Olga Guðnadóttir fæddist 27. júní árið 1948 á Akureyri. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Lögmannshlíð á Akureyri 28. febrúar 2025, umvafin fjölskyldu sinni.
Foreldrar Olgu voru Guðni Friðriksson, f. 31.3. 1920, og Anna Bergþórsdóttir, f. 17.6. 1925, þau eru bæði látin. Systkini Olgu: Baldvin Ólafsson, f. 1945, látinn, Agnes Guðnadóttir, f. 1952, látin, var gift Konráði Alfreðssyni, Þorbjörg Friðrika Guðnadóttir, látin, var gift Herði Stefánssyni, og Steinunn Guðnadóttir, f. 1968, maki Jóhann Bjarni Einarsson.
Olga giftist eiginmanni sínum, Kristjáni Halldórssyni skipstjóra, f. 1950, þann 30. ágúst 1969. Börn þeirra eru: 1) Halldór Kristjánsson, f. 1970, maki Francisca Luisa, f. 1971. Börn Halldórs eru Helena og Hekla. Francisca á einn son. 2) Anna Karen Kristjánsdóttir, f. 1975, maki Sævar Guðmundsson, f. 1972, börn þeirra eru Tómas Hrói, Ösp, látin, Birta, látin, Sonja, Máni, Kristján Ari og Axel. 3) Rakel Kristjánsdóttir, f. 1978.
Olga var lengst af húsmóðir en vann seinna við aðhlynningu fatlaðra.
Útför Olgu fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 10. mars 2025, klukkan 13.
Elsku hjartans mamma mín,
mér er ekki unnt að gleyma
er hlúði að mér höndin þín.
Hreinan kærleik fann ég streyma
frá þér inn í æðar mínar.
Allar blessa ég gjörðir þínar
Meðan ég hef sólar sýn
sinna vil ég boði þínu,
virða, göfga verkin þín,
vefja þig að hjarta mínu.
Þakkir áttu þúsund faldar.
Þínar dyggðir verða ei taldar.
Mæðraprýðin, móðir kær,
mikil er þín handasnilli.
Hjá þér kærleiksgróður grær.
Guðs og manna áttu hylli.
Elsku mamma, okkar fundir
eru mínar gleðistundir.
(Unndór Jónsson)
Þín elskandi dóttir,
Anna Karen.
Elsku hjartans Olga, við kveðjum.
Blátt lítið blóm eitt er,
ber nafnið: Gleymdu ei mér.
Væri ég fleygur fugl
flygi ég til þín.
Svo mína sálu nú
sigraða hefur þú,
engu ég unna má
öðru en þér.
Leggjum svo kinn við kinn,
komdu með faðminn þinn.
Hátt yfir hálsinn minn,
hönd þína breið.
Svo mína sálu nú
sigraða hefur þú,
engu ég unna má
öðru en þér.
(Höf. ók.)
Sólveig, Garðar og Jóhann.
Elsku amma.
Hlýjan þín og kærleikurinn sem þú gafst okkur mun fylgja okkur um ókomna tíð. Í kringum þig leið okkur alltaf eins og heima – umlukin ást, hlýju og umhyggju.
Stundirnar í Ösp verða alltaf hluti af okkur – hláturinn, samveran og ástin sem þú gafst svo ríkulega. Þú hefur ómælda þýðingu í lífi okkar og þótt þú sért farin munu áhrif þín fylgja okkur alla tíð.
Við elskum þig og söknum þín.
Þín barnabörn,
Helena, Tómas Hrói, Hekla, Kristján Ari og Axel.
Það er með sorg í hjarta sem ég set á blað nokkrar góðar minningar um elsku Olgu vinkonu mína.
Við kynntumst á unglingsárunum og höfum fylgst að síðan. Sjallinn og Allinn voru aðalstaðirnir fyrir utan HA og Pallabúð, þar hittumst við vinirnir.
Árin liðu, við giftar og farnar að eignast börn. Ég man svo vel eftir einu atviki, við fórum austur í Kinn yfir helgi með börn og buru þar sem við hittum tengdaforeldra þína Dóra og Hjöddu sem voru í tjaldútilegu þar og voru að veiða. Á laugardeginum fórum við vinkonurnar að ókyrrast og endaði það með því að Dóri og Hjödda pössuðu börnin á meðan við skelltum okkur í Sjallann til að vita hverjir væru hvar, máttum ekki missa af neinu.
Við unnum saman á Sólborg í nokkur ár og eignuðumst þar góðar vinkonur og út frá því var stofnaður Sólborgarsaumó. Ekki var mikið um hannyrðirnar hjá okkur vinkonunum. En Olga mætti alltaf með hálfkláraðan strammann og útprentaða mynd af strák og hesti. Við hlógum alltaf jafn mikið, ertu komin með hestinn? Þá svaraði hún „æi, stelpur, látið ekki svona“.
Einu sinni á ári hélt saumaklúbburinn árshátíð þar sem mökum var boðið með í flott hlaðborð, síðan var farið á ball á KEA og endað í eftirpartíi til morguns. Þetta voru skemmtilegir tímar.
Árið sem við urðum 70 ára fórum við Bára til Kanarí að hitta Olgu og Kristján og héldum upp á afmælið okkar saman á flottum veitingastað sem bauð upp á mat og skemmtiatriði sem voru í okkar anda, söngatriði með vinsælustu lögum Abba, Bítlanna og King voru tekin við mikinn fögnuð.
Í fyrrasumar fór ég norður og hitti þar Báru ásamt Olgu, saman fórum við á Iðnaðarsafnið. Þetta var kærkominn dagur, mér fannst ég ná að fanga vinkonu mína þetta augnablik enda var hún orðin mjög veik. Þetta var okkar síðasta stund, við fórum í Bakaríið við Brúna, hittum þar Þóru og Sæma æskuvini okkar við mikla fagnaðarfundi.
Þetta yndislega vinkonusamband einkenndist fyrst og fremst af gleði og með gleði í hjarta kveð ég þig, mín kæra.
Samúðarkveðja,
Áslaug Kr.