Norður
♠ G94
♥ D987
♦ Á9
♣ ÁD83
Vestur
♠ D10752
♥ K105
♦ KD108
♣ 5
Austur
♠ K83
♥ G64
♦ G64
♣ G974
Suður
♠ Á6
♥ Á32
♦ 7532
♣ K1062
Suður spilar 3G.
Ein elsta bridslandskeppni heims, Camrose-keppnin, er háð árlega á Bretlandseyjum en þar reyna lið frá Englandi, Skotlandi, Wales, Norður-Írlandi og Írlandi með sér. Keppninni í ár, sem var sú 82. í röðinni, lauk um síðustu helgi með sigri Englendinga en þeir hafa samtals unnið 59 sinnum.
Í spilinu að ofan úr lokaumferð mótsins var enska parið Frances Hinden og Graham Osborne það eina sem reyndi geim í NS. Þar opnaði Osborne í suður á 1♣ og endaði í 3G eftir að AV höfðu sagt og stutt spaðann.
Vestur spilaði út litlum spaða og nían í borði kostaði kóng. Osborne spilaði næst hjarta og vestur hefði betur stungið upp kóng og skipt í tígul. En hann svaf á verðinum og lét lítið og drottningin í blindum átti slaginn. Osborne tók síðan fjóra slagi á lauf og spilaði spaða að gosanum til að búa til 9. slaginn.