Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Hefjast þarf handa við mikla íbúðauppbyggingu í Borgarbyggð á næstu árum svo að húsnæðisframboð og vænt íbúafjölgun í sveitarfélaginu haldist í hendur. Áætlað er að íbúum fjölgi um 882 á næstu fimm árum, en til að slíkt gangi upp þarf umtalsvert fleiri íbúðir. Í því skyni stefnir sveitarfélagið á úthlutun lóða fyrir 737 íbúðir fram til ársins 2030.
Spáð er að íbúum Borgarbyggðar fjölgi um 1.327 manns á næstu tíu árum, sem er 30,5% aukning. Til samanburðar má nefna að íbúum hefur fjölgað um 376 frá árinu 2020 eða um 10%. Íbúarnir eru nú 4.368.
Þurfa 68 nýjar fullbúnar íbúðir á hverju ári
Samkvæmt áætlun sveitarfélagsins er gert ráð fyrir að þörf verði fyrir um 68 fullbúnar íbúðir á ári, 373 íbúðir á næstu 5 árum og 683 íbúðir næstu 10 ár. Þeim hefur hins vegar að meðaltali aðeins fjölgað um fjölgað um 32 á ári síðustu árin.
Borgarbyggð vinnur, að því er segir frá í nýjum pistli á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, að fjölbreyttri íbúðauppbyggingu, bæði í Borgarnesi og minni þéttbýliskjörnum eins og Varmalandi og Hvanneyri. Á síðarnefnda staðnum, þar sem nú búa tæplega 300 manns, hefur verið vöxtur og viðgangur á síðustu árum. Slíkt tengist þá mjög starfsemi Landbúnaðarháskóla Íslands auk þess sem ýmsar stofnanir og starfsemi sem tengist landbúnaði eru þar með aðsetur.
Brákarey og Bjargsland
Í Borgarnesi, þar sem íbúar eru nú 2.147 skv. nýlegum tölum Hagstofu Íslands, er fyrirhuguð uppbygging í Bjargslandi og einnig endurskoðun skipulags í Brákarey og gamla bænum. Í sveitaþorpunum eru lóðir í boði til stækkunar íbúðarbyggðar en jafnframt er horft til frekari uppbyggingar á Kleppjárnsreykjum og Bifröst.
„Félagslegt húsnæði mun fylgja íbúafjölgun án stórra breytinga en mögulegar úrbætur verða skoðaðar til að mæta þörfum leigutaka. Nýtt aðalskipulag miðar að aukinni fjölbreytni í búsetuvali, m.a. með uppbyggingu íbúða á spildum lögbýla,“ segir HMS.
Áhugi í byggingariðnaði
„Við höfum að undanförnu fundið verulegan áhuga verktaka og þeirra sem standa að byggingu húsnæðis á að fara í meiri framkvæmdir hér í sveitarfélaginu. Hér eru á svæðinu nú þegar allmörg öflug fyrirtæki í byggingageiranum og þau munu ef til vill sjá sér tækifæri í að framleiða og selja íbúðir, það er í samræmi við þær spár sem gerðar hafa verið. Einnig hafa verktakar til dæmis á höfuðborgarsvæðinu líka horft hingað viðvíkjandi verkefni og ný tækifæri,“ segir Guðveig Eyglóardóttir, forseti sveitarstjórnar Borgarbyggðar, í samtali við Morgunblaðið.