Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
„Ég tek undir það heilshugar. Allir félagsmenn mínir sem komið hafa nálægt nótaveiði hafa horft upp á fjölgun á hnúfubak ár frá ári,“ segir Árni Sverrisson, formaður Félags skipstjórnarmanna, í samtali við Morgunblaðið, en álits hans var leitað á áformum þingmanna um að leggja fram þingsályktunartillögu á Alþingi þess efnis að farið verði í að rannsaka afrán hnúfubaks á Íslandsmiðum.
Eins og fram kom í Morgunblaðinu í gær telja þingmennirnir Vilhjálmur Árnason og Jens Garðar Helgason brýnt að rannsaka áhrif stækkandi stofns hnúfubaks á afkomu nytjastofna, einkum loðnustofninn, og koma þar vísindaveiðar til álita.
Árni segir að hnúfubakur sé farinn að hafa vetursetu við landið sem sé breyting frá því sem áður var.
„Nú er hnúfubakurinn inni á fjörðum og flóum allt árið. Hvalaskoðunarbátarnir í Reykjavík fara inn í Sundahöfn af öllum stöðum til að sýna hvali. Og á Eyjafirði sjást hvalir nær undantekningarlaust í hvalaskoðunarferðum. Reyndir nótaskipstjórar segja mér að það séu sömu 20 dýrin sem halda sig inni á Eyjafirði allan veturinn,“ segir Árni.
Eru í loðnunni á fullu
„Það er ekki nein spurning, við verðum að afla meiri vitneskju um hvað þessi dýr eru að éta. Í mínum huga þarf varla að rannsaka það, ég veit að þeir eru í loðnunni á fullu,“ segir hann.
Árni telur reyndar að fleiri atriði komi við sögu þegar kemur að orsökum þess að loðnustofninn fer minnkandi, eins og umhverfisþættir, en eigi að síður éti hvert dýr a.m.k. 700 kíló á dag. Hann segir að það valdi sér ugg að hrefna og hnúfubakur haldi sig mikið á grunnsævi þar sem uppeldisstöðvar bolfisks og síldar séu. Á Eyjafirði segir hann vera fræg smásíldarsvæði og þar séu hvalir á beit.
Hvalurinn vegur þungt
„Það þarf engan Einstein til að sjá hvað er að gerast. Hvalurinn liggur í þessum fiski. Hann er örugglega ekki eina breytan í þessu, en vegur örugglega mjög þungt. Það er enginn vafi á að mikil þörf er á að rannsaka þetta,“ segir Árni.
Í samtali við Morgunblaðið í gær sagði Þorsteinn Sigurðsson forstjóri Hafrannsóknastofnunar að fyrir síðustu aldamót hefði orðið breyting á útbreiðslu loðnu og hún þurft að hörfa til vesturs í kaldari sjó. Það kynni að vera ein skýringin á að stofninn ætti erfitt uppdráttar. Eftir stæði spurningin hver meginorsökin fyrir minnkandi loðnustofni væri; breyting á útbreiðslu eða afrán hnúfubaks, og kvaðst Þorsteinn ekki kunna svar við því.