Meðferðarheimili Stuðlar hafa verið lokaðir í nokkra mánuði.
Meðferðarheimili Stuðlar hafa verið lokaðir í nokkra mánuði. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Unnið er að samkomulagi milli ríkis og sveitarfélaga um að ábyrgð á þjónustu við börn með fjölþættan vanda færist alfarið til ríkisins. Er m.a. átt við börn með miklar þroska- og geðraskanir, sem glíma við fíkni- og hegðunarvanda og hafa verið…

Unnið er að samkomulagi milli ríkis og sveitarfélaga um að ábyrgð á þjónustu við börn með fjölþættan vanda færist alfarið til ríkisins. Er m.a. átt við börn með miklar þroska- og geðraskanir, sem glíma við fíkni- og hegðunarvanda og hafa verið vistuð á meðferðarheimilum eða fengið önnur sértæk úrræði.

Upplýst var um samkomulagið á fundi ríkisstjórnarinnar með sveitarfélögum á Suðurnesjum nýverið, en Víkurfréttir greindu fyrst frá málinu. Stefnt er að undirritun samkomulags við Samband íslenskra sveitarfélaga á næstunni. Miðað er við að ríkið komi með fjármagn í þetta frá 1. júní nk. og taki alfarið við ábyrgð á kostnaði um næstu áramót. Heildarkostnaður er áætlaður um fjórir milljarðar króna en árlega hafa 34-36 börn þurft á þessari þjónustu að halda.

Samkomulagi fagnað

Magnús Stefánsson bæjarstjóri í Suðurnesjabæ fagnar þessu samkomulagi í samtali við Morgunblaðið. Sveitarfélagið er í hópi nokkurra sem sent höfðu ríkisstjórninni neyðarkall um að ríkið kæmi til aðstoðar án tafar. Mikill skortur hafi verið á meðferðarúrræðum og sveitarfélög ráði ekki við kostnað af þessari þjónustu sem þó er veitt.

Suðurnesjabær hefur verið með tvö börn í einkareknum úrræðum, sem kostað hefur sveitarfélagið um 330 milljónir króna.

„Við höfum verið í baráttu við ríkið um að taka þetta að sér, fleiri sveitarfélög hafa verið í sömu stöðu. Fyrir sveitarfélag af okkar stærðargráðu eru þetta hlutfallslega mjög mikil útgjöld. Við höfum jafnframt talið að börnin séu ekki að fá þá þjónustu sem þeim ber, sér í lagi þau börn sem þurfa á umfangsmestri þjónustu að halda,“ segir Magnús.

Sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu áttu fund með þingmönnum sl. föstudag þar sem þessi mál voru rædd.