Hulda Hrönn M. Helgadóttir fæddist 6. júní 1961. Hún lést 17. febrúar 2025.

Útför Huldu fór fram 7. mars 2025.

Ég hitti Huldu Hrönn fyrst þegar við lentum saman í öðrum bekk Menntaskólans við Sund. Hún átti heima við Sunnuveginn og tilheyrði hópi krakka sem höfðu verið í Langholtsskóla. Síðar urðu samskipti okkar tíðari, enda var hún æskuvinkona konu minnar, og á þeim árum sem við bjuggum á Akureyri hittumst við oft. Oft var glatt á hjalla og gleymist seint hin eftirminnilega 40 ára afmælisveisla sem Hulda hélt úti í Hrísey fyrir vini og kunningja.

Hulda Hrönn gekk á Guðs vegum og eftir menntaskóla lagði hún stund á guðfræði í Háskóla Íslands. Fljótlega eftir útskrift var hún vígð sem sóknarprestur í Hríseyjarprestakalli. Hún naut sín vel í sókninni, nándin var mikil og Hulda sinnti sóknarbörnum sínum af alúð, sérstaklega á erfiðum stundum.

Árið 1995 tók Hulda sér ársleyfi og hélt til framhaldsnáms við School of Divinity við Edinborgarháskóla. Við hjónin bjuggum þá í borginni vegna náms konu minnar, og það var Huldu líkt að tilkynna komu sína með litlum fyrirvara. Hún tók bílinn sinn með í síðustu ferð Smyrils það sumarið og kom til Aberdeen. Það getur verið krefjandi að venjast vinstri umferðinni, sérstaklega á beinskiptum bíl, svo ég bauðst til að sækja hana á lestarstöðina í Aberdeen og aka með henni til Edinborgar. Sú ferð gleymist ekki. Það var eiginlega ótrúlegt að sjá Huldu keyra rauðu Löduna upp að aðaljárnbrautarstöðinni. Þegar ég settist undir stýri kom í ljós að bíllinn var nánast bremsulaus, í hellirigningu. Engu að síður komumst við heilu og höldnu til Edinborgar þar sem við settum bílinn strax í viðgerð. Eftir það fór Hulda allra sinna ferða á Lödunni með íslenska A-númerinu, þó hún ætti það stundum til að ruglast á hægri og vinstri í vinstri umferðinni, lenti hún aldrei í neinum óhöppum.

Hulda undi sér vel í Edinborg og vann mikið með kirkju í Colinton, einu af úthverfum borgarinnar. Sjálfur er ég fæddur í því hverfi, svo það var sérlega eftirminnilegt að fara með henni í jólamessu í St. Cuthbert-kirkjunnni og upplifa skoskar jólahefðir, þar sem börn og unglingar léku fæðingarsögu Jesú Krists.

Hulda var einstaklega gjafmild kona og á hverjum jólum kom hún færandi hendi með jólagjafir. Börnin okkar biðu alltaf spennt eftir að sjá hvað kæmi frá henni, gjafirnar voru jafnan nytsamlegar og vel ígrundaðar. Fyrir nokkrum dögum ræddum við fjölskyldan um þetta, og önnur dóttir mín sagði að sjaldan hefði hún notað jólagjöf jafn mikið og jólagjafalímbandið sem Hulda gaf henni á unglingsárunum.

Eftir langa dvöl í Hrísey flutti Hulda suður 2014 og sinnti ýmsum störfum fyrir kirkjuna. Hugurinn leitaði þó út á land, og árið 2022 aðstoðaði ég hana við að kaupa og flytja í íbúð fyrir eldri borgara í Borgarnesi, í kjarna við hjúkrunarheimilið og heilsugæsluna. Það gekk allt vel. Því miður naut hún ekki langrar búsetu í fallegu íbúðinni sinni, því nokkrum mánuðum síðar fékk hún heilablóðfall og náði sér aldrei af því áfalli.

Blessuð sé minning Huldu Hrannar. Innilegar samúðarkveðjur sendum við systkinum hennar, vinum og fjölskyldu. Guð blessi Huldu Hrönn.

Guðbrandur Sigurðsson.

Okkur langar í örfáum orðum að minnast kærrar vinkonu, sr. Huldu H.M. Helgadóttur, vinátta okkar spannar hartnær 60 ár.

Hulda bjó fyrstu árin á Langholtsveginum og við hinar í næsta nágrenni, í Sundunum. Foreldrar Huldu, þau Guðmunda og Helgi, byggðu síðar fjölskyldu sinni stórt og myndarlegt heimili á Sunnuveginum. Í okkar augum var húsið höll og það var ævintýri líkast að koma í heimsókn til Huldu. Ekki einungis voru húsakynnin frábrugðin öðru því sem við höfðum áður kynnst heldur voru veitingarnar framandi.

Við vinkonurnar kynntumst í Langholtsskóla þegar við byrjuðum í sjö ára bekk hjá þeim mætu kennurum Sigríði Sigurðardóttur sem hélt utan um okkur næstu sex árin ásamt Eiríki Stefánssyni. Leiksvæðið okkar var Sundahverfið og Laugardalsgarðurinn og síðar meir Laugardalslaugin þar sem við eyddum ómældum tíma.

Þegar við urðum aðeins eldri tók við brennandi áhugi á spilamennsku, við hittumst heima hjá hver annarri og stofnuðum mjög óformlegan „saumaklúbb“ þar sem ekkert var saumað en þeim mun meira spilað og spjallað. Við nefndum klúbbinn okkar Hallærisklíkuna, flott framtak hjá þessum stelpum því þetta var löngu áður en það var samfélagslega samþykkt að vera ekki eins og allir aðrir.

Við vorum afar trúfastar klíkusystur í Hallærisklíkunni. Við fórum í sunnudagaskóla bæði hjá sr. Grími Grímssyni í Ásprestakalli, þá var sunnudagaskólinn í Laugarásbíó því söfnuðurinn eignaðist ekki kirkju fyrr en mörgum árum síðar og eins hjá Birgi Albertssyni þar sem nú eru aðalstöðvar KFUM og K við Holtaveg. Mættum á samkomur og fengum okkar biblíumyndir og stimpla og undum góðum stundum við líf og leik á Holtaveginum.

Hulda gekk heldur lengra en við vinkonurnar og tók trúmálin fastari tökum. Hulda nam guðfræði við Háskóla Íslands og vígðist til prests í Hrísey. Þrátt fyrir landfræðilega fjarlægð tókst okkur að hittast reglulega og það var alltaf gaman að fara í heimsókn til Hríseyjar. Þangað kom enginn til þess að liggja með tærnar upp í loft. Ó nei, Hulda var höfðingi heim að sækja og dugleg að útdeila verkefnum, oft vorum við drifnar í þau verk sem þurfti að ganga í almennt á eyjunni. Samfélagið í Hrísey var Huldu gott, það var ljúft að sjá hversu vel henni leið í Hrísey og hversu vænt henni þótti um fólkið þar.

Það var eftirminnileg helgi þegar Hulda varð fertug. Það var að sjálfsögðu blásið til veislu, við allar mættar og á matseðlinum var holugrillað lamb, lambið var grafið, kveikt í og dagurinn notaður í skemmtilegheit. Þegar lambið var síðan grafið upp og allir tilbúnir í veisluna var dautt á kolunum. Á nokkrum mínútum var kveikt upp í hverjum einasta ofni í nágrenninu, málinu reddað og veislan var auðvitað glæsileg.

Í gegnum tíðina fengum við svo auðvitað Huldu til að annast nauðsynleg prestsverk eins og að gifta sum okkar og skíra börnin okkar. Til hvers eru vinir annars?

Að lokum viljum við þakka Huldu fyrir góða vináttu sem aldrei hefur borið skugga á. Okkar innilegustu samúðarkveðjur til eftirlifandi systkina Huldu og þeirra fjölskyldna.

Ásta Björg, Guðrún og Laufey.