Höfundurinn Hrafnkell Lárusson er höfundur bókarinnar Lýðræði í mótun. Hér skrifar hann um blaðaútgáfu.
Höfundurinn Hrafnkell Lárusson er höfundur bókarinnar Lýðræði í mótun. Hér skrifar hann um blaðaútgáfu. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Breytingar á íslenskri blaðaútgáfu eftir 1874 Kaflaskil urðu í íslenskri blaðaútgáfu árið 1874. Þá voru starfandi tvö blöð sem höfðu verið gefin út til lengri tíma (Þjóðólfur og Norðanfari) en ritstjórar þeirra (Jón Guðmundsson og Björn Jónsson)…

Breytingar á íslenskri blaðaútgáfu eftir 1874

Kaflaskil urðu í íslenskri blaðaútgáfu árið 1874. Þá voru starfandi tvö blöð sem höfðu verið gefin út til lengri tíma (Þjóðólfur og Norðanfari) en ritstjórar þeirra (Jón Guðmundsson og Björn Jónsson) voru rosknir og þóttu orðnir hægfara og íhaldssamir. Á þjóðhátíðarárinu komu fram hreyfingar um stofnun nýrra blaða, bæði í Reykjavík og á Akureyri. Ísafold var stofnuð upp úr þessu og nyrðra urðu átök sem leiddu til stofnunar nýrrar prentsmiðju sem gaf út blaðið Norðling undir ritstjórn Skapta Jósefssonar, sem síðar varð ritstjóri Austra á Seyðisfirði. Brátt dofnaði þó aftur yfir blaðaútgáfu á Akureyri og mestan hluta síðasta áratugar aldarinnar (eftir 1892) var aðeins eitt blað (Stefnir) gefið þar út og „var fremur ómarkvisst og metnaðarlítið blað.“

Þjóðólfur, Ísafold og Fjallkonan voru útbreiddustu þjóðmálablöð landsins á síðustu tveimur áratugum 19. aldar. Þau tvö fyrrnefndu voru mjög pólitísk, raunar svo mjög að oft yfirskyggði pólitísk barátta ritstjóranna annað efni blaðanna.

„Viðtekin skoðun menntamannanna, sem stýrðu blöðunum og þjóðfélagsumræðunni, var sú að blöð ættu að vera vekjandi fyrir þjóðina, móta almenningsálitið og stjórna því. Hugtökin „sjálfstæður“ og „óháður“ voru einungis notuð í þeim skilningi að blöðin ættu að vera óháð og sjálfstæð frá dönskum yfirvöldum. Þeir ritstjórar, sem vildu gefa út ópólitísk blöð og sinna eingöngu frétta-, fræðslu- og skemmtiþörf fólks eða gefa blöð sín út í atvinnuskyni, voru í litlum metum. Þeir voru kallaðir skoðanalausir eða vinglar.“

Það viðhorf sem Guðjón Friðriksson lýsir hér endurspeglast í þjóðmálablöðum síðasta fjórðungs 19. aldar. Ritstjórar þeirra voru flestir virkir þátttakendur í stjórnmálum, sumir alþingismenn eða í nánum tengslum við starfandi þingmenn. En viðhorf þeirra sem réðu blöðunum og voru fyrirferðarmestir í almennri umræðu voru ekki endilega almenn viðhorf. Sem fyrr segir voru blöð sem gefin voru út af „föðurlegri umhyggju“ ekki upptekin af því að þjóna samfélaginu og svara þörfum þess, heldur vildu ritstjórar þeirra leiða almenning að umfjöllunarefnum sem þeir sjálfir töldu skipta mestu fyrir heill samfélagsins. Það er því í besta falli vafasamt að draga afdráttarlausar ályktanir um áhuga almennings, t.d. á stjórnarskrármálinu og sjálfstæðisbaráttunni, út frá áherslum þjóðmálablaðanna.

Betri leið (en þó einnig mjög takmörkuð) til að meta áhugasvið almennings er að horfa til upplýsinga um áskrifendafjölda einstakra blaða. Í grein sem Hannes Þorsteinsson, þáverandi ritstjóri Þjóðólfs, ritaði í tilefni af 50 ára afmæli blaðsins árið 1898 kom hann inn á útbreiðslu þess. Hannes sagði kaupendur hafa verið um 700 fyrstu ár útgáfunnar en um 1200–1300 þegar blaðið var tíu ára gamalt. Sá áskrifendafjöldi hélst lítt breyttur fram á níunda áratug 19. aldar en við lok hans voru áskrifendur um 1700. Árið 1898 voru áskrifendur Þjóðólfs orðnir rúmlega 2000. Árið 1884 hóf Fjallkonan göngu sína. Það blað hafði það að yfirlýstu markmiði að fræða og skemmta alþýðu, flytja fréttir, sögur og kvæði en vera fáort en gagnort um stjórnmál. Þannig aðgreindi Fjallkonan sig frá helstu keppinautum sínum. Árið 1887 var Fjallkonan komin með 2000 áskrifendur og sló þá bæði Þjóðólf og Ísafold út í áskrifendafjölda og árið 1891 var upplag Fjallkonunnar 2600 eintök.

Til samanburðar við Reykjavíkurblöðin sem hér er getið má nefna að árið 1899 voru áskrifendur Bjarka á Seyðisfirði um 850 talsins. Í bréfi Þorsteins Erlingssonar, fyrrum ritstjóra Bjarka og þáverandi ritstjóra Arnfirðings á Bíldudal, til Jóns Jónssonar frá Sleðbrjót kom fram að Arnfirðingur hafði þá (árið 1902) um 1200 áskrifendur og gat Þorsteinn þess sérstaklega að þetta væru fleiri áskrifendur en Bjarki hefði nokkru sinni haft undir sinni ritstjórn (1896–1900). Fyrstu ár Bjarka var Þorsteinn Erlingsson mjög pólitískur í sínum skrifum. Hann var ákafur í stuðningi við stefnu Valtýs Guðmundssonar alþingismanns í stjórnarskrármálinu og var orðaður við framboð til Alþingis. Síðar breyttust ritstjórnaráherslur Þorsteins, Valtý til mikillar gremju. Hann var velviljaður Þorsteini framan af ritstjóraferli hans hjá Bjarka, en varð síðar gagnrýninn á hann fyrir pólitískt bitleysi og útmálaði hann að endingu sem „engan ritstjóra“ eftir að Þorsteinn var orðinn ritstjóri Arnfirðings, sem Valtýr kallaði „pólitískt liðléttan.“

Hér er vert að víkja aftur að muninum á áskrifendafjölda milli blaða sem gefin voru út í Reykjavík og annars staðar á landinu. Munurinn er þrátt fyrir allt minni en búast hefði mátt við, að teknu tilliti til vaxtar þéttbýlis í Reykjavík á þessum tíma. Hlutverk Reykjavíkur sem miðstöðvar íslenskrar blaðaútgáfu varð ekki ótvírætt fyrr en upp úr aldamótunum 1900. Fram undir það var viðleitni einstakra landshluta til sjálfstæðrar blaðaútgáfu skýr, en undir þá viðleitni ýttu m.a. frumstæðar samgöngur, einkum við fjarlæga landshluta. Blöðin leituðust flest við að þjóna landinu öllu, a.m.k. í orði kveðnu, óháð því hvar þau voru gefin út og höfða til margra þjóðfélagshópa. Til að undirstrika þetta var því jafnan haldið á lofti að áskrifendur væru fjölbreyttur hópur, ekki einungis embættismenn og lærðir menn, heldur líka bændur, vinnumenn og sjómenn. Ekki var minnst á konur. Þrátt fyrir sterka stjórnmálaáherslu flestra starfandi ritstjóra þjóðmálablaða á síðari helmingi 19. aldar seldust þau blöð sem höfðu almennari skírskotun oft betur en stjórnmálablöðin, eins og dæmin hér á undan sýna.

Almennur fréttaflutningur var verulegum vandkvæðum bundinn fram undir lok 19. aldar, hvort heldur sem um var að ræða innlendar eða erlendar fréttir. Hæg og ótrygg dreifing blaðanna hélt lengi vel aftur af fréttaskrifum, bæði vegna þess að hætta var á að fréttir yrðu úreltar áður en þær bærust lesendum og vegna þess að sömu samgönguþröskuldar torvelduðu bæði fréttaöflun og dreifingu. Á Íslandi var aldalöng hefð fyrir því að fréttir bærust með gestum og gangandi enda viðtekin venja að spyrja tíðinda þegar fólk hittist. Sendibréf miðluðu einnig fréttum milli landshluta og efni sumra þeirra rataði á síður blaðanna. Fram til ársins 1906 gátu erlendar fréttir aðeins borist til landsins með skipum í formi erlendra fréttablaða, bréfa eða munnlegra frásagna. Þær erlendu fréttir sem bárust til Íslands höfðu oft haft „viðkomu“ í Kaupmannahöfn og fréttir annars staðar frá voru því jafnan orðnar gamlar þegar hingað kom, einkum ef skipaferðir voru strjálar. Þetta breyttist með tilkomu ritsímans haustið 1906. Fyrir tilkomu hans voru ritstjórar blaða, ekki síst utan Reykjavíkur, jafnan á þönum út í hvert erlent skip sem að landi kom til að afla frétta. Austfirðir höfðu nokkra sérstöðu í þessum efnum, einkum á síðasta áratug 19. aldar og fram að tilkomu ritsímans, en þangað komu strandferðaskipin tveimur vikum fyrr en til Reykjavíkur auk þess sem gufuskip Otto Wathne voru í vikulegum ferðum til Noregs. Þorsteinn Erlingsson hélt því fram í grein í Eimreiðinni árið 1903 að erlendu fréttirnar hefðu verið helsti styrkur austfirsku blaðanna og staðið undir þeim vinsældum sem þau nutu meðal lesenda.

Breyting varð á ritstjórnaráherslum íslenskra þjóðmálablaða á öðrum og þriðja áratug 20. aldar og hefur upphaf þeirra verið tengt við tilkomu Morgunblaðsins árið 1913. Vilhjálmur Finsen, fyrsti ritstjóri blaðsins, boðaði í upphafsávarpi fráhvarf frá yfirgnæfandi stjórnmálaáherslu forveranna. Hann lýsti markmiðum Morgunblaðsins sem þeim að verða „áreiðanlegt, skemtilegt og lipurt ritað fréttablað“. Um breytinguna sem fylgdi segir Guðjón Friðriksson að í stað stjórnmálaáherslunnar sem einkenndi þjóðmálablöð 19. aldar hafi ritstjórnarstefna Morgunblaðsins borið í sér fyrirheit um þjónustu við hinn almenna lesanda. Fréttir og auðlesið efni varð upp úr þessu aðalefni blaðanna í stað langra og ítarlegra stjórnmálagreina. Hin „föðurlega umhyggja“ ritstjóra fyrir lesendum hélt þó velli. Blaðamennska var um þetta leyti orðin föst í sessi sem mikilvægur þáttur þjóðlífsins og blaðamenn og ritstjórar orðnir skýrir áhrifavaldar á almenningsálitið. Árið 1912 lýsti Guðmundur Björnsson landlæknir blöðunum sem „stærsta veldi“ samtímans í þeim löndum þar sem almenningur væri læs. „Eftir blöðunum dansar lýðurinn, óafvitandi. Áður á tímum voru prestarnir höfðingjar yfir hugum manna; nú eru það blaðamennirnir. Kirkjurnar standa hálf tómar eða galtómar en allir lesa blöðin.“ Baldvin Jóhannesson, bóndi í Stakkahlíð í Loðmundarfirði, lýsti fáum árum fyrr áhrifum blaðanna á efni sendibréfa í bréfi til Þorsteins Magnússonar í Höfn á Borgarfirði. „Þetta er nú svona það helsta sem héðan er að frétta, annars er það eins og þú sagðir í bréfi þínu að blöðin og ferðamenn leppa alt svo engar fréttir eru afgangs handa mönnum að skrifa, nema slúðrið sagði Páll heitinn Ólafsson, en ég segi ekki einu sinni það, því millisveita ferðamenn taka það líka með, svo seinast verður ekkert að skrifa nema það sem maður skáldar sjálfur eða býr til.“