Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
„Uppeldi mitt og störf í leikhúsinu eru góður undirbúningur fyrir störf í þágu launafólks. Ég hef í störfum tileinkað mér að skilja hið stóra samhengi mála. Finna hvernig megi ná samvirkni og sveigjanleika svo að kerfi nýtist á fjölbreyttan hátt. Þessi nálgun er yfirfæranleg á margt annað,“ segir Jakob Tryggvason, nýr formaður Rafiðnaðarsambands Íslands.
„Svo er það mannlegi þátturinn. Í listrænni sköpun er tekist á við upplifun, sterkar tilfinningar og stundum stórar persónur. Saman mætist þetta síðan í stórri deiglu. Sama má segja um kjarasamningagerð; hugmyndir, veruleiki og fólk mætast á miðri leið. Útkoman úr því er grunnur velferðarsamfélags.“
Iðn og tækni falla vel saman
Innan Rafiðnaðarsambands Íslands eru um 6.000 manns í sjö aðildarfélögum. Þetta er fjölbreyttur hópur. Fyrst upp í huga margra kemur sennilega rafvirkinn: karl með skrúfjárn og verkfærabelti. Þar er mjög einfaldri mynd brugðið upp, því iðngreinar innan sambandsins hafa tekið stakkaskiptum á undanförnum áratugum. Þar við bætist svo að RSÍ hefur á síðari árum gert sig gildandi gagnvart ýmsum tæknigreinum, samanber að aðildarfélögin vinna fyrir og standa vörð um hagsmuni fólks sem starfar til dæmis í upplýsingatækni, hugverkaiðnaði, fjarskiptum, fjölmiðlun, listum og fleiru.
„Iðn- og tæknigreinar falla vel saman; þær styðja hvor við aðra í starfi sambandsins. Iðngreinar eru vel skipulagðar og á því byggja tæknigreinar. Á tæknisviðinu eru að koma inn ýmsar nýjar áherslur og aðferðir sem nýtast iðnaðinum. Þetta á við um margt sem varðar réttindavörslu, menntun, hæfnismat og fleira,“ segir Jakob, sem tók við formennsku í RSÍ á aukaþingi þess í febrúarlok.
Launafólk axlaði byrðar
Á almenna vinnumarkaðinum gilda nú kjarasamningar gerðir á síðasta ári sem hafa verið leiðarstef efnahagsmála að undanförnu. „Launafólk axlaði töluverðar byrðar við gerð síðustu samninga og nú loksins er verðbólga að lækka og stýrivextir sömuleiðis. Því er alveg hægt að segja að kjarasamningar haldi,“ segir Jakob og bætir við:
„Þó að einstaka greinar hafi að undanförnu fengið leiðréttingu á sínum kjörum, svo sem kennarar, þarf ekki að steyta á því. Oft tekur tíma að ná í gegn loforðum eða ákvæðum frá fyrri tíð. Dæmi um þetta er staða ræstingafólks nú, sem ekki hefur fengið þá leiðréttingu sem samið var um. Gildandi samningar okkar rafiðnaðar- og tæknifólks bera ýmis forsenduákvæði. Því verður staðan metin á samningstímanum og ef ástæða er til gæti komið til innspýtingar.“
Þeir samningar sem launafólk og atvinnurekendur gera sín í millum eru öðrum þræði samfélagssáttmáli, enda koma ríki og sveitarfélög einnig oft að málum. Svona er mikilvægum málum og aðgerðum hrundið af stað. Í því sambandi vakna þá spurningar um hvernig félögum launafólks hafi tekist að mæta aðstæðum erlends fólks sem hér hefur sest að, til lengri og skemmri tíma. Oft berast frásagnir af bágri stöðu þess á vinnumarkaði, í húsnæðismálum og mörgu fleiru.
„Vissulega hefur þó margt áunnist í þágu þessa hóps en gera þarf betur. Þegar ég hóf afskipti af stéttarfélögum árið 2007 var fólk af erlendum uppruna á íslenskum vinnumarkaði tiltölulega lítill hluti heildar. Nú er fimmti hver einstaklingur úr þeim hópi. En vandi þessa hóps er alveg þekktur. Efling og önnur félög fólks ófaglærðra eru nokkuð langt komin í þjónustu og stuðningi við þetta fólk. Þar sem sérhæfð störf eru í hærra hlutfalli hjá RSÍ og skyldum félögum hefur þróunin verið hægari hér,“ segir Jakob.
Gervigreind er verkfæri
Gervigreind og fjórða iðnbyltingin eru mál ofarlega á baugi nú um stundir. Þróun á því sviði telur formaður RSÍ að muni klárlega hafa áhrif á störf rafiðnaðar- og tæknifólks, sem verði líka í mikilvægu hlutverki við innleiðingu þeirrar tækni. Líklegt sé að störf við hönnun, teikningu, skrásetningu og forritun stýringa af ýmsu tagi breytist. Á sama tíma geti gervigreindin, ef vel takist til, orðið framlenging á störfum sem nú þegar eru til. Símenntunarstofnanir tengdar verkalýðshreyfingunni endurspegli þetta meðal annars í námsframboði sínu.
„Innkoma gervigreindar skapar þörf á að við rýnum kjarasamninga. Víða erlendis er litið á gervigreind sem verkfæri starfsmanns sem þá eykur framleiðni hans. Tæknin gerir starfsfólk verðmætara frekar en að því sé rutt úr vegi. Að auki á samspil gervigreindarinnar við samfélagið eftir að þroskast, hvernig við tæklum höfundarréttarmál og persónuvernd. Einnig eru álitamál eins og hvort gervigreind megi gefa fyrirmæli án aðkomu yfirmanns. Þetta er allt komið í umræðu um þróun kjarasamninga en hve hratt við tökum skrefin ræðst af aðstæðum,“ segir Jakob Tryggvason að síðustu.
Hver er hann?
Jakob Tryggvason er fæddur á Akureyri árið 1972. Tengsl Jakobs norður eru sterk, en í dag býr hann í Grafarvogi með fjölskyldu sinni. Hann var forstöðumaður hljóð- og tölvudeildar hjá Borgarleikhúsi 2000-2012. Vann við hönnun og sölu hljóð- og tæknilausna hjá Exton 2012-2015. Starfsmaður Rafiðnaðarskólans og síðar Rafmenntar fræðsluseturs við stofnun þess 2015-2018.
Frá 2007 hefur Jakob starfað fyrir Félag tæknifólks og fyrir RSÍ. Var félagslega kjörinn gjaldkeri RSÍ frá 2015 og hefur verið fastur starfsmaður þar frá 2019.