Elías Elíasson
Elías Elíasson
Frelsi þjóðarinnar til hugarfars, eigin skoðanamyndunar og ákvarðana á grunni frjálsrar umræðu er það sem okkur ber að varðveita.

Elías Elíasson

Grunngildi Sjálfstæðisflokksins, frelsi og einstaklingsframtak, eru aldagömul og sígild. Einstaklingurinn þarf að finna hæfni sinni þann farveg sem er honum sjálfum til mestra heilla. Þannig nýtist hann samfélagsinu best. Hann verður að finna starf þar sem hæfni hans nýtur sín, einstaklinga sem hann eflist við að starfa með og starfsumhverfi þar sem honum líður vel. Þetta þarf hann að gera á þremur sviðum er varða atvinnu, heimili og frístundastarf. Öll þessi leit kostar tíma og að lokinni leit taka störf og ferðir tíma.

Tíminn

Tíminn er það verðmæti sem hver einstaklingur verður að greiða fyrir allt sem hann gerir. Þegar hann ferðast milli manna og tækifæra kostar það tíma. Þegar hann beitir kröftum sínum eða hugarafli kostar það tíma. Þegar við eldumst rís fram undan sá múr tímans sem við komumst ekki gegnum en við höldum samt áfram að starfa horfandi á börnin sem komast lengra. Þau eru framhaldslíf okkar.

Þjóðfélagið stækkar, þróast og verður fjölbreyttara. Ferðum milli manna, vinnu og heimilis eða viðskiptastaða fjölgar og þær lengjast en verða að taka minni tíma. Þannig skiptir hraðinn æ meira máli. Þess vegna hafa hraðari samgöngur breytt jafn miklu og raun ber vitni.

Frelsið

Með hugtakinu frelsi er bæði vísað til frelsis þjóðarinnar og frelsis einstaklingsins til að finna framtaki sínu farsælan farveg sjálfum sér og þjóð sinni til heilla. Okkur hefur farnast best þegar þjóðin er frjáls, er oft sagt og þá gjarnan vitnað til viðskiptafrelsis. En frelsi er miklu víðtækara hugtak, eins og þeir sem komust til vits og ára í hita „kalda stríðsins“ á síðustu öld skiljum mæta vel. Frelsi þjóðarinnar til hugarfars, eigin skoðanamyndunar og ákvarðana á grunni frjálsrar umræðu er það sem okkur ber að varðveita. Frelsi einstaklingsins til að ráða eigin tíma, lágmarka tímann til ferðalaga og hámarka hann til starfa bæði heima og utan heimilis er jafn mikilvægt.

Tæknin

Fátt þykir hafa valdið meiri breytingum fyrr á öldum en gufuvélin og afsprengi hennar, járnbrautarlestin. Síðar tók bíllinn við og flugið og bættu um betur. Þessir hraðari ferðamátar gerðu einstaklingnum kleift að fara víðar og kynnast betur fjölbreytni mannlegs samfélags. En hraðari ferðamáti og vélvæðing iðnaðar dreifði ekki byggðum eins og sumir töldu að gæti gerst, heldur þjappaði saman í borgir. Tækifæri einstaklingsins til að finna til samstarfs aðra sem efldust með honum margfölduðust, efnahagsleg þróun þaut áfram og lífsgæði jukust. Hin stafræna tækni nútímans bætti enn við möguleikana til mannlegra samskipta, tækifæri til framleiðslu þekkingar margfölduðust og nú er gervigreindin að bæta í. Með stafrænu tækninni getum við skipt um eigendur að fiskafla en eftir sem áður þarf að flytja hann um vegi milli staða. Tæknin sparar tíma en gildi vegakerfisins hefur ekki minnkað, það er enn sama undirstaðan og var. Hin gömlu gildi fyrnast ekki.

Andstæðan til vinstri

Þeir sem hallast lengst til vinstri í pólitík virðast hafa komist á þá skoðun að hraðinn í þjóðfélaginu sé of mikill og hann þurfi að minnka. Það er lærdómsríkt að skoða hvers konar ógöngur menn leiðast þá út í, t.d. í skipulagsmálum Reykjavíkur. Þar á að þétta byggð um of, þrengja ferðarými og bílastæði, reka flugvöllinn út úr borginni og sóa fé í of dýra borgarlínu. Allt eru þetta verkefni sem eyða tíma, hægja á ferðum einstaklingsins og minnka framleiðni.

Vinstrimenn virðast einnig á þeirri skoðun að það beri að móta fólk í eitthvert það mót sem hentar því þjóðfélagi sem þeir vilja sjá í framtíðinni, allir ferðist á sama hátt með borgarlínu. Með þessu marka þeir þjóðinni of þröngan farveg til þróunar og þrengja að frelsi einstaklingsins, sem kemur niður á lífshamingju hans og virkni í þágu samfélagsins.

Um það sem aflaga fer vegna þessarar stefnu vinstrimanna kenna þeir hægrimönnum. Þeir virkja síðan óánægjuna sjálfum sér til framdráttar og má segja að slíkri baráttu hafi verið hafnað í síðustu kosningum.

Lokaorð

Hin gömlu gildi, frelsi og framtak einstaklingsins, sem eru grundvöllur sjálfstæðisstefnunnar, vísa til tímans sem einstaklingurinn ver til leitar og starfa og þess svigrúms sem hann hefur mælt í fjölda fólks, starfa og tækifæra sem hann getur tengt sig við.

Opinber skriffinnska eyðir tíma bæði almennings og stjórnsýslu. Skriffinnska eyðir of miklum tíma heilbrigðisstarfsfólks. Börn eyða of miklum tíma í að læra á lífið í einfölduðum sýndarheimum snjallsíma en flóknari raunheimar valda þeim kvíða. Stefnumörkun til framtíðar þarf að stefna að minni tímaeyðslu og bæta tímann á heimilum.

Of lítill tími grasrótar Sjálfstæðisflokksins fer í að móta farsæla stefnu en of mikill í að rífa niður áhrifafólk annarra arma eigin flokks. Sú barátta sundrar og hrekur fólk burt, eins og úrslit kosninga sýna.

Nútíma stjórnun, stefnumótun og áætlanagerð gengur í æ ríkari mæli út á að líta á framtíðina sem tímaferli og móta stefnu sem eykur gæði tíma einstaklingsins. Sú þróun hefur tæplega náð nógu vel inn í málefnastarf Sjálfstæðisflokksins og þarf úr að bæta.

Höfundur er verkfræðingur.

Höf.: Elías Elíasson