Sigurður Egilsson fæddist í Reykjavík 29. október 1930. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Eir 26. febrúar 2025.
Foreldrar hans voru Guðrún Eiríksdóttir húsmóðir, f. 22. ágúst 1900, d. 21. maí 1990, og Egill Daníelsson deildarstjóri, f. 30. maí 1902, d. 2. mars 1973. Systir hans var Guðrún, f. 25. mars 1928, d. 5. febrúar 2019.
Sigurður kvæntist Guðbjörgu Kristínu Valdimarsdóttur 14. júní 1958. Hún var fædd 20. september 1935 og lést 20. nóvember 2023. Foreldrar hennar voru Ásta Eiríksdóttir húsmóðir, f. 2. júní 1898, d. 19. ágúst 1976, og Valdimar Sveinbjörn Stefánsson bifreiðastjóri, f. 2. október 1896, d. 14. ágúst 1993.
Börn Sigurðar og Guðbjargar eru: 1) Guðrún Ásta, lögfræðingur hjá Skattinum, f. 18. mars 1959. 2) Egill Daníel, lagermaður hjá Reykjafelli, f. 7. apríl 1962, í sambúð með Oddnýju Gunnarsdóttur, f. 25. september 1956. Börn hans eru Ástdís Guðbjörg, f. 20. október 1997, gift Aroni Þór Magnússyni, f. 21. maí 2000, sonur þeirra er Viktor Daníel, f. 30. júlí 2022, og Stefán Halldór, f. 7. apríl 1999. 3) Valdimar, f. 7. október 1963, starfsmaður Seglagerðarinnar Ægis. Sambýliskona hans var Ásta Þórunn Þráinsdóttir, f. 24. ágúst 1956, d. 2. september 2024. Sonur hans er Atli Þór Barðdal, f. 9. nóvember 1997.
Sigurður ólst upp í Vesturbæ Reykjavíkur. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1950 og embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands 1956. Hann starfaði í sjóvátryggingadeild Sjóvár, var bæjarfógeti í Neskaupstað, vann hjá Bæjarútgerð Reykjavíkur en lengst af hjá Reykjavíkurborg.
Hann sótti styrk og félagsskap hjá AA-samtökunum og sótti reglulega fundi þar á meðan heilsan leyfði.
Sigurður og Guðbjörg höfðu mikla ánægju af að ferðast og fóru víða en þeim leið alltaf best á Spáni.
Undanfarin ár bjó hann á Hjúkrunarheimilinu Eir.
Útför Sigurðar verður gerð frá Grafarvogskirkju í dag, 10. mars 2025, og hefst athöfnin kl. 13.00.
Pabbi kvaddi þennan heim á 95. aldursári. Hann var tilbúinn í síðustu ferðina sína.
Að leiðarlokum er margs að minnast og margt kemur upp í hugann, margt gott og annað síður gott. En ég hef ákveðið að muna eftir honum sem ljúfa pabba mínum sem ég gat leitað til þegar á bjátaði, til að rökræða við og ferðast með.
Hann var á yngri árum á undan sinni samtíð, tók meiri þátt í heimilisstörfum en
tíðkaðist meðal ungra karlmanna, skúraði, ryksugaði, vaskaði upp og burstaði skó. Hann kunni hins vegar ekkert í eldamennsku, gat ekki soðið egg.
Þegar hann fór með mig litla út að ganga í barnavagninum er sagt að ýmsar frúr í Vesturbænum hafi komið út í glugga til að líta þennan furðulega mann augum.
Lífið er ekki alltaf eins og við sjáum fyrir okkur eða ætlum okkur að hafa það. Pabbi fór niður í djúpan dal í baráttu sinni við Bakkus. Áralangri baráttu sem fáir trúðu að hann myndi sigra í. En hann hafði á endanum sigur með aðstoð góðs fólks og félaga sinna í AA-samtökunum.
Pabbi var alinn upp í Vesturbænum og hélt alltaf með KR, sá eini í fjölskyldunni. Hann var mikill ESB-sinni og vildi ganga þar inn og las margar bækur um sambandið. Þegar hann og mamma heimsóttu mig til Brussel var hann í essinu sínu.
Mamma var stóra og ég held eina ástin í lífi pabba. Þau voru samhent hjón og gerðu flest saman. Þó að minnið væri að mestu farið síðustu árin spurði hann alltaf um hana þegar ég heimsótti hann. Þau voru dugleg að ferðast til útlanda og helst til sólarlanda. Þar leið þeim vel. Ég var svo heppin að geta farið með þeim í nokkrar ferðir og það var dásamlegt að fylgjast með honum njóta sólarinnar.
Undanfarin ár hafði hann dvalið á Hjúkrunarheimilinu Eir. Þar naut hann góðrar umönnunar elskulegs starfsfólk sem fjölskyldan þakkar af alhug.
Ég ætla að trúa því að pabbi sé nú á góðum stað umvafinn þeim sem honum þótti vænt um og farnir eru til draumalandsins.
Pabbi minn, þakka þér fyrir allt. Ég ætla að kveðja þig með kveðjuorðunum hennar mömmu. Guð geymi þig.
Guðrún Ásta
Sigurðardóttir.