Kolbrún Bergþórsdóttir
Ljósvakahöfundur er áhugasamur áhorfandi sjónvarpsfrétta. Í þeim þáttum er vinsælt að fá alls kyns fólk til að tjá sig. Það getur verið stjórnmálamaður að útskýra eitthvað, stjórnmálafræðingur að tjá sig um nýjasta útspil Trumps eða læknir að tjá sig um ástandið í heilbrigðiskerfinu og svo framvegis. Það bregst varla að viðkomandi er rétt mættur og búinn að segja nokkrar setningar þegar honum er tjáð að tíminn sé úti og komið sé að næstu frétt. Hvernig nennti þessi maður að mæta? hugsar ljósvakahöfundur, enda er fátt sem honum er jafn illa við og að eyða tíma sínum til einskis. Þekkjandi sjónvarp veit ljósvakahöfundur að það tekur tíma að koma sér á staðinn, svo þarf að fara í smink og bíða svo eftir því að það komi að manni. Allt þetta tekur allnokkurn tíma.
Um daginn var hinn ágæti fjármálaráðherra landsins að tjá sig í örstuttu máli í einum fréttatíma og hinn jafn ágæti Friðjón Friðjónsson var mættur á annarri fréttastöð. Svo var þriðji viðmælandinn sem ljósvakahöfundur man ekki hver var. Ljósvakahöfundur tímamældi tvo þessara manna, þeir fengu þrjár mínútur til að tjá sig. Svo var þeim ýtt út til að koma næstu frétt að.
Þetta eru sannarlega menn sem nenna, hugsaði hinn lati ljósvakahöfundur.