Formaður Carney er hokinn af reynslu úr bankakerfinu en hefur takmarkaða reynslu úr stjórnmálum. Samt vann hann afgerandi sigur í flokknum.
Formaður Carney er hokinn af reynslu úr bankakerfinu en hefur takmarkaða reynslu úr stjórnmálum. Samt vann hann afgerandi sigur í flokknum. — Dave Chan/AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mark Carney, verðandi forsætisráðherra Kanada og nýkjörinn leiðtogi Frjálslyndra, er tiltölulega nýr í stjórnmálum og verður annar forsætisráðherra í sögu Kanada sem ekki er með sæti á þingi. Hann er almennt talinn meiri miðjumaður en forveri hans,…

Baksvið

Hermann Nökkvi Gunnarsson

hng@mbl.is

Mark Carney, verðandi forsætisráðherra Kanada og nýkjörinn leiðtogi Frjálslyndra, er tiltölulega nýr í stjórnmálum og verður annar forsætisráðherra í sögu Kanada sem ekki er með sæti á þingi. Hann er almennt talinn meiri miðjumaður en forveri hans, Justin Trudeau, og mögulegt tollastríð við Bandaríkin virðist um stundarsakir vera að bjarga flokki hans frá pólitísku afhroði í þingkosningum sem fara fram á þessu ári.

Á sunnudag var Mark Carney kjörinn leiðtogi Frjálslynda flokksins með tæplega 86% greiddra atkvæða og fram undan eru stórar áskoranir. Nýir demókratar (NDP), sem varið hafa Frjálslynda vantrausti, hafa áður sagst vera til í að samþykkja vantraust á ríkisstjórnina ef slík tillaga verður lögð fram af Íhaldsflokknum og þá þyrfti að blása fyrr til kosninga, en þær eiga að fara fram í október.

Vert er þó að taka fram að NDP hefur áður gengið á bak orða sinna í þessum efnum og því er ekki ljóst hvort afstaða þeirra breytist nú með nýjum leiðtoga Frjálslyndra. Sjálfur sagði Jagmeet Singh, leiðtogi NDP, í febrúar að hann teldi að Carney myndi sjálfur boða til kosninga fyrr.

„Hann ætlar að boða til kosninga áður en ríkisstjórn tekur til starfa að nýju í lok mars. Þannig að við erum að undirbúa það,“ sagði Singh í febrúar um Carney.

Með reynslu úr bankakerfinu

Carney er 59 ára gamall og starfaði sem seðlabankastjóri Kanada á árunum 2008 til 2013 og var bankastjóri Seðlabanka Englands árin 2013 til 2020. Þá var hann sérstakur efnahagsráðgjafi Trudeau þegar þjóðin þurfti að takast á við kórónuveirufaraldurinn. Tekur hann við forsætisráðherraembættinu á næstu dögum. Carney var alinn upp í Alberta og voru foreldrar hans báðir kennarar. Hann er vel menntaður, með BA-gráðu í hagfræði frá Harvard og meistara- og doktorsgráðu í hagfræði frá Oxford. Hann starfaði í þrettán ár hjá Goldman Sachs áður en hann gekk til liðs við Seðlabanka Kanada.

Frjálslyndir hafa reynt að fá Carney í stjórnmálin í yfir áratug en hann sneri sér ekki formlega að stjórnmálum fyrr en Trudeau tilkynnti afsögn sína í janúar. Carney var með þrjá andstæðinga í formannsframboðinu en vann á endanum yfirburðasigur.

Loftslagsmál honum hugleikin

Eins og fyrr segir er Carney ekki sagður jafn vinstrisinnaður og Trudeau en stefna hans í loftslagsmálum, þá sérstaklega hvað varðar kolefnisskatta, hefur valdið því að íhaldsmenn hafa byrjað að uppnefna hann „Carbon Tax Carney“ eða kolefnisskatta-Carney.

Í kosningabaráttu sinni til að verða leiðtogi Frjálslyndra lagði hann hins vegar til að fjárhagsleg byrði kolefnisskattsins yrði færð frá almennum borgurum yfir til stórfyrirtækja. Carney hefur í baráttu sinni lagt mikla áherslu á samskipti við Bandaríkin, græna orku, loftslagsmál og efnahagslega velmegun. Miðað við kannanir segja Kanadamenn að Donald Trump Bandaríkjaforseti sé eitt helsta kosningamálið, nánar tiltekið hvernig kanadísk stjórnvöld bregðast við hótunum hans um 25% tolla og að gera Kanada að 51. ríki Bandaríkjanna.

„Þetta hefur leitt til uppgangs þjóðernishyggju, sem við höfum ekki séð lengi í Kanada, sem hefur í raun og veru komið Frjálslynda flokknum vel,“ sagði Jamie Tronnes, framkvæmdastjóri Center for North American Prosperity and Security, í viðtali við NPR í síðustu viku.

Í sigurræðu sinni á sunnudag lagði Carney sérstaka áherslu á nágranna sinn. Trump er að „ráðast á kanadískar fjölskyldur, starfsmenn og fyrirtæki og við getum ekki leyft honum að ná árangri og við munum ekki gera það“, sagði hann. „Í viðskiptum eins og í hokkí mun Kanada vinna.“

Bjargar Trump Frjálslyndum?

Áður en Donald Trump fór að beina spjótum sínum að Kanada stefndi allt í mikinn kosningasigur Íhaldsflokksins.

Samkvæmt CBS er Íhaldsflokkurinn áfram með gott forskot á Frjálslynda en það er þó helmingi minna en þegar Justin Trudeau sagði af sér í byrjun árs. Þótt mestar líkur séu á því að Íhaldsmenn fái flest þingsæti er nú mjög tvísýnt hvort flokkurinn nái hreinum meirihluta. Allt á þetta eftir að skýrast betur, en eins og fyrr segir er ekki ljóst hvort Kanadamenn kjósa í október eða á næstu mánuðum.

„Donald Trump verður með stórt bros á vörum er hann nýtir sér alla hagsmunaárekstra Carneys til að ráðast á kanadíska starfsmenn og kanadísk störf, en við íhaldsmenn munum ekki leyfa þeim [Carney og Trump] að gera það,“ sagði Pierre Poilievre, leiðtogi Íhaldsflokksins.

Höf.: Hermann Nökkvi Gunnarsson