Gunnar Einarsson
Gunnar Einarsson
Stórveldin reka hagsmunapólitík, við eigum að gera það líka. Við eigum að halda okkur til hlés, sjá hvað gerist á næstu árum.

Gunnar Einarsson

Það er undarlegt að frammistaða Rússa í Úkraínu sé metin þannig að þeir séu líklegir til að ráðast með landher langt inn í Evrópu og þess vegna þurfi miklu meiri pening til varnarmála. Þegar stríðið gegn Úkraínu byrjaði áttu þeir, utan við þessa sem voru í notkun, mörg þúsund skriðdreka og önnur brimvarin stríðstól, sem hafði verið lagt á geymslusvæðum. Áhugahópar hafa legið yfir gervitunglamyndum og öðrum gögnum og metið fjölda og ástand þeirra. Stór hluti þeirra sem voru í því ástandi að það var raunhæft að gera þá nothæfa hefur verið virkjaður og sendur burt, sennilega til Úkraínu, og eru flestir ekki meir. Rússar eru að verða uppiskroppa með skriðdreka fyrir Úkraínustríðið, hvað þá að þeir hafi dreka til að senda langt inn í Evrópu. Þeir virðast ekki hafa mikla stjórn á loftrýminu yfir Úkraínu. Þó ekki væri nema að flugherir NATO tækju á loft gegn þeim gæti rússneski herinn ekki hreyft sig og yrði þurrkaður út áður en hann kæmist langt. Frammistaða Svartahafsflotans er vægast sagt léleg. Mannfall hefur verið ótrúlega mikið. Það er lítil fæðingartíðni í Rússlandi. Það má vel vera að Rússar geti komið sér upp nýjum her á nokkrum árum ef viljinn er einbeittur, en Rússar eru ekki nema 150 milljónir á móti 400 í Evrópu og 85 milljónum Tyrkja. Það er við því að búast að herforingjar og eigendur vopnaverksmiðja noti öll tækifæri til að hvetja til vopnakaupa. Íslenskir stjórnmálamenn ættu ekki að taka undir þann söng. Það er ótrúverðugt að Evrópa geti ekki varið sig án ráðlegginga og peninga frá okkur.

Rússar eiga mikið af kjarnorkuvopnum sem gætu valdið gríðarlegu tjóni. Ef þeir teldu sig vera að tapa í stríði er aldrei að vita hvaða örþrifaráða þeir gripu til. Í og við Íshafið eiga Rússar einhverja tugi mismunandi kafbáta. Ef það kæmi til stríðs yrðu sumir þessara kafbáta án efa notaðir til að eyðileggja fjarskiptastrengi og til að trufla siglingar um Atlantshafið. Ísland er staðsett þannig í Atlantshafinu að það er hagstætt að fylgjast með ferðum skipa héðan, sérstaklega þó þeim sem væru á leið suður úr Íshafinu. Þó að venjulegir kafbátar séu skæðir eru það kjarnorkubátarnir sem eru óhugnanlegir. Í einum svona kafbáti eru til dæmis 16 flaugar, sem hægt er að skjóta 10.000 km. Hver af þessum 16 flaugum getur síðan skipt sér í 10 flaugar, sem hver um sig getur hitt nákvæmlega tiltekið skotmark og sprungið með 10 sinnum meiri krafti en var í Hiroshima-sprengjunni. Þótt spjót Óðins og hamar Þórs væru mikilfengleg vopn skáka þessar flaugar þeim algjörlega.

Við vitum það frá Kúbudeilunni að það er algjört forgangsmál að reyna að staðsetja kafbátana ef það horfir í stríð. Þó að Kaninn færi fór hann aldrei alveg. Það var alltaf viðbúnaður til að hafa og geta aukið kafbátaleit. Það er best fyrir okkur að vera í samvinnu við Bandaríkjamenn, vegna þess að ef allt virðist vera að fara á versta veg koma þeir hvort sem við erum því hlynnt eða ekki. Á sama hátt og BNA myndi vera umhugað um að eyða kafbátum væri Rússum annt um að verja þessi djásn hersins. Þeir gleymdu ekki Keflavíkurflugvelli þó að Kaninn væri mikið til farinn. Þessi uppbygging þarna núna er eins og við séum að senda þeim skilaboð um að gleyma okkur alls ekki. Meðan Bandaríkjamenn líta á Ísland sem hluta af varnarkeðju sinni munu þeir reyna að verja landið. Fjárframlög til þeirra breyta þar engu um. Herstjórnir, hvort þær eru í Pentagon, NATO eða Evrópuher, munu líta á Ísland sem reit á skákborði og taka ákvarðanir um hvort og hvernig best er að haga aðkomu að vörnum hans út frá sínum hagsmunum. Fjárframlög okkar til hermála munu ekki skipta máli.

Það má ætla að notuð yrðu einhver form af kjarnorkusprengjum til að tæta sundur kjarnorkukafbáta, sem eru fullir af kjarnorkusprengjum. Ef vel gengi, okkar lið sigraði, yrði hafið geislamengað og fiskur héðan úr Norður-Atlantshafi óseljanlegur lengi á eftir. Ísland varla byggilegt nema fyrir fáa.

Hvaða stefnu Bandaríkin taka á næstunni er ekki gott að segja, en það er undarlegt ef þau ákveða að fara alfarið frá Íslandi, en telja á sama tíma að þau þurfi Grænland vegna varnarhagsmuna. Það er alveg ómögulegt að vita hver staðan verður á taflborði heimsveldanna í framtíðinni. Sem dæmi gæti Rússland orðið hjálenda Kínverja og Bandaríkin hrunið innan frá. Það er sama hvernig allt þróast, okkar besta vörn er að við getum séð um okkur, fóðrað okkar fólk sjálf, þótt allt fari í bál og brand.

Stórveldin reka hagsmunapólitík, við eigum að gera það líka. Við eigum að halda okkur til hlés, sjá hvað gerist á næstu árum. Það er dýrt að vera örþjóð í stóru landi langt úti í hafi. Við höfum hreinlega ekki efni á að borga tugi milljarða í herútgjöld. 2% af þjóðarframleiðslu væru 80-90 milljarðar. Það er jafnvel verið að tala um 5%. Við fengjum ekkert fyrir þessa peninga.

Innviðaskuldin er 600 milljarðar. Ríkisreksturinn er ekki sjálfbær. Vaxtakostnaður að verða mestu útgjöld ríkisins. Lántaka ríkisins spennir upp vexti fyrir okkur hin.

Ekki meiri útgjöld, ekki hærri skatta. Íslenskan her, nei takk.

Höfundur er fyrrverandi bóndi.

Höf.: Gunnar Einarsson