Hrólfur Hreiðarsson fæddist 17. janúar 1979. Hann lést
7. febrúar 2025.
Útför Hrólfs fór fram 21. febrúar 2025.
Það er hálf óraunverulegt að setjast niður og skrifa þessi orð. Mér finnst svo stutt síðan að við Hrólfur vorum að ræða það hversu hverfult lífið geti verið og nú er hann farinn í ljósið.
Vinskap okkar Hrólfs má rekja áratugi aftur í tímann eða til byrjunar 9. áratugs síðustu aldar. Þá fengu mæður okkar þá ágætu hugmynd að við gætum leikið saman því þær unnu saman. Þarna varð til vinátta sem entist fram á þennan dag og til eilífðar úr þessu.
Það hefur verið mér ótrúlega dýrmætt að eiga Hrólf að á hinum ýmsum æviskeiðum, mér fannst hann alltaf ógeðslega flottur, dáðist að endalausri sköpunargáfu hans og elju.
Þegar við vorum litlir var heilt ævintýri að koma í heimsókn til Hrólfs, þar voru hlutirnir ekki eins og annars staðar. Það var farið í alls konar leiki, hverfið morandi af krökkum og svo var sníktur smá peningur af Fríðu og farið út í sjoppu að kaupa grænan hlunk.
Á unglingsárum teygðist aðeins á milli okkar en við náðum svo aftur saman í unglingadeild Björgúlfs, SVFÍ. En þar var jafnframt lagður grunnur að vinahóp sem enn heldur saman. Hópurinn er svolítið random mix af mönnum en nær saman á fallegan hátt. Þennan hóp hefur verið dýrmætt að eiga í gegnum árin og margt verið brallað og margt verið gert. Eitt hefur þessum hópi þó ekki tekist þrátt fyrir nokkrar tilraunir, en það er að landa fiski. Hópnum þótti ekki annað við hæfi en að stofna stangveiðifélag utan um vinskapinn og nefna það Nótina. En það er skemmst frá því að segja að eftir að hafa rennt fyrir fiski með þessum mönnum er ekki svo galin hugmynd að reyna að veiða í Bláa lóninu.
Síðustu árin vorum við Hrólfur minna að leika okkur saman en unnum þeim mun meira saman. Á þeim stundum áttum við mörg dýrmætt samtöl um lífið og tilveruna, og svo auðvitað heilmikið af samtölum sem er best að hafa ekki á prenti.
Mér þótti svo ótrúlega vænt um, sem lýsir Hrólfi svo vel, að þegar ég var lasinn inni á sjúkrahúsi síðasta sumar tékkaði hann reglulega á mér og stappaði í mig stálinu. Þó svo að hann ætti nóg með sín veikindi sem voru risa fjall að klífa.
Í lok september sl. kíkti ég á Hrólf og náði að eiga við hann gott spjall. Þá var hann viss um að almættið væri að segja okkur eitthvað með veikindunum, helst datt honum í hug að það væri að við ættum að slaka á í lífinu. Ég held að það sé bara nokkuð rétt, hætta lífsgæðakapphlaupinu, stíga út úr hamstrahjólinu og einbeita okkur að því sem raunverulega skiptir máli. Fólkinu okkar, fjölskyldu okkar, vinum okkar. Búa til minningar, fara á tónleika, flytja upp í Borgarnes, drekka Diet Coke og láta draumana rætast.
Ég kveð þig elsku besti Hrólfur minn með miklum söknuði, sjáumst í ljósinu. Elska þig!
Árni Magnússon.