Guðni Alexander Snorrason fæddist 9. september 2004 í Reykjavík.

Hann lést í Hafnarfirði 31. janúar 2025.

Hann var sonur Elsu Guðnadóttur sem er búsett í Svíþjóð og Snorra Einarssonar sem er látinn.

Kistulagning fór fram 20. febrúar 2025 í Fossvogskapellu og bálför að henni lokinni.

Elsku Guðni okkar kom óvænt inn í líf okkar 6 ára gamall. Við Jökull vorum þá nýlega flutt heim frá Austurríki. Strákarnir náðu vel saman og bara eitt ár á milli þeirra. Guðni fór
að vera hjá okkur um helgar. Þeir léku sér saman heima hjá okkur og það var gaman í bakgarðinum á Brávallagötu. Þeir voru vinsælir í hverfinu og húsið fylltist reglulega af börnum sem sóttu í að vera með þeim.

Það var ýmislegt brallað og oft birtist Guðni óvænt eftir skóla, þá farinn að taka strætó úr Hafnarfirði og seinna úr Kópavogi. Strákarnir ákváðu að vera bræður og fljótlega var ég farin að kalla hann fósturson. Við vorum fjölskylda öll árin 14 sem Guðni var í lífi okkar.

Eftir fermingu flutti mamma hans til Svíþjóðar og þá fékk Guðni lögheimili hjá frænda
sínum og konu hans. Guðni bjó hjá þeim í 3-4 ár þar til hann fann sér kærustu og fór að heiman aðeins 17 ára. Hjá frænda sínum átti hann frændsystkini sem honum þótti mjög vænt um. Guðni kom reglulega til að hitta besta
vin sinn. Svo var farið að Hagaskóla í körfu eða tekin ein skák.

Guðni elskaði tónlist og sótti mikið í píanóið hjá okkur og átti auðvelt með að læra að spila. Hann hóf framhaldsskólagöngu sína í MK, fór svo í þjóninn á samning hjá Hilton. Hann var með mikla þjónustulund og ánægður í starfi en eftir einhverja mánuði þoldi stoðkerfið ekki löngu vaktirnar. Hann var því leitandi um tíma og gekk í nokkur störf.

Guðni var mikið með okkur í sumarbústaðnum á yngri árum. Eitt kvöldið í sumarbústaðnum þegar ég var að grilla og þeir ekki komnir heim hringdi ég í þá til að láta vita að maturinn væri tilbúinn og var svarið: já flott en við komumst ekki fyrr en eftir svona klukkutíma. Við erum uppi í fjalli og við komumst ekki niður því við rennum bara á rassinn. Við fórum í hellinn sem þú varst búin að segja að við mættum ekki fara í. Þarna urðu þeir smá hræddir og lærðu af þessu ævintýri. Eftir það var farið eftir reglum.

Þegar strákarnir voru litlir átti Guðni það til að vera svolítið alvörugefinn en Jökull reytti af sér brandarana til að hressa hann við. Þegar leið á unglingsárin varð Guðni meira fiðrildi. Lífið breytist með aldrinum og þegar hann var kominn með kærustu fækkaði komum til okkar en við vorum þó alltaf í sambandi reglulega og hittumst af og til.

Guðni var mjög upptekinn síðustu mánuðina enda í fullu starfi hjá Hagkaup í Kringlunni. Hann var í ábyrgðarstarfi,
vel liðinn og duglegur. Þegar hann kom í mat til okkar á jóladag var skálað í rauðvíni með steikinni en þó bara í einu glasi. Við vissum ekki af óreglu hjá honum og hann virtist meðvitaður um genin sín. Hann hafði sett sér mörk með
áfengi og átti það til að grínast með alkóhólismann í ættinni. Það var spilað og hlegið. Við vorum heppin að eiga góða stund saman. Guðni átti trausta vini og vinnufélaga sem nú syrgja góðan félaga. Góðu minningarnar lifa hjá okkur öllum sem þótti vænt um hann. Hann vildi alltaf það besta fyrir okkur.

Elsku Guðni okkar, farðu vel. Við elskum þig.

Hólmfríður
Jóhannesdóttir.