Óskar Bergsson
oskar@mbl.is
Eyjólfur Ármannsson samgönguráðherra lýsti ánægju sinni með fundinn með sveitarstjórnarmönnunum og sagði hann hafa verið mikilvægan.
„Ástandið á vegum Vesturlands er grafalvarlegt og kallar á aðgerðir. Vegirnir liggja undir skemmdum og mikilvægt að virði þeirra sé varið. Ef ekki mun það leiða til meiri kostnaðar við viðhald síðar. Það er þegar orðið svo með holufyllingum víða.“
Eyjólfur hefur lagt fram minnisblað í ríkisstjórn og sent bréf til fjármálaráðherra um ástand vega á Vesturlandi.
Í frétt mbl.is í síðustu viku sagði ráðherrann að mögulega yrði hægt að veita fjárauka úr varasjóði ríkissjóðs. Sjálfur hefur hann keyrt suma vegina á Vesturlandi og tekur undir að þörf sé á viðhaldi.
„Vegagerðin er búin að óska eftir frekari fjárveitingum svo hún geti farið í nauðsynlegt viðhald.“