Ingibjörg Þórhallsdóttir fæddist í Höfn, Bakkafirði, 24. febrúar 1940. Hún lést á Landspítalanum 15. febrúar 2025.

Foreldrar hennar voru hjónin Dýrleif Þorsteinsdóttir húsfreyja, f. 28. febrúar 1903, d. 21. janúar 1960, frá Syðri-Brekkum, Langanesi, og Þórhallur Friðsteinn Jónasson, sjómaður og kennari, f. 1. september 1906, d. 7. maí 1964, frá Gunnarsstöðum á Langanesströnd. Systkini Ingibjargar eru: Halldóra Þórhallsdóttir, f. 7. júlí 1934, Kristján Þórhallsson, f. 12. ágúst 1936, d. 16. júní 1952, Hörður Þórhallsson, f. 14. janúar 1943.

Eiginmaður Ingibjargar er Ingvar Jónasson, f. 14. janúar 1936, útvegsbóndi á Bakkafirði. Börn Ingibjargar og Ingvars eru: Dýrleif, f. 1. júlí 1959, maki Kjartan Kjartansson, og Birgir, f. 31. janúar 1961, maki Margrét Sigríður Þórisdóttir. Barnabörnin eru fjögur og barnabarnabörnin fimm.

Ingibjörg ólst upp á Bakkafirði að undanskildum þremur árum en þá bjó fjölskyldan í Keflavík.

Eftir hefðbundinn barna- og unglingaskóla sótti Systa nám í Húsmæðraskólanum á Laugarvatni veturinn 1957-58. Fyrir utan að sinna barnauppeldi og heimilisstörfum þá vann Systa í fiski á Bakkafirði og sinnti búskap, en þau hjónin héldu bæði kýr og kindur. Ingibjörg starfaði lengst af í Kaupfélaginu á Bakkafirði en endaði sinn starfsferil á skrifstofu Skeggjastaðahrepps.

Ingibjörg glímdi við heilsubrest mörg síðustu æviárin en tókst á við hann af mikilli seiglu og dugnaði fram á síðasta dag.

Systa söng í kirkjukór Skeggjastaðakirkju frá unga aldri og alveg þar til heilsan fór að bila. Hún hafði yndi af að hlýða á tónlist af ýmsum toga.

Útför hennar fór fram frá Hafnarfjarðarkirkju 27. febrúar 2025.

Nú er fallin frá mín kæra vinkona eftir löng og erfið veikindi til fjölda ára. Alltaf bar hún sig vel þótt hvert áfallið á eftir öðru dyndi yfir, algjör hetja.

Við kynntumst þegar maðurinn minn var hjá þeim hjónum á Bakkafirði. Við vorum boðin á þorrablót í mörg ár þangað. Síðan tók við hjá okkur fyrsta ferðin til Tenerife en þangað fórum við margoft og skemmtum okkur vel, mikið hlegið. Hún var síðast með grindina. Við tókum þá leigubíl og nutum sólar- og búðarferða.

Fyrsta ferðin var afmælisferð, hún 76, ég áttatíu ára. Bróðir hennar og mágkona með í för. Þá fengum við ferðabakteríuna með vinum í bústöðum. Við fórum í kórferðir með austfirskum konum til útlanda. En hennar heilsu fór hrakandi allt of snemma. Tók við brot og fleira sem gerði henni lífið erfitt, alltaf samt glöð og tók allt með ótrúlegri seiglu. Hennar verður lengi minnst með söknuði.

Við fórum margar ferðir í sumarbústaði á Einarsstaði. Hún þráði að komast í bústaði á sumrin. Það var árvisst um verslunarmannahelgina og harmonikkuball á Valaskjálf. Karlarnir fóru í berjamó. Við komum heim með bláber, bjuggum til desert. Það var mikil gleði og sungið hátt um vini að austan.

Ég kveð hana með sorg í hjarta. En minningin lifir. Ég votta fjölskyldunni samúð mína, Guð styrki þau í sorginni.

Valgerður Friðriksdóttir.