Ragnar Þór Ingólfsson
Ragnar Þór Ingólfsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hrafnarnir í Viðskiptablaðinu „heyra að á fjármálamarkaði er fátt talað meira um en hinn nýstofnaða neyðarsjóð Ragnars Þórs Ingólfssonar, þingmanns Flokks fólksins, og fjölskyldu hans

Hrafnarnir í Viðskiptablaðinu „heyra að á fjármálamarkaði er fátt talað meira um en hinn nýstofnaða neyðarsjóð Ragnars Þórs Ingólfssonar, þingmanns Flokks fólksins, og fjölskyldu hans.

Ragnar stofnaði neyðarsjóðinn eftir að hann fékk í hendurnar tæpar tíu milljónir frá félögum sínum í VR vegna starfsloka sem formaður verkalýðsfélagsins. Hrafnarnir heyra að sjóðsstjórar í bönkum og verðbréfafyrirtækjum bíði spenntir [eftir áherslum Ragnars við] stýringu sjóðsins. Ekki síst þar sem Ragnar hatar fátt meira en jákvæða raunvexti og hefur ítrekað sagt slíkt „vera dekur við fjármagnseigendur“.

Þingmanninum er því vandi á höndum vilji hann ekki að höfuðstóll neyðarsjóðsins rýrni. Ein lausn gæti þó verið að ráða Gylfa Magnússon viðskiptafræðing sem sjóðsstjóra. Gylfi benti á dögunum að það væri ákaflega ábatasamt fyrir ríkið að skulda pening og eiga hlutabréf í bönkum á sama tíma. Því gæti Gylfi gírað upp neyðarsjóð Ragnars hressilega og tekið þátt í fyrirhuguðu útboði á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Vafalaust mun neyðarsjóður Ragnars skipa sér þar í flokk fagfjárfesta.“

Þá er spurningin hvort hinn ofurlaunaði borgarstjóri Heiða Björg Hilmisdóttir stofni ekki líka neyðarsjóð og fjárfesti. Skuldabréf Reykjavíkurborgar hljóta að koma sterklega til greina.