Elín Pétursdóttir fæddist 12. mars 1940. Hún lést 23. febrúar 2025.

Útför Elínar fór fram 5. mars 2025.

Þakklæti og væntumþykja eru þau orð sem koma okkur fyrst í huga þegar við minnumst Ellu mömmu, eins og hún var gjarnan kölluð á okkar heimili. Það er bara ein Ella mamma og það er Elín Pétursdóttir. Það verður seint þakkað hvernig Ella hélt utan um okkur öll, hún hafði einstakt lag á að draga það broslega fram í tilverunni og hjálpa okkur að sjá hlutina með öðrum augum. Einlæg trú hennar og traust á skaparann okkar, húmor, manngæska og traust voru hennar aðalsmerki í lífinu. Hún hafði ætíð tíma til að hlusta og miðla af visku sinni og sköpunargleði. Hvert listaverkið á fætur öðru varð til í höndum hennar. Þrátt fyrir að hafa upplifað ýmsa mótbáruna í lífinu var hjarta hennar ætíð á réttum stað. Hún er og verður elskuð og dáð á meðan við lifum, ekki bara af hennar nánustu, heldur af öllum þeim fjölda sem hafa kynnst henni á lífsgöngunni. Ella var hjúkrunarfræðingur að mennt, fór seint í nám og starfaði lengi á Landspítalanum. Það starf var köllun hennar og ástríða. Það er ótölulegur fjöldi einstaklinga sem hún sinnti á sinni starfsævi og þakka henni bæði lífgjöf og hjúkrun í veikindum sínum. Er hún veiktist sjálf var viðkvæðið venjulega: „Nei það er ekkert að mér, hvernig hefur þú það?“ Alltaf og endalaust að hugsa meira og betur um aðra en sjálfa sig.

Við þökkum fyrir ómetanleg kynni, hlýju, kærleika og fjölskyldu sem eru bæði einstök eintök og traustir vinir í lífsins ólgusjó. Það er okkur heiður að fá að þakka og kveðja okkar einstöku Ellu mömmu. Megi Guð styrkja fjölskylduna alla í sorginni.

Yngvi, Alís og fjölskylda.