Knattspyrnumaðurinn Sævar Atli Magnússon verður samningslaus hjá Lyngby í Danmörku eftir tímabilið, en hann kom til félagsins sumarið 2021. Hingað til hafa viðræður á milli Sævars og félagsins ekki gengið upp og er honum því frjálst að semja við annað félag í sumar. Hann hefur m.a. verið orðaður við Brann, þar sem Freyr Alexandersson er þjálfari. Freyr þjálfaði Sævar hjá Lyngby og uppeldisfélagi þeirra beggja, Leikni í Reykjavík.
Ítalinn Andrea Berta verður næsti íþróttastjóri enska knattspyrnufélagsins Arsenal. The Athletic segir frá en Berta tekur við af Jayson Ayto sem hefur verið bráðabirgðaíþróttastjóri félagsins eftir að Edu hætti í nóvember. Berta var íþróttastjóri Atlético Madrid í átta ár áður en hann hætti í janúar á þessu ári. Miðilinn segir jafnframt frá því að mikið verði að gera hjá Berta fyrstu mánuði hans í starfi en karlalið Arsenal stefnir á að styrkja sig til muna næsta sumar.
Josh Allen, leikstjórnandi í ruðningi, hefur skrifað undir nýjan samning við Buffalo Bills til ársins 2030. Hann mun þéna 330 milljónir bandaríkjadala á þeim tíma, sem nemur um 45 milljörðum íslenskra króna. Allen verður þar af leiðandi launahæsti leikmaður í sögu NFL-deildarinnar. Allen var valinn mikilvægasti leikmaður deildarinnar á síðustu leiktíð en hann fór með lið sitt í undanúrslit NFL-deildarinnar.
Samtök enskra knattspyrnumanna, PFA, tilkynntu í gær að Mohamed Salah hjá Liverpool hefði verið kjörinn besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar í febrúar. Salah skoraði sex mörk í sex leikjum í deildinni í febrúar og auk þess eitt í deildabikarnum.
Florian Wirtz, knattspyrnumaðurinn efnilegi hjá Þýskalandsmeisturum Leverkusen, verður frá keppni næstu vikurnar en hann fór meiddur af velli í leik gegn Werder Bremen um helgina. Wirtz er aðeins 21 árs en hefur skorað 15 mörk fyrir Leverkusen í vetur og auk þess þrjú mörk fyrir Þýskaland í Þjóðadeildinni.