Íbúar á höfuðborgarsvæðinu og þeir sem heimsækja svæðið hafa á undanförnum allmörgum árum fylgst með auglýsingaskiltum spretta upp víða. Minnir þetta óþægilega á ýmsar erlendar borgir og þjóðvegi og verður seint talið augnayndi. Með árunum hafa skiltin orðið æ meira áberandi, bæði vegna aukins fjölda þeirra en einnig vegna þess að þau eru í raun orðin risastór sjónvörp en ekki bara kyrrmyndir eða flettiskilti.
Í Morgunblaðinu í gær sagði frá því að skipulagsyfirvöld í Reykjavík hefðu hafnað tveimur umsóknum um að breyta eldri skiltum úr flettiskiltum í risastóra flatskjái. Röksemdin fyrir höfnuninni er að skiltin séu til þess fallin að trufla umferð og ræður umsögn Vegagerðarinnar miklu þar um, en í henni segir meðal annars: „Umferðarþungi og tilheyrandi bið vegfarenda á álagstímum gerir það að verkum að athygli ökumanna þarf að vera öll á umferðinni sem býður ekki upp á að sett sé stafrænt skilti í grennd við veginn þar sem það er talið rýra umferðaröryggi.“
Svo virðist sem Reykjavíkurborg hafi í seinni tíð áttað sig á að skilti af þessu tagi drægju að sér athygli ökumanna og þar með færi athyglin frá umferðinni. Þannig eru ýmis dæmi um athugasemdir borgarinnar við ný eða breytt skilti. Hitt er annað mál að það virðist einnig nokkuð handahófskennt því að á sama tíma og stór skilti blasa víða við er öðrum hafnað án þess að augljóst sé hvers vegna svo er.
Þá verður vart framhjá því litið að borgin hefur sjálf gengið lengst í útbreiðslu skilta. Hún samdi við auglýsingafyrirtæki um að breyta strætóskýlum í skilti og þau hafa síðan þróast yfir í sjónvarpsskilti. Sama fyrirtæki hefur samninga við borgina um skilti víðar en aðeins í strætóskýlum. Og nýlega fór borgin út í að breyta strætisvögnunum sjálfum í skilti á hreyfingu, sem hljóta að draga að sér athygli ekki síður en önnur skilti og þar með frá umferðinni.
Það fer ekki vel á því að borgin gangi lengst og hafi forgöngu um útbreiðslu skilta en neiti á sama tíma sumum en öðrum ekki um skilti. Í þessu skortir augljóslega samræmi en því verður vart á móti mælt að það væri til prýði í borgarlandinu, og mundi um leið auka umferðaröryggi, ef meira hófs væri gætt í auglýsingaskiltunum, ekki síður hjá borginni en öðrum.