Langhlauparinn Baldvin Þór Magnússon hafnaði í 9. sæti í sínum undanriðli í 3.000 metra hlaupi á Evrópumótinu innanhúss í Apeldoorn í Hollandi á laugardaginn.
Baldvin Þór kom í mark á tímanum 7:58,56 mínútum og var talsvert frá Íslandsmeti sínu í greininni, sem er 7:39,94 mínútur. Baldvin Þór leiddi hlaupið framan af en dróst aftur úr eftir því sem leið á hlaupið.
Þá hafnaði kúluvarparinn Erna Sóley Gunnarsdóttir í 16. sæti í greininni, en hún kastaði lengst 16,74 metra í annarri tilraun. Fyrsta kast hennar var 16,60 metrar en hún gerði ógilt í síðasta kasti þar sem hún steig út fyrir kasthringinn.
Íslandsmet hennar í greininni innanhúss er 17,63 metrar, en það met setti hún á Norðurlandamótinu í febrúar í Espoo.