Félag í eigu Quang Le, NQ fasteignir, hefur samþykkt kauptilboð ónefnds fasteignafélags í Herkastalann að Kirkjustræti 2. Kaupverð kastalans liggur ekki fyrir eins og er en fasteignamat eignarinnar er rúmar 575 milljónir króna.
Að sögn Guðmundar Hallgrímssonar, fasteignasala hjá Lind, liggur fyrir samþykkt kauptilboð en fyrirvarar eru á kauptilboðinu og því ekki hægt að slá því föstu að eignin hafi verið seld á þessari stundu.
Herkastalinn er meðal þeirra bygginga sem flæktust inn í mál athafnamannsins Quang Le þegar gerð var húsleit í húsinu eftir að kaupsýslumaðurinn var handtekinn, grunaður um mansal, peningaþvætti og fleira. Nokkur félög Le hafa verið tekin til gjaldþrotaskipta en NQ er ekki þar á meðal.