Þrír hafa látist í umferðarslysum síðustu daga. Einn var úrskurðaður látinn á vettvangi eftir alvarlegt umferðarslys skammt frá bænum Krossi á milli Djúpavogs og Breiðdalsvíkur skömmu fyrir hádegi í gær. Tveir bílar sem komu úr gagnstæðri átt skullu saman. Tveir voru í hvorum bíl, einn var úrskurðaður látinn á vettvangi en aðrir voru fluttir með þyrlum Landhelgisgæslunnar undir læknishendur á Landspítalann í Reykjavík.
Ökumaður jeppa lést í umferðarslysi á Hrunavegi við Flúðir á laugardagsmorgun. Tveir bílar rákust þá saman og var einn fluttur með þyrlu Landhelgisgæslunnar á Landspítala í Fossvogi. Bænastund var haldin í Hrunakirkju klukkan 11 í gærmorgun vegna slyssins.
Þá var tilkynnt í gær að barn á öðru ári hefði látist í bílslysi sem varð í Borgarfirði á fimmtudag í síðustu viku er rúta og jepplingur rákust saman. Slysið varð á gatnamótum Vesturlandsvegar og Vestfjarðavegar. Aðrir eru ekki alvarlega slasaðir. Rannsóknardeild lögreglunnar á Vesturlandi fer með rannsókn málsins.
Alls hafa fjórir látist í banaslysum í umferðinni í ár.