Jónína Björk Óskarsdóttir
Jónína Björk Óskarsdóttir
Á dagskrá þingfundar í dag er mikilvægt frumvarp sem snýr að breytingum á lögum um sorgarleyfi. Félags- og húsnæðismálaráðherra hefur lagt fram frumvarpið í þeim tilgangi að bæta aðstæður fjölskyldna sem lenda í þeim erfiðu aðstæðum að missa ástvin

Á dagskrá þingfundar í dag er mikilvægt frumvarp sem snýr að breytingum á lögum um sorgarleyfi. Félags- og húsnæðismálaráðherra hefur lagt fram frumvarpið í þeim tilgangi að bæta aðstæður fjölskyldna sem lenda í þeim erfiðu aðstæðum að missa ástvin. Við gerð frumvarpsins var m.a. byggt á tillögum frá Gleym mér ei – styrktarfélagi og Sorgarmiðstöðinni. Markmið frumvarpsins er að veita fjölskyldum sem glíma við missi ástvinar nauðsynlegan stuðning og svigrúm til að vinna úr sorginni.

Samkvæmt frumvarpinu á foreldri sem missir maka sinn rétt á allt að sex mánaða sorgarleyfi eða sorgarstyrk, en hingað til hefur það aðeins átt við um missi barns, andvanafæðingu eða fósturlát. Þessi breyting er talin sérstaklega mikilvæg þar sem hún viðurkennir að missir maka getur haft veruleg áhrif á fjölskyldulíf og getu foreldris til að sinna börnum sínum og vinnu. Það er grundvallaratriði að samfélagið standi við bakið á einstaklingum sem glíma við sorg og missi, enda hefur slík reynsla víðtæk áhrif á andlega líðan og daglegt líf fólks og fjölskyldna þess.

Með því að veita foreldri sem missir maka rétt til töku sorgarleyfis er verið að gefa því tækifæri til að vinna úr sorginni og aðlagast breyttum aðstæðum. Ljóst er að foreldri sem styður syrgjandi barn á sama tíma og það syrgir sjálft maka sinn upplifir mikið álag og þykir því mikilvægt að veittur sé stuðningur og aukið svigrúm til sorgarúrvinnslu við slíkar aðstæður. Þessi réttur er ekki síður mikilvægur fyrir barn sem missir foreldri sitt. Barnið gengur í gegnum sorg og þarf tíma til að vinna úr þeirri sorg, þá er samvera með foreldri mjög mikilvæg á þessum erfiðu tímum.

Auk þess að setja í lög ákvæði um sorgarleyfi vegna makamissis eru einnig í frumvarpinu tillögur um lengingu sorgarleyfis vegna fósturláts og andvanafæðingar.

Þessar breytingar snerta aðallega foreldra og börn þeirra og ættu að stuðla að meira jafnrétti á vinnumarkaði óháð efnahag og kyni. Það er mikilvægt að vinnumarkaðurinn sé sveigjanlegur og taki tillit til fjölskylduaðstæðna, sérstaklega þegar fjölskyldur ganga í gegnum erfiða tíma eins og missi ástvinar.

Þetta frumvarp er afar mikilvægt skref til að veita fjölskyldum nauðsynlegan stuðning á erfiðum tímum. Frumvarpið miðar að því að styrkja öryggisnet samfélagsins og stuðla að heilbrigðari vinnumenningu sem setur hagsmuni og þarfir fjölskyldunnar í forgang. Með samþykkt þessa frumvarps er stigið jákvætt skref til að bæta líf fólks og leggja grunn að umhyggjusamara samfélagi.

Höfundur er þingmaður Flokks fólksins í Suðvesturkjördæmi.

Höf.: Jónína Björk Óskarsdóttir