Baksvið
Andrés Magnússon
andres@mbl.is
Mjög þrengist um Heiðu Björgu Hilmisdóttur borgarstjóra á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga (SÍS), þar sem hún hefur verið formaður frá 2022. Þar veldur þung umræða um launakjör hennar miklu.
Meðal sveitarstjórnarmanna sem Morgunblaðið hefur rætt við undrast flestir að borgarstjóri biðjist ekki lausnar sem formaður sambandsins. Við blasi að Heiða hafi ekki tíma til þess að sinna báðum störfum af kostgæfni, en það myndi einnig leysa hana úr klemmu í stjórninni og gagnvart félögum.
Óánægja með formanninn kraumar víðar og af fleiri ástæðum. Þar er helst talað um aðkomu Heiðu að kennaradeilunni, sem hafi reynst sveitarfélögum ákaflega kostnaðarsöm, en í því samhengi hika menn ekki við að nota orð eins og „trúnaðarbrest“.
Veiklaður formaður
Ellefu manna stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga er kosin á fyrsta landsþingi eftir sveitarstjórnarkosningar, en formaður sambandsins er kjörinn sérstaklega og er Heiða formaður kjörtímabilið 2022-2026.
Fram að því höfðu sjálfstæðismenn ávallt haft formennsku sambandsins með höndum frá því að það varð pólitískt kjörið 1990. Árið 2022 sömdu hins vegar framsóknarmenn, sem eiga næstflesta fulltrúa (og voru þá nýbúnir að mynda meirihluta með Samfylkinguna í Reykjavík), við Samfylkingu um að þeir veittu Heiðu Björg brautargengi til formennsku, þrátt fyrir að Samfylkingin ætti ekki marga sveitarstjórnarmenn á landsvísu.
Það gekk eftir en framsóknarmenn fengu varaformennskuna í sinn hlut, en auk þess fengu þeir að ráða því að Arnar Þór Sævarsson, aðstoðarmaður Ásmundar Einars Daðasonar, var ráðinn framkvæmdastjóri, en sú staða hafði fram að því verið ópólitísk.
Ósennilegt er talið að það bandalag verði endurnýjað.
Vænar launahækkanir
Eins og fram kom í Morgunblaðinu á laugardag fékk Heiða Björg Hilmisdóttir vænar launahækkanir sem formaður. Sambandið veitti blaðinu raunar ekki fyllilega rétt svör, sem fyrstu fregnir byggðu á. Þar kom fram að mánaðarlaun hennar sem formanns hefðu nær þrefaldast milli ára, farið úr 285.087 kr. í upphafi árs 2023 í 868.671 kr. á mánuði í upphafi þessa árs.
Að öllu jöfnu er ekki unnið hjá sambandinu um helgar, en á sunnudag var fjölmiðlum send leiðrétting um að í upphaflegum upplýsingum til blaðsins hefði ekki verið tekið tillit til yfirvinnugreiðslna 2023, en allt vinnuframlag væri inni í tölum frá 2025. Þá bættist einnig við 105.750 kr. greiðsla á mánuði fyrir akstur.
Því hefðu laun formannsins „aðeins“ hækkað um 50% frá 2023.
Margt er enn óljóst um kjör formannsins miðað við það sem áður hefur tíðkast. Morgunblaðið óskaði því eftir nánari upplýsingum frá sambandinu um það, en þær höfðu enn ekki borist í gærkvöld.
Kjarabarátta í stjórninni
Eftir því sem blaðið kemst næst var lengst af sá háttur hafður á – líkt og í öðrum stjórnum á vegum sveitarfélaga – að formaður hefði tvöföld stjórnarlaun, auk fastrar 40 tíma yfirvinnu.
Heiða Björg mun hins vegar ekki hafa fellt sig við þessi kjör og hreyfði því fljótlega í stjórn að hækka þyrfti laun formanns verulega. Starfið væri umfangsmikið og erfitt. Sagt er að ein milljón króna hafi verið nefnd sem lágmark þess sem sæmandi væri.
Um það var ekki eining í stjórninni, sumir töldu óskynsamlegt að breyta hinu almenna fyrirkomulagi, ekki voru allir sannfærðir um nauðsyn launahækkunar, enda hefði eðli formennskunnar ekki breyst. Helsta breytingin væri einn fjarfundur í mánuði, sem væri ekki svo íþyngjandi að það kallaði á stökkbreytt laun. Loks stóð í flestum að fara með launin yfir milljón á mánuði.
Á endanum varð lendingin sú að viðurkenna formennskuna sem starf, hálft starf, en kjörin tengd við þingfararkaup. Launin eru því eins og fyrir hálft þingmannsstarf. Við það bættust svo liðlega 100 þúsund krónur í aksturskostnað á mánuði.
Þessi skilgreining á formennskunni sem hálfu starfi kann hins vegar að vefjast fyrir formanninum nú, eftir að Heiða Björg varð borgarstjóri. Hildur Björnsdóttir, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn, hefur þannig bent á að borgarstjóraembættið sé ákaflega annríkt og vel launað í samræmi við það. Útilokað sé fyrir borgarstjóra að annast hálft starf á öðrum vettvangi samhliða því.