Sigurhanna Gunnarsdóttir fæddist á Húsavík 21. desember 1932. Hún lést í faðmi fjölskyldunnar á heimili sínu 26. febrúar 2025.

Foreldrar hennar voru Elín Málfríður Jónsdóttir húsfreyja og Gunnar Maríusson, bóndi á Bakka, Tjörnesi. Sigurhanna var elst tólf systkina í Marahúsi en systkini hennar voru í aldursröð: Sigurhanna, Jón Bergmann, Helga, Hlaðgerður, Björg, Maríus, Matthildur, Sigurlaug, Vigdís, Inga Kristín, Benedikt og Hákon. Látnar eru Björg og Helga.

Árið 1952 giftist Sigurhanna Jóni Einari Hjartasyni frá Melabergi í Miðneshreppi, f. 3. maí 1931, d. 24. október 2014. Foreldrar hans voru Sveinbjörg Jónsdóttir húsmóðir og Hjörtur Björgvin Helgason, bóndi og kaupfélagsstjóri í Sandgerði.

Börn Sigurhönnu og Jóns eru: 1) Elín Björg, maður hennar var Davíð O. Daviðson, d. 8. september 2020. Synir þeirra eru Einar Örn og Olav Veigar. Barnabörnin eru fjögur. 2) Hjörtur Bergmann, kvæntur Hrönn Guðmundsdóttur. Börn þeirra eru Hákon, Hrafnhildur Hlín og Sigurhanna Björg. Barnabörnin eru átta. 3) Gunnar Hrafn, kvæntur Berglindi Sigurðardóttur. Synir þeirra eru Þráinn Ómar, Zophanías Friðrik og Sigurjón Einar. Barnabörnin eru átta.

Yngsti sonur Sigurhönnu og Jóns lést skömmu eftir fæðingu.

Sigurhanna ólst upp í stórum systkinahópi í Marahúsi á Húsavík. Auk þeirra systkina og foreldra þeirra bjuggu amma þeirra og afi í húsinu. Þrátt fyrir að ekki væru fermetrarnir margir var alltaf nægt rými fyrir alla, líf og fjör, mikill kærleikur og nægur matur handa öllum.

Sigurhanna og Jón hófu sinn búskap í Reykjavík og síðar Kópavogi þar sem þau keyptu sína fyrstu íbúð. Árið 1961 keyptu þau jörðina Læk í Ölfusi. Fyrst bjuggu þau með hefðbundinn búskap þess tíma. Síðar stundaði Jón vörubílaakstur og rak plastverksmiðjuna Plastmótun til fjölda ára. Hanna á Læk var fyrst og fremst húsmóðir en vann þess utan við ýmis störf. Árið 2021 flutti Sigurhanna í íbúð að Egilsbraut 9 í Þorlákshöfn. Bestu stundir hennar voru þegar hún gat dvalið í húsinu sínu og í fallega garðinum sem hún og Jón höfðu ræktað á Læk.

Sigurhanna var mikil félagsmálakona og lét samfélag sitt sig miklu varða. Hún var m.a. formaður Sambands sunnlenskra kvenna og heiðursfélagi í Félagi eldri borgara í Ölfusi.

Útför Sigurhönnu, Hönnu á Læk, fer fram frá Þorlákskirkju í Þorlákshöfn í dag, 11. mars 2025, og hefst athöfnin klukkan 14.

„Ljósið mitt“ er það ávarp sem amma Læk notaði helst þegar hún talaði við okkur, barnabörnin sín. Það er lýsandi fyrir þá miklu og skilyrðislausu ást, áhuga og óendanlegu tiltrú sem hún hafði á okkur. Ekkert þótti henni fallegra og merkilegra en afkomendur hennar. Það var raunar sama hvað við gerðum, ævinlega sýndi hún því mikinn áhuga, spurði hvernig gengi, sýndi því skilning ef ekki úr rættist en samfagnaði innilega sigrunum, sem í hennar augum voru alltaf stórir.

Alltaf var tími og pláss fyrir alla og gott að koma til ömmu og afa Læk. Þar var öllum fagnað og eins og lög gera ráð fyrir, reynt að koma mat í liðið. Amma nestaði okkur með ýmsu góðgæti og heitu súkkulaði í flösku og ullarsokki fyrir ævintýraferðir, upp í fjall, út í Álfaborgir eða niður í mýri og Þorleifslæk. Vaskahúsið á Læk var iðulega fullt af fötum af okkur krökkunum eftir slíkar ferðir og aldrei gerði hún athugasemdir við það þó við mættum eins og dregin upp úr haug, oft á dag. Í mesta lagi að hún tæki undir að jú, þessi lækur ætti það vissulega til að hoppa á fólk.

Amma og afi ræktuðu dásamlegan garð á Læk sem þau höfðu mikið yndi af. Amma talaði jafnan um tegundir trjáplantna en eins og aðrir tala um ættfræði. Tilraunaræktun af ýmsum toga og fjöldi trjáa víða um land ber þess merki. Á fáeinum árum tókst þeim afa að breyta öllu heimatúninu á Læk í risastóran skrúðgarð sem eftir var tekið.

Amma á Læk hafði sterkar skoðanir á því sem hún taldi mikilvægt. Hún var jafnréttissinni, trúði á samtakamátt og samfélagið sitt, sem hún vildi allt hið besta. Hún bar sterkar taugar til heimahaganna á Húsavík og sagði okkur gjarnan sögur þaðan, en hún var líka Ölfusingur.

Eftir fráfall afa hélt amma sínu striki, fylgdist með öllu sínu fólki og miðlaði fréttum af því okkar á milli. Hún var áfram sú sem við gátum alltaf leitað til, allt til síðasta dags. Nú, þegar hún hefur leitt okkur, fylgt okkur, stutt og hvatt áfram öll þessi ár er kominn tími til að kveðja hina einu sönnu ömmu á Læk.

Olav Veigar Davíðsson.

Fyrir mörgum varstu öflug kona á Læk í Ölfusi sem lagðir þitt af mörkum til að efla samfélagið og vitna margir samferðamenn um það. Fyrir mér varstu amma sem gott var að koma til, hlusta á sögur, borða góðan íslenskan mat og ræða málin. Og alltaf hafðirðu tíma fyrir mig og okkur barnabörnin.

Öll æska mín er samofin okkar samvistum, hvort sem það voru kaldir vetur eða sumrin í garðinum ykkar afa. Þú varst alltaf skilningsrík og hafði fullan skilning á því að ungir menn þurfa að veiða og gátu ekki sinnt öðrum verkum vegna veiði í bæjarlæknum eða vatnasvæði Ölfuss.

Þó að þú hafir nú lokað augunum í hinsta sinn verða öll þín ljóð og góðu ráð áfram með okkur, allt það sem skiptir mestu máli í lífinu, heimilið, fjölskyldan, hlýjan.

Ég kveð þig elsku amma mín.

Einar Örn.

Það er oft skammt stórra högga á milli. Aðeins er um mánuður liðinn síðan mágkona mín, Helga, lést og var jarðsungin frá Húsavíkurkirkju. Og þann 26. febrúar sl. lést önnur mágkona mín, Sigurhanna Gunnarsdóttir, lengst af búsett á Læk í Ölfusi. Hanna, eins og hún var jafnan kölluð, elst í tólf systkina hópi sem kenndur hefur verið við Marahús á Húsavík, var komin á tíræðisaldurinn og bjó síðustu árin í „Níunni“, þjónustuíbúðum fyrir aldraða í Þorlákshöfn. Hugur, hugsun og umhyggja fyrir sínum var enn í góðu lagi en líkamleg heilsa aðeins að gefa sig síðustu misserin og því má segja að kallið hafi ekki verið óvænt þegar það kom.

Hanna var gift Jóni Hjartarsyni sem lést 24. okt. '14 og áttu þau þrjú börn sem öll eru búsett í héraðinu, eitt á Læk og tvö í Þorlákshöfn. Það má því segja að Hanna hafi verið umvafin sínu nánasta fólki alla tíð og naut hún þess svo sannarlega til hins síðasta. Þau hjón voru mjög samheldin og fengust við margt um ævina því Jón var hugmyndaríkur og alltaf tilbúinn til að takast á við ný og fjölbreytt verkefni og Hanna að sjálfsögðu áhugasöm um að styðja hann í verki. Eftir nokkurra ára búsetu í Reykjavík festu þau kaup á jörðinni Læk í Ölfusi og stunduðu þar fyrst hefðbundinn kúa- og fjárbúskap og ráku síðar kjúklinga- og eggjabú. En stærsta verkefni þeirra var að koma á fót og reka þar plastverksmiðju um árabil. Fyrir utan röraframleiðslu m.m. hófu þau að endurvinna ýmis úrgangsplastefni s.s. ónýtar fiskinætur og fiskikör. Segja má að með því hafi þau staðfest áhuga sinn á hvers konar umhverfis- og ræktunarstarfi. Þau gróðursettu mikið af trjám í landareigninni og ræktuðu matjurtir fyrir heimilið. Hanna var mikil „blómakona“. Jón byggði því gróðurhús fyrir Hönnu sína þar sem hún ræktaði rósir og margvísleg önnur blóm og kom á legg trjáplöntum sem þau hjón settu svo niður í landinu sínu eða gáfu ættingjum og vinum. Þau eru ófá trén við sumarhús okkar Viggu sem ættuð eru frá Hönnu á Læk.

Hanna var mikil félagsmálakona og lét sig mjög varða hvers konar samfélagsmál. Hún tók virkan þátt í starfsemi kvenfélagsins Bergþóru og var um tíma formaður Sambands sunnlenskra kvenna. Hún var líka mikil fjölskyldumanneskja, þótti vænt um og var stolt af börnum sínum og öllum afkomendum. Það var notalegt að koma í heimsókn til Hönnu og Jóns. Lengi vel bjuggu þau í „gamla“ húsinu á Læk en síðar, þegar heilsan fór aðeins að gefa eftir, var það stóra tveggja hæða hús heldur erfitt í umgengni svo þau byggðu sér nýtt, fallegt og notalegt hús á einni hæð á staðnum. Þangað var líka gott að koma og eiga spjall við þau hjón og síðar Hönnu sem bjó þar áfram í nokkur ár eftir fráfall Jóns. Þar var stór sólpallur fullur af blómapottum og stutt út í gróðurhúsið sem Hanna naut að annast um svo lengi sem heilsan leyfði.

Við Vigga þökkum Hönnu fyrir samfylgdina og allar samverustundirnar á liðnum árum. Blessuð sé minning hennar. Við sendum börnum Hönnu og öllum afkomendum og ástvinum innilegar samúðarkveðjur og biðjum þeim guðs blessunar.

Guðmundur Bjarnason.