Tryggingafélagið Vörður býður nú upp á nýja vernd fyrir fólk sem hefur orðið fyrir ofbeldi í nánu sambandi. Nýja tryggingarverndin bætist við hefðbundnar heimilistryggingar svo að hún nái til sem flestra og var mótuð með ráðgjöf frá Kvennaathvarfinu.
Í tilkynningu segir að markmiðið með verndinni sé að veita aðstoð í formi fjárhagslegra bóta fyrir þolendur ofbeldis í nánum samböndum. Á verndin að aðstoða þá við að breyta aðstæðum sínum. Verndin er nú hluti af öllum heimilistryggingum Varðar, sem hingað til hefur tryggt fólk fyrir slysum og veraldlegum eigum. Hún gildir fyrir alla, óháð kyni, og þurfa viðskiptavinir ekki að greiða aukalega fyrir.