Handboltinn
Bjarni Helgason
bjarnih@mbl.is
Ásbjörn Friðriksson fór á kostum hjá Íslandsmeisturum FH þegar liðið vann fimm marka sigur gegn Aftureldingu í 20. umferð úrvalsdeildarinnar í handbolta í Kaplakrika í gær, 34:29, en Ásbjörn skoraði níu mörk í leiknum.
Liðin mættust í úrslitaeinvígi Íslandsmótsins á síðustu leiktíð, en FH er er með 31 stig í efsta sæti deildarinnar og hefur unnuð fjóra leiki í röð. Afturelding er með 27 stig í fjórða sætinu og þarf einn sigur í síðustu tveimur umferðunum til þess að tryggja sér heimavallaréttinn í úrslitakeppninni.
Úlfar Páll Monsi Þórðarson var markahæstur hjá Val þegar liðið styrkti stöðu sína í öðru sæti deildarinnar með þriggja marka sigri gegn Gróttu, 29:26, á Hlíðarenda, en Úlfar Páll skoraði átta mörk í leiknum.
Valsmenn eru með 30 stig í öðru sætinu og hafa unnið sjö leiki í röð. Grótta er komin í fallsæti og er með 10 stig í ellefta og næstneðsta sætinu en liðið vann síðast deildarleik þann 3. október.
Framarar eru öruggir um heimavallaréttinn í úrslitakeppninni eftir fimm marka sigur gegn HK, 38:33, í Kórnum í Kópavogi þar sem Ívar Logi Styrmisson og Þorsteinn Gauti Hjálmarsson skoruðu átta mörk hvor fyrir Framara og voru markahæstir.
Framarar eru með 29 stig í þriðja sætinu og geta ekki endað neðar en í fjórða sætinu. HK þarf einn sigur í síðustu tveimur leikjum sínum til þess að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni, en liðið er með 16 stig í áttunda sætinu og getur ekki endað hærra í töflunni.
Breiðhyltingar úr fallsæti
Bernard Kristján Darkoh og Baldur Fritz Bjarnason áttu báðir stórleik fyrir ÍR og skoruðu tíu mörk hvor þegar liðið gerði dramatískt jafntefli gegn ÍBV í Vestmannaeyjum, 33:33, en Gauti Gunnarsson jafnaði metin fyrir Eyjamenn þegar nokkrar sekúndur voru til leiksloka.
ÍBV er áfram í sjötta sætinu með 21 stig og hefur gert jafntefli í þremur síðustu leikjum sínum. Stigið fleytir ÍR-ingum upp í tíunda sætið og úr fallsæti en Breiðhyltingar eru með 11 stig og hafa fengið þrjú stig af fjórum mögulegum úr síðustu tveimur leikjum sínum eftir sex leiki án sigurs þar á undan.
Fjölnir sá aldrei til sólar þegar liðið tók á móti Haukum í Egilshöll í Grafarvogi en leiknum lauk með stórsigri Hauka, 37:18. Sigurður Snær Sigurjónsson og Skarphéðinn Ívar Einarsson skoruðu tíu mörk hvor fyrir Hauka.
Haukar eru með 24 stig í fimmta sætinu og eiga veika von um að tryggja sér heimavallarréttinn í úrslitakeppninni. Fjölnismenn eiga enn tölfræðilega möguleika á því að bjarga sér frá falli en þurfa til þess að vinna tvo síðustu leiki sína og treysta á að ÍR og Grótta tapi sínum leikjum.
Hans Jörgen Ólafsson var markahæstur hjá Stjörnunni þegar liðið tryggði sér sæti í úrslitakeppninni með tveggja marka sigri gegn KA í Garðabænum, 31:29, en Hans Jörgen skoraði níu mörk í leiknum.
Stjarnan er með 20 stig í sjöunda sæti en þetta var fyrsti sigurleikur liðsins síðan 13. febrúar. Staða KA þrengdist til muna með tapinu og liðið getur enn fallið um deild. Akureyringar eiga líka enn möguleika á sæti í úrslitakeppninni þótt hann sé heldur fjarlægur, en KA er þremur stigum á eftir HK sem er í áttunda sætinu.