Þeir eru ófáir sem furða sig á hversu langt Samfylking og Viðreisn eru tilbúin að ganga fyrir ríkisstjórnarsamstarfið. Páll Vilhjálmsson skrifar um eitt grófasta dæmið, aðförina að frjálsum fjölmiðlum: „Umfjöllun Morgunblaðsins um styrkjamál Flokks fólksins leiddi til þess að Logi Einarsson ráðherra fjölmiðla breytti reglum um styrki til fjölmiðla. Breytingin fól í sér að hámarksfjárhæð til einkarekinna fjölmiðla var lækkuð. Tveir fjölmiðlar verða fyrir barðinu á ákvörðun Loga, Morgunblaðið og Sýn (Vísir, Stöð 2 og Bylgjan).“
Þá vísar Páll í minnisblöð úr ráðuneytinu sem Morgunblaðið hefur birt og sýna aðdraganda þess að ákveðið var að lækka fjölmiðlastyrkinn til Morgunblaðsins og Sýnar, og segir svo: „Verkaskiptingin á milli ríkisstjórnarflokkanna liggur fyrir. Flokkur fólksins stundar sjálftöku úr ríkissjóði en Samfylking sér um að setja þá fjölmiðla út af sakramentinu sem fjalla um gripdeildina.
Grímulaus valdbeiting ríkisvaldsins gegn sjálfstæðum fjölmiðli sýnir svo ekki verður um villst hugarfarið á ríkisstjórnarheimilinu til frjálsrar umræðu. Ríkisstjórnin er á hættulegri braut. Fordæmið sem hún setur með hrárri valdbeitingu boðar illt. Ekki síst fyrir ríkisstjórnina sjálfa og þá hagsmuni sem hún þykist að nafninu til bera fyrir brjósti og kallast almannahagur.“