Afsakið! Aalbu átti augsýnilega erfitt með sig á blaðamannafundinum.
Afsakið! Aalbu átti augsýnilega erfitt með sig á blaðamannafundinum. — AFP/Terje Pedersen
„Við höfum svindlað og valdið öllum þeim sem þykir vænt um skíðastökk vonbrigðum, þar með talið okkur sjálfum. Ég vil þess vegna fyrir hönd stökkliðsins okkar biðja afsökunar – keppinauta okkar, almenning, alla áhorfendur,…

„Við höfum svindlað og valdið öllum þeim sem þykir vænt um skíðastökk vonbrigðum, þar með talið okkur sjálfum. Ég vil þess vegna fyrir hönd stökkliðsins okkar biðja afsökunar – keppinauta okkar, almenning, alla áhorfendur, Alþjóðaskíðasambandið og skipuleggjendur heimsmeistaramótsins.“

Þetta sagði Jan-Erik Aalbu, yfirmaður skíðastökkdeildar norska skíðasambandsins, á blaðamannafundi í gær eftir að keppendunum Johann André Forfang, Marius Lindvik og Kristoffer Eriksen Sundal var vísað frá keppni á HM í skíðaíþróttum í Þrándheimi á laugardaginn fyrir svindl.

Höfðu stökkgallar keppendanna verið saumaðir með sérstyrktum og ólöglegum þræði sem hefur áhrif á eiginleika gallanna með því að gefa minna eftir en sá þráður er reglur mæla fyrir um. Hafði Lindvik þegar unnið sér inn silfurmedalíu er hann var þegar sviptur.

Engum blöðum þykir flettandi um að Magnus Brevig landsliðsþjálfari verði látinn taka pokann sinn þótt Aalbu hafi ekki sagt það berum orðum á blaðamannafundinum í gær, en „hoppsjefen“, sem staða Aalbus kallast á norsku, var augljóslega með böggum hildar á fundinum.

Upp komst um svindlið þegar myndskeið falinnar myndavélar úr saumaherbergi stökkliðsins var lekið á samfélagsmiðilinn X og hafa norskir fjöl- og samfélagsmiðlar logað um helgina, enda skammt stórra högga á milli í norskum skíðaheimi – ógleymd eru ítrekuð kókaínmál skíðagöngudýrlingsins Petters Northugs auk steramáls Theresu Johaug, einnig skíðagöngukeppanda í fremstu röð.

Fram undan er miður skemmtileg rannsókn á keppendum þjóðar sem rakað hefur að sér verðlaunum í skíðastökki um árabil: Var um einstakt tilvik að ræða eða er sagan lengri?