Valdimar Olsen
Valdimar Olsen
Miðað við hvernig Gísli kemst að orði mætti halda að hann ætti heiðurinn af lausn Geirfinnsmálsins. En það er ekki rétt, Geirfinnsmálið er óleyst.

Valdimar Olsen

Hinn 16. febrúar síðastliðinn birtist grein á mbl.is um Gísla Guðjónsson. Þar fór hann í gegnum mál sem hann kom að, og var blaðamaðurinn mjög uppveðraður af árangri Gísla. Hann minntist einnig á Geirfinnsmálið, en það liggur ekki ljóst fyrir hvað hann gerði í því máli, eða hvaða heiður hann telur sig eiga í þeirri rannsókn. Honum verður tíðrætt um falskar játningar. Það hefur verið rauður þráður í kenningum Gísla mjög lengi, og má skilja hann svo að þær hafi komið við sögu í Geirfinnsmálinu. Svarið við spurningunni í fyrirsögninni er einfaldlega: Hann eyðilagði rannsóknina!

Þann 31. desember 1976 fór Gísli í Síðumúlafangelsi, ásamt sakadómara sem nú er látinn, og fékk að fara inn í klefa til sakborninga málsins, til að framkvæma svokallaða lygamælingu. Rétt er að taka fram að Gísli var ekki í rannsóknarhópnum sem fór með rannsókn málsins, og Karl Schutz var í stuttu jólaleyfi þennan dag í Þýskalandi, hann kom heim 2-3 dögum seinna. Enginn rannsóknarmaður í hópi Karls Schutz var viðstaddur.

Það vekur líka furðu hvað fangelsisyfirvöld voru að hugsa, þau vita svo sannarlega hvað gæsluvarðhald þýðir. Hvers vegna leyfðu þeir Gísla að fara inn til sakborninganna? Sakadómarinn, sem var með honum, tók heldur ekki þátt í rannsókninni, og þess vegna verður það enn furðulegra, hvað var í gangi þarna?

Hver eiginlega leyfði þessa heimsókn Gísla í Síðumúlafangelsið? Ekki var það Karl Schutz, né nokkur úr rannsóknarteyminu. Það ber einnig að taka fram að Gísli var á þessum tíma aðeins í námi, hann var ekki orðinn fullnuma eða útskrifaður úr náminu. Það sem gerðist þarna var að með þessu rauf hann gæsluvarðhaldsúrskurð sakborninganna, og þar með varð Gísli vanhæfur í öllu sem sneri að þessari rannsókn. Þannig eyðilagði Gísli rannsóknina, án þess að spyrja kóng eða prest, og hann var ekki einu sinni í rannsóknarhópnum.

Þegar hann var í dyrunum hjá Guðjóni Skarphéðinssyni heyrðust orðaskil milli þeirra, þar sem Guðjón taldi að Gísli kæmi í aðra heimsókn nokkrum dögum seinna og segði Guðjóni hvort hann hefði verið í Dráttarbrautinni eða ekki. Einnig heyrðist Guðjón segja að hann ætti kannski ekki að segja neitt meir við rannsóknarmenn. Eftir það sagði hann ekkert. Ég tel að þessi viðbrögð hafi verið vegna þess að Gísli sagði sakborningunum frá kenningum sínum um falskar játningar. Hafi þar með eyðilagt algjörlega það sem hafði áorkast í formlegu rannsókninni.

Hvað var Gísli eiginlega að hugsa, og nú ber hann sér á brjóst og fær mikla athygli blaðamanns Morgunblaðsins, sem skrifar eins og Gísli sé sá eini sem geti eitthvað.

Ég skora á Gísla að segja undanbragðalaust frá fundi sínum með sakborningunum þennan dag og hvað þeim fór á milli. Og ekki þýðir að bera fyrir sig trúnað við skjólstæðinga, hann var ekki orðinn sálfræðingur þá, sennilega var hann bara að skrifa ritgerð í náminu?

Og svo fer sagan áfram, hann tók sæti í Ögmundarnefndinni, vanhæfur með öllu, og þáði góða þóknun fyrir. Hann hefði átt að sleppa því. Ekki bara það, hann var á fundi í forsætisráðuneytinu, þar sem hann var fulltrúi Erlu Bolladóttur að ákveða bætur til hennar. Með öðrum orðum er hann orðinn fulltrúi hennar í samskiptum við ráðuneytið. Hversu langt er hægt að ganga í vanhæfi?

Í myndskeiði, sem var sýnt á undan fréttatíma RÚV í nokkra mánuði eftir hæstaréttardóminn, sem sýknaði sakborninga, sést hvar Gísli faðmar og samfagnar sakborningum. Hann er hlutdrægur, ekki sannur vísindamaður.

Og til að slá allt út var forsenda dómara, Péturs Dam, í málinu þegar Erla vildi fá sitt mál tekið fyrir af endurupptökunefnd, að ekki hefði verið tekið nægilegt tillit til álits Gísla Guðjónssonar. Álit Gísla ætti ekki að hafa verið notað í nokkru máli.

Ég spyr, er Gísli þessi vísindamaður, sem allir virðast telja hann vera, eða fúskari? Hvað gerði Gísli Guðjónsson fyrir rannsókn Geirfinnsmálsins? Miðað við hvernig hann kemst að orði í þessari blaðagrein mætti halda að hann ætti heiðurinn af lausn Geirfinnsmálsins. En það er ekki rétt, Geirfinnsmálið er óleyst. Málið er í verri stöðu núna en það hefur verið undanfarin 40-50 ár. Sérstaki saksóknarinn, Davíð Þór Björgvinsson, skilaði engri niðurstöðu. Ég held að hann hafi ekki lengur nennt að halda málinu áfram eða að hann hafi talið að niðurstaðan sem hann kom með hafi verið þóknanleg Katrínu Jakobsdóttur.

Að mínu mati þarf að vinna þetta mál aftur. Annars verður það til eilífðar óklárað og með enga niðurstöðu.

Höfundur er ellilífeyrisþegi.

Höf.: Valdimar Olsen