Kínverska neysluverðsvísitalan lækkaði um 0,7% í febrúar og er það öllu meiri lækkun en markaðsgreinendur áttu von á, en könnun Bloomberg sýndi að þeir reiknuðu með 0,4% samdrætti. Er þetta í fyrsta skipti í 13 mánuði sem opinberar tölur sýna verðhjöðnun í Kína.
Kínversk stjórnvöld segja að skýra megi verðlagsþróunina að stórum hluta með því hve snemma kínverska nýárið var á ferðinni. Útgjöld neytenda ná hámarki í kringum kínversku áramótin og ýtir það verðlagi tímabundið upp. Í ár hófust hátíðahöldin 29. janúar en lentu á 10. febrúar í fyrra. Segir kínverska hagstofan að ef leiðrétt væri fyrir áhrif nýársins mældist 0,1% verðbólga í mánuðinum.
Að sögn FT átti þróun matvælaverðs stóran þátt í verðhjöðnun mánaðarins og verkuðu þar tveir þættir saman: bæði dró úr neyslu eftir að áramótagleðinni lauk og einnig hafa veður verið hlý og grænmetisuppskeran í Kína verið góð, sem leiddi til þess að verð á grænmeti lækkaði um 12,6% í febrúar.
Kjarnaverðbólga lækkaði um 0,1%
Ef matvæla- og orkuverð er dregið frá, svo að aðeins kjarnaverðbólga stendur eftir, mældist 0,1% verðhjöðnun í febrúar og er það í fyrsta skipti síðan 2021 sem kjarnaverðbólgan í Kína dregst saman. Sýna verðlagsmælingar m.a. að hörð verðsamkeppni einkennir kínverska rafbílamarkaðinn og eru rafbílar þar í landi nú 6% ódýrari en þeir voru fyrir ári.
Sumir greinendur benda á að verðhjöðnun í Kína megi einnig rekja til vaxandi svartsýni og varkárni hjá kínverskum neytendum. Bendir margt til að kínverska hagkerfið sé þróttminna en oft áður og hefur t.d. atvinnuleysi á meðal ungs fólks vaxið ár frá ári. Á sama tíma hefur loftið verið að tæmast úr kínversku fasteignabólunni og fasteignaverð verið á niðurleið undanfarin misseri, en um 70% af sparnaði landsmanna eru bundin í fasteignum þeirra. Eins þykir líklegt að tollastríð Kína og Bandaríkjanna muni fara harðnandi með tilheyrandi skakkaföllum fyrir kínversk útflutningsfyrirtæki og fólkið sem hjá þeim starfar. ai@mbl.is