigurráðstefnu Sýrlands sem haldin var í forsetahöllinni 29. janúar og leiðtogar ýmissa uppreisnarhópa gegn Assad forseta réðu ráðum sínum á.

Eftir því sem SOHR greina enn fremur frá hafa 125 vígamenn hliðhollir hinum nýju stjórnvöldum Sýrlands fallið í átökunum síðustu fjóra daga og 148 úr röðum stuðningsmanna Assads. Hefur Reuters-fréttastofan það þó eftir heimildarmönnum í stjórn Sharaas að yfir 200 hafi fallið úr hópi Assad-sinna.

Reuters greindi enn fremur frá því í fregnum sínum af gangi mála í gær að átökin nú væru ein þau blóðugustu í sögu sýrlensku borgarastyrjaldarinnar sem hófst í mars árið 2011.

Mojtaba Amani, sendiherra Írans í Líbanon, lýsir atlögu öryggissveita Sharaas forseta á hendur alavítum í vestlægu héruðunum Latakia og Tartous sem „kerfisbundnum“ og „óhemjuháskalegum“ og kveður bráðabirgðastjórnvöld Sýrlands vanmáttug til að hafa stjórn á væringum fylkinganna.

Höf.: Atli Steinn Guðmundsson