Íslendingur á áttræðisaldri lést eftir alvarlegt bílslys á sunnudag skammt frá bænum Krossi í Berufirði, á milli Djúpavogs og Breiðdalsvíkur. Ökumaður og farþegi voru í hvorum bíl, en í öðrum bílnum voru ferðamenn.
Lögreglunni á Austurlandi barst tilkynning um áreksturinn kl. 11.45 á sunnudag og strax var ljóst að slysið væri mjög alvarlegt. Sjúkralið og tækjabifreiðar úr Fjarðabyggð og Djúpavogi voru send á vettvang auk alls tiltæks lögregluliðs. Maðurinn var úrskurðaður látinn á vettvangi.
Þrír voru fluttir með þyrlum Landhelgisgæslunnar á Landspítalann í Reykjavík til aðhlynningar. Rannsókn á slysinu stendur enn yfir.