Gunnlaugur Þorfinnsson fæddist í Reykjavík 22. febrúar 1928. Hann lést á Landspítalanum 7. febrúar 2025.
Foreldrar hans voru Ólöf Runólfsdóttir, f. 18. nóvember 1896, d. 2. janúar 1991, húsmóðir í Reykjavík, og Þorfinnur Guðbrandsson múrarameistari, f. 30. apríl 1890, d. 24. maí 1967. Gunnlaugur átti eina systur, Jónínu kennara, f. 1921.
Gunnlaugur kvæntist 15. desember 1951 Sigrúnu Ingibjörgu Gísladóttur, f. 22. maí 1932, d. 13. ágúst 2020. Foreldrar hennar voru Sigríður Pétursdóttir og Gísli Ágúst Gunnarsson.
Þau eignuðust þrjú börn: 1) Gísli Ágúst, f. 6. júní 1953, d. 3. febrúar 1996. Kona hans var Berglind Ásgeirsdóttir. Börn þeirra eru Ásgeir, Sigrún Ingibjörg og Sæunn. Barnabörn þeirra eru fimm. 2) Sigríður Ólöf, f. 23. mars 1956. Maki hennar er Magnús Þorkelsson. Þau eiga þrjú börn: Gunnlaug, Ástu Sigrúnu og Þorkel. Barnabörn þeirra eru fjögur og stjúpbarnabörnin tvö. 3) Þorfinnur, f. 22. mars 1967, býr í Dublin. Börn hans eru Eva og Oisin.
Gunnlaugur lærði húsgagnasmíði og rak um árabil verkstæði og verslun í Hafnarfirði. Hann hóf störf í Straumsvík árið 1972. Hann lét af störfum í álverinu til að liðsinna Gísla syni sínum sem glímdi um árabil við MND. Eftir starfslok var hann fenginn til að sýna og kynna starfsemi álversins um nokkurra ára skeið. Gunnlaugur réð sig um sjötugt til byggingarfyrirtækis Sveinbjörns Sigurðssonar og starfaði þar í 10 ár.
Gunnlaugur var frá unglingsaldri í KFUM og tók virkan þátt í starfi félagsins. Hann stundaði mikið íþróttir á yngri árum og keppti á skíðum.
Hann hafði mjög mikinn áhuga á tónlist og söng í 30 ár í Pólýfónkórnum.
Hann tók virkan þátt í Meistarafélagi iðnaðarmanna í Hafnarfirði.
Gunnlaugur og Sigrún fluttu í Hafnarfjörð 1956 og bjuggu þar eftirleiðis. Þar byggði hann fjölskyldunni þrjú hús. Það fyrsta í Grænukinn, þá á Arnarhrauni og hið síðasta á Fagrabergi. Þeim hjónum reyndist unnt að búa heima á Fagrabergi til hinsta dags.
Útförin fer fer fram frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði í dag, 11. mars 2025, klukkan 15.
Gunnlaugur Þorfinnsson var mér afskaplega kær og hann tók vel á móti mér þegar ég fór að skjóta mér í dóttur hans, henni Siggu. Það er alveg sama hvar maður hefur komið, þar sem hann hefur verið, þá þekkja hann allir og hann þekkti alla. Hann var mannblendinn, mikið fyrir félagsskap og fljótur að ættfæra fólk.
Hann var einn af þessum mönnum sem vildi ekkert nema gott gera. Hann lærði og starfaði við húsgagnasmíðar og sú iðn stóð alltaf næst hjarta hans. Hann var með verkstæði heima í Arnarhrauni og hannaði og smíðaði lengi samhliða starfi hjá ÍSAL.
Gulli var ekki aðeins húsgagnasmiður og yfirmaður hjá ÍSAL. Hann var eiginmaður til tæpra sjötíu ára, faðir þriggja flottra systkina, afi átta barnabarna, ellefu langafabarna og það tólfta á leiðinni auk tveggja stjúpbarnabarna og allra makanna sem þessu fylgdi og hann taldi sem hluta af barnahópi sínum. Öll dáðu þau hann og hann þau. Eitt langafabarnið, tæpra fjögurra ára, spurði hvort „afi langi myndi hætta að halda upp á afmælið sitt fyrst hann væri dáinn“? Hann var mikið fyrir mannfögnuði og naut sín þar.
Þegar við, þá hjónaleysin, fluttum til Englands í nám, samdi hann við þann sem innritaði Siggu mína í flugið að peningalitlir námsmenn þyrftu að taka meira með sér en túristar og fór farangur, sem var örugglega tvöföld ef ekki þreföld yfirvigt, beint í flugvélarbelginn án þess að kosta nokkuð aukreitis.
Gulli sýndi ávallt æðruleysi. Hann gekk í þau verk sem þurfti. Gísli, sonur hans og elstur sinna systkina, var greindur með MND árið 1990. Þegar sjúkdómurinn fór að sækja að honum vildi svo til að Gulli átti, sem yfirmaður hjá ÍSAL, að fara á eftirlaun um sama leyti. Hann tók að sér að sinna syni sínum eins og best var á kosið uns Gísli lést langt um aldur fram í febrúar 1996. Eftir það snéri Gulli sér aftur að vinnu og vann fram undir áttrætt.
Sigrún tengdamóðir mín lést árið 2020. Hann þurfti að finna eitthvað til að fylla daginn, eftir nærri sjötíu ára hjónaband. Þá voru þau búin að búa í Fagrabergi á fjórða áratug. Hann innréttaði verkstæði, í bílskúrnum, með vélum og áhöldum og naut sín þar meðan heilsan leyfði.
Það var honum mikilvægt að fá að búa heima eins lengi og hægt væri. Gulli hélt heimili þar til hann var fluttur á spítala hálfum mánuði áður en hann lést. Viku fyrir þann flutning hafði þessum nær tíræða skattborgara verið neitað um hjúkrunarheimili þar sem ekki væri fullreynt með úrræði. Er þetta það sem við bjóðum fólki? Það skiptir máli fyrir þá, sem þess þurfa, að utan um þá sé hópur sem hjálpar. Í þessu tilfelli er átt við starfsmenn heilsugæslunnar og félagsþjónustunnar, frábæra nágranna og fjölskylduna en að öllum þessum ólöstuðum þá var það Sigga sem bar hann á höndum sér. Það er skrýtið land þegar nær 97 ára gömlum manni er neitað um hjúkrunarheimili. Hann náði þó, með góðri aðstoð að lifa með reisn þar til lífsljósið slokknaði án langrar veikindalegu.
Við, sem fylgjum Gunnlaugi Þorfinnssyni til grafar, vitum að hann átti langa ævi við ágæta heilsu eftir aldri. Elliglöp þekkti hann ekki. Hann kunni að njóta lífsins, ekki síst í hárri elli, var heilsugóður og það sem kannski er best, að hann naut síðustu áranna við áhugamálin, félagsskap vina og ættingja. Við sem eftir sitjum söknum en erum jafnframt þakklát. Við hlýjum okkur við góðar minningar. Það er af nógu að taka.
Magnús Þorkelsson.
Eðalmaðurinn tengdafaðir minn tranaði sér ekki fram en sinnti öllum sínum verkum af trúmennsku og umvafði fjölskyldu sína. Stundum var ég spurð um „fyrrverandi“ tengdaforeldra mína og varð þá mjög undrandi. Þrátt fyrir að tæp 30 ár séu liðin frá því Gísli minn lést voru tengslin við tengdaforeldrana alla tíð mikil.
Ég kom fyrst á heimili þeirra Sigrúnar árið 1972, en þá bjuggu þau á Arnarhrauni í Hafnarfirði. Ég man hvað það var einstaklega fallegt. Öll húsgögn smíðuð af hagleiksmanninum Gunnlaugi og mikið af listaverkum.
Ég var fyrsta tengdabarn þeirra hjóna og komu þau ávallt fram við mig eins og ég væri dóttir þeirra.
Vegna búsetu okkar Gísla erlendis dvöldu þau hjónin iðulega á heimilum okkar í Englandi, Þýskalandi og Svíþjóð. Alltaf var komið færandi hendi og minnisstætt þegar Gunnlaugi tókst að komast með mat í stórt þorrablót hjá okkur. Við Gísli og Ásgeir sonur okkar bjuggum hjá þeim á hverju einasta sumri meðan við vorum erlendis. Það var notalegt að vera með þeim hjónum. Sigrún alltaf að kenna manni eitthvað og Gunnlaugur ávallt til staðar á sinn hljóðláta hátt.
Gunnlaugur reyndist okkur Gísla einstök hjálparhella. Hann var raunar áhugasamari um að við kæmum okkur upp húsnæði en við sjálf. Fyrsta heimili okkar var á Ásvallagötu, á bernskuheimili Gunnlaugs. Þá hvatti hann okkur til að kaupa íbúð í Hafnarfirði, síðan fann hann fyrir okkur lóð í Hafnarfirði og hélt algerlega utan um byggingu hússins okkar á Ölduslóð.
Mesti stuðningur Gunnlaugs var þó er hann hætti störfum í álverinu í Straumsvík til að geta liðsinnt Gísla í glímu hans við MND-sjúkdóminn. Hann kom um árabil til okkar alla virka daga, aðstoðaði son sinn við að komast á fætur, ók honum og sótti í Háskólann og gerði honum þannig kleift að komast til starfa við sagnfræðideildina.
Gunnlaugur var lærður húsgagnasmíðameistari og var fagmaður fram í fingurgóma. Draumur hans var að læra húsgagnahönnun, en ekki voru fjármunir til þess.
Þegar ég kynntist síðari manni mínum, Finnboga, glöddust þau Sigrún mjög og tóku honum fagnandi. Samband þeirra Gunnlaugs var einstaklega gott enda áttu þeir mörg sameiginleg áhugamál.
Sigrún og Gunnlaugur héldu reisn sinni og andlegri færni alveg fram í andlátið. Sigríður Ólöf mágkona mín sinnti foreldrum sínum daglega um árabil af einstakri natni og gerði þeim kleift að búa fram á síðasta dag í fallega húsinu við Fagraberg í Hafnarfirði.
Eftir að við höfðum bæði misst maka okkar jukust samvistir okkar. Ég naut þess að koma í mat til Gunnlaugs, þar sem boðið var upp á afar nýtískulegan mat og spjallað fram á nótt.
Gunnlaugur og Sigrún urðu aldrei gömul í hugsun og horfðu ávallt fram á veginn og þótti lítt áhugavert að dvelja í fortíðinni. Þau fylgdust með nýjungum og aðlöguðu sig vel að nútímanum.
Ég vil þakka mínum góða tengdaföður samfylgdina.
Berglind Ásgeirsdóttir.
„Sirra mín – Ásta Sigrún er að hringja,“ kallar afi Gulli milli herbergja á ömmu Sigrúnu. Klukkan er miðnætti í Edinborg árið 2007 og hann hringdi í mig á Skype – ekki öfugt. Þetta gerir hann reglulega, yfirleitt svona frekar seint á kvöldin, bara aðeins til að taka stöðuna og veit að þetta er góður tími til að ná í stúdentinn. Við spjöllum fram á nótt og förum yfir lífið í litlu fallegu borginni. Ég hvet þau til að koma í heimsókn sem þau og gera. Hann þá á níræðisaldri. Við eigum frábæra daga í Edinborg og þau neita að leyfa mér að bóka borð á veitingastöðum. „Við verðum leidd þangað sem við eigum að fara,“ segja þau, harðákveðin, og það reynist rétt. Ég bý í tveimur öðrum löndum og svo aftur á Íslandi og áfram halda síðkvöldasímtölin.
Oft kíki ég til þeirra í Fagrabergið, t.d. eftir að hafa farið út að skemmta mér. Ég veit að þau eru vakandi fram eftir og það er svo notalegt að sitja við eldhúsborðið og spjalla við þau. Afi er meira að hlusta og brasa, amma leggur mér lífsreglurnar. Ég leik mér að því að æsa þau bæði aðeins yfir pólitík og krota á Moggann, þótt ég viti að það fari agalega í taugarnar á afa. Svo förum við saman til Boston og Dublin. Það er ævintýralega skemmtilegt.
Síðar, þegar amma er fallin frá, held ég áfram að detta inn og við tölum meira saman í síma. Verkefnin verða örlítið öðruvísi. Ég skutlast eftir sólgleraugum, skötu og jólagjöfum, kenni honum nýjar uppskriftir og við eldum saman eða undirbúum veisluhöld hans. Afi var nefnilega duglegur að njóta alls hins góða.
Stundum fer ég í búðina fyrir hann, jafnvel í nokkrum atrennum, en yfirleitt sitjum við bara saman og spjöllum. Það gerum við líka ár eftir ár á Jómfrúnni í janúar, yfir góðum mat, bara tvö saman.
Hann var skilgreiningin á „altmuligman“, hann var frumkvöðull. Hann var glaðvær, ákveðinn og passasamur. „Life of the party.“ Hann tók ofan þegar hann hitti vinkonur mínar á förnum vegi og spurði frétta. Þegar frænka mín, úr hinni áttinni, var að flytja í nýbyggðan íbúðakjarna fyrir fatlað fólk vaktaði hann húsið heila nótt til að passa að engir krakkar skemmdu gólfið sem var verið að steypa hjá SS verktökum. Allt það besta fyrir hans fólk.
Hann studdi við bakið á mér, og okkur öllum. Þegar ég eignaðist maka og mætti með tvö stjúpbörn heim til hans tók hann þeim öllum eins og sínum eigin. Nóg pláss í hjartanu og við borðið í Fagrabergi.
Það eru forréttindi að alast upp með fólki eins og afa. Brasari fram í hið óendanlega, gleðigjafi og gjafmildur á tíma sinn og orku. Síðastliðin ár naut afi þess að foreldrar mínir aðstoðuðu hann við að lifa sjálfstæðu lífi heima hjá sér, á hans forsendum. Það var fallegt að fylgjast með þeirra sambandi.
Vertu yfir og allt um kring
með eilífri blessun þinni,
sitji Guðs englar saman í hring
sænginni yfir minni.
(Sig. Jónsson í Presthólum)
Takk fyrir allt afi minn. Ég bið kærlega að heilsa okkar fólki og hlakka til að heyra þig segja „nei – hallææ!“ þegar við hittumst aftur.
Ásta Sigrún Magnúsdóttir.
Það er svolítið skrýtið að segja að tæplega 97 ára maður hafi fallið frá skyndilega, en það var raunin. Afi bjó enda í húsinu sem hann byggði og eldaði sér dýrindis máltíðir allt þar til hann lagðist inn á sjúkrahús 10 dögum fyrir andlát.
Framúrstefnulegir lífskúnstnerar og heimsborgarar, kemur mér til hugar þegar ég hugsa um afa og ömmu í Hafnarfirði. Í Fagrabergi var eldaður kínverskur og indverskur matur, og heimagerðar pitsur löngu áður en niðurrifinn ostur fékkst í búðum. Og það sem meira var, þau voru jafningjar í bæði eldamennskunni og þrifum, eitthvað sem ekki var sjálfsagt fyrir þessa kynslóð.
Afi og amma ferðuðust út um allt, þekktu stórborgir eins og handarbakið á sér og höguðu sér alls staðar eins og heimamenn. Amma virtist altalandi á öllum tungumálum og afi vissi alltaf nákvæmlega hvaða mat ætti að borða og hvar. Þau vissu einhvern veginn líka alltaf hvað væri viðeigandi klæðaburður og hegðun í hvers kyns aðstæðum. Amma sagði mér og öðrum reglulega til um borðsiði og alltaf fylgdi þeirri leiðsögn ábending um að afi hefði borðað með sjálfum páfanum, svo þau vissu um hvað þau væru að tala!
Það fór ekki fram hjá neinum að afi dáði ömmu. Þegar hún lést í ágúst 2020 var því alls ekki ljóst hvað tæki við. En afi var bæði hraustur og seigur. Á tíræðisaldri fór hann í framkvæmdir, byggði sér pall, kom smíðaverkstæði upp í bílskúrnum og fór að selja heimasmíðuð bretti. Hann bauð vinum í margrétta matarboð og hélt grillveislur fyrir fjölskylduna. Hann var áfram óaðfinnanlegur í klæðaburði og Lacoste-skyrturnar jafn stífpressaðar og áður.
Afi minn og amma voru ótrúlegt fólk. Þau voru kletturinn sem stóð eftir fráfall föður okkar systkinanna og tryggðu að tengslin við fjölskylduna yrðu enn sterkari. Þau létu sig hvergi vanta og mættu meira að segja til Boston 84 og 88 ára til að vera viðstödd útskriftina mína. Alltaf mættust, alltaf með skoðanir og alltaf stutt í hláturinn.
Mikið ofboðslega er ég þakklát fyrir að hafa notið þeirra beggja öll þessi ár og hugsa með hlýhug til þess að nú fái afi Gulli að leggjast til hvílu með ömmu og pabba.
Sigrún Ingibjörg Gísladóttir.
Klettur í lífinu er fallinn frá örfáum dögum frá 97 ára afmælinu. Afi Gulli var einstakur maður og ég var svo heppin að eiga hann sem afa í yfir 31 ár. Í æsku naut ég margra góðra stunda í heimsókn eða pössun hjá ömmu og afa í Hafnarfirði og hvar sem við bjuggum erlendis voru þau dugleg að koma og heimsækja okkur. Á fullorðinsaldri heimsóttu þau barnabörn í námi erlendis og mun ég aldrei gleyma kvöldstundar okkar í Glasgow. Amma og afi kenndu mér allt of margt til að tína upp hér, en þau voru mér algjörar fyrirmyndar hvað varðar gjafmildi og að njóta stundarinnar.
Við amma vorum miklar vinkonur og áttum endalaust af sameiginlegum áhugamálum sem við ræddum oft langt fram á kvöld þegar ég kom í mat. Afi dró sig þá oft í hlé til að leyfa okkur langmæðgum að spjalla en hann átti jafn mikinn þátt og amma í að skapa notalegt andrúmsloft í Fagraberginu. Þau voru alltaf til í að taka á móti manni, hvort sem það var í dýrindismorgunverð, eða uppáhaldskvöldmat hvers barnabarns (minn var steinakjöt) og segja skemmtilegar sögur, oft af ferðum sínum erlendis.
Afi og amma voru óvenju samrýnd og áttu afar nútímalegt hjónaband, þau voru félagar í einu og öllu og afi tók mikinn þátt í heimilishaldinu.
Þegar amma lést sumarið 2020 óttaðist ég því að afi myndi ekki sjá glaðan dag, en hann var trúrækinn maður og þakklátur fyrir hvern dag sem hann fékk. Mér fannst ég kynnast afa á nýjan hátt eftir fráfall ömmu. Hann setti sér fyrir verkefni í smíðum, sýndi mér sveinsstykkið sitt og vélarnar sínar, og ég naut þess að sjá hann í sköpunargleðinni. Hann bjó til ótrúlega flott skurðarbretti sem hann gaf okkur afkomendunum og seldi okkur umframframleiðslu til að gefa góðum vinum því jú alla langaði í þessi flottu bretti! Afi Gulli toppaði sig svo með gripnum sem hann gaf okkur Agli í brúðkaupsgjöf, tréskál sem hann renndi með aðstoð góðs vinar síns.
Afi var meðvitaður undir það síðasta að það væri ekki langt eftir, hann sagði okkur afkomendunum alltaf í lok heimsóknar hvað honum þótti vænt um okkur. Fjölskyldan var honum allt og ég mun aldrei gleyma hvernig hann táraðist þegar ég sagði honum að von væri á enn öðru barnabarnabarni í vor.
Vandvirka, góðhjartaða og hlýja afa verður sárt saknað, það verður skrítið að senda honum ekki póstkort úr næstu utanlandsferð, en minningin lifir um þennan dásamlega mann sem gat eignast vin í hverjum manni.
Þín,
Sæunn (Sæja).
Hniginn er til foldar mikill öðlingsmaður sem kallar fram ljúfar minningar hjá tólf árum yngri systursyni þegar hann hripar þessar fátæklegu línur:
Ég lít í anda liðna tíð,
er leynt í hjarta geymi.
Sú ljúfa minning; létt og hljótt
hún læðist til mín dag og nótt,
svo aldrei, aldrei gleymi.
(Halla Eyjólfsdóttir)
Ég var fyrsta systkinabarn hans og naut ungur hinnar miklu og kristilegu umhyggju sem hann sýndi öllu skyldfólki sínu og vinum. Á árunum 1947-49 gaf hann mér til dæmis þrjár ógleymanlegar sumarlangar dvalir í Kaldárseli; í faðmi íslenskrar náttúru við leiki og trúarsöngva.
Þegar hann kvæntist Sigrúnu Ingibjörgu Gísladóttur sýndi fjölskyldan einstæða og aðdáunarverða fórnarlund og æðruleysi í glímu við illvíga sjúkdóma og mótlæti.
Eftir fráfall Sigrúnar innréttaði Gunnlaugur bílskúrinn sinn og útbjó þar fullkomið verkstæði til að iðka iðn sína af eftirbreytnilegum dugnaði á meðan kraftar entust. Var unun að sjá árangurinn hjá honum af þessu heilsubótarstarfi. Guð blessi minningu hans.
Ómar Ragnarsson.
Í dag er kvaddur góður félagi og vinur til margra ára. Fyrst sá ég Gulla, eins og hann var kallaður í vinahópi, á samkomu í KFUM. Þar söng Gulli í blönduðum kór félaganna, en Gulli hafði fallegan tenór. Ég kynntist ekki Gulla fyrr en ég varð félagi í litlum hópi félagsmanna í KFUM sem keypt höfðu fokheldan skíðaskála á Hellisheiði. Þeir höfðu valið nafn á skálann sem þeir nefndu Éljagang. Þessir ungu menn voru allir félagar í KFUM. Nafn skálans festist við félagana sem ávallt voru kallaðir Éljagangsmenn. Það var samhentur hópur sem lauk við innréttingar og frágang á skálanum. Þar var Gulli virkur þátttakandi. Ég var sem barn og unglingur í KFUM í Laugarnesi, en þar störfuðu sem sveitarstjórar fjórir eða fimm sem voru eigendur skálans. Þetta leiddi til þess að þegar farið var í skíðaferð var farið í brekkur við skálann. Þegar fram liðu árin kom að því að sumir félagar í skálanum vildu selja sinn hlut og aðrir keyptu. Þannig varð það hvað mig varðar. Þessi hópur tók þá ákvörðun mjög fljótlega að hittast mánaðarlega yfir vetrarmánuðina og þá heimilum hver annars, þar sem gestur kom og var með uppbyggilegt efni. Einnig varð það fastur liður í mörg ár að halda árshátíð sem var opin félagsfólki. Efni var alltaf í höndum félagsmanna skálans. Þetta voru oft skemmtilegar og fjölmennar samkomur. Þar átti Gulli oft stóran þátt í efnisflutningi.
Þegar árin liðu og fækkaði ferðum á skíði þá kom að þeirri stund að ákveða hvað gera skyldi með skálann. Við gáfum hann skátum. Löngu síðar fréttist að skálinn væri orðinn að stóru og fallegu sumarhúsi í Grímsnesi.
Þrátt fyrir að skálinn væri ekki lengur í höndum okkar hélst sú regla að hittast. Lengi vel var reynt að hittast mánaðarlega og eins og áður var það á heimilum félagsmanna. Þegar árin liðu varð breyting á. Félagsmenn féllu frá, einn af öðrum, án þess að nýir bættust í hópinn. Reynt var að í hópinn og hittast einu sinni eða tvisvar um vetrarmánuðina. Ef ég man rétt, þá hittumst við síðast hjá Gulla fyrir tveimur eða þremur árum og var það notaleg samvera. Þá var Gulli búinn að vera ekkjumaður í mörg ár.
Gulli var alltaf sístarfandi. Bílskúrinn var fullur af efni og vélum, en þar stundaði Gulli tómstundavinnu sína, en það var smíði á litlum brettum undir brauð og bakkelsi. Síðast þegar ég kom til hans var hann að sinna verkum á lóðinni við húsið, þrátt fyrir að vera kominn á tíræðisaldurinn. Ég man að ég spurði hvort hann keyrði enn þá. Hann hélt það, enda í góðu líkamlegu og andlegu ástandi.
Ég kveð Gulla með þakklæti fyrir góð og eftirminnileg ár og votta börnum hans og afkomendum samúð mína.
Narfi Hjörleifsson.
Kær vinur, Gunnlaugur Þorfinnsson, er látinn tæplega 97 ára að aldri. Við kynntumst fyrir meira en 50 árum þegar hann hóf störf hjá Íslenska álfélaginu í Straumsvík. Gunnlaugur var hið mesta ljúfmenni í allri framkomu, glaðlegur, ræðinn og samviskusamur. Hann vann öll störf sín af mikilli kostgæfni. Þegar starfsferli hans í kerskálunum lauk eftir áratuga starf var honum falið að sinna eftirlitsstörfum við byggingu kerskála þrjú. Einnig var hann beðinn um að sýna gestum verksmiðjusvæðið og hafði hann mikla ánægju af þessum störfum.
Gunnlaugur reisti einbýlishús á fallegum stað í Setbergshlíð í Hafnarfirði. Hann var húsgagnasmiður að mennt og sá um byggingu hússins. Í bílskúrnum innréttaði hann snoturt smíðaverkstæði og meira en níræður að aldri sýndi hann mér stoltur nýjar trésmíðavélar í bílskúrnum.
Gunnlaugur missti konu sína, Sigrúnu, fyrir nokkrum árum. Mjög kært var milli þeirra og mat hann konu sína mjög. Hann smíðaði fallega útiverönd og var með aðra á teikniborðinu skömmu fyrir andlát Sigrúnar.
Gunnlaugur bjó í húsi sínu til æviloka. Með aðstoð dóttur sinnar var hann fær um að sinna flestu innanhúss. Þegar ég sat hjá honum dágóða stund í nóvember síðastliðnum var ekki annað að sjá en þar færi maður býsna vel á sig kominn.
Ég votta börnum Gunnlaugs, Sigríði og Þorfinni, og öðrum ættingjum innilega samúð mína.
Minning mín um mætan mann mun lifa.
Ingvar Pálsson.
Það var margt hægt að læra af Gunnlaugi enda var hann með mikla reynslu og afbragðsgott minni. Við hittumst fyrst fyrir 18 mánuðum á meðan við vorum að halda okkur gangandi í æfingasalnum. Ég held að það hafi verið brosið sem gaf til kynna að hann vildi spjalla. Hann sagði mér frá húsinu sem hann byggði og bauð mér heim í kaffispjall til að skoða það. Og svo urðu þau nokkuð mörg þessi kaffispjöll. Hann vildi endilega hjálpa mér að hanna og svo smíða fuglahús fyrir garðinn okkar enda var Gulli handlaginn og vel græjaður. En heilsan var bara ekki nógu góð til að standa við smíðabekkinn úti í bílskúr svo við pældum og teiknuðum til að vera vissir um hvernig best væri að smíða fuglahúsið.
Það var alltaf ánægjulegt og upplífgandi að heimsækja hann Gulla. Þrátt fyrir líkamlega vanlíðan var hann alltaf jákvæður og dvaldi ekki við erfiðleika sína heldur vildi hann segja mér sögur frá sinni löngu ævi og heyra hvernig gengi hjá mínu fólki. Samtölin voru lífleg og áður en ég vissi af var klukkan orðin fjögur og við höfðum setið við eldhúsborðið í tvo tíma.
Lífið er ekki mælt eingöngu í árum heldur í þeim samböndum og minningum sem maður skilur eftir. Fuglahúsið bíður á teikniborðinu en það mun birtast í sumar. Gulli snerti mig djúpt með sinni hlýju framkomu, hans verður sárt saknað og mun ekki gleymast. Ég sendi mínar innilegustu samúðarkveðjur til Sigríðar, Þorfinns, Berglindar og fjölskyldna þeirra.
Derek Karl Mundell.
Elsku Gunnlaugur. Ég kveð þig nú með trega í hjarta en það er jafnframt full ástæða til að þakka þér og Sigrúnu heitinni fyrir einstök viðkynni, allt frá því ég var lítill strákur og heimagangur hjá ykkur. Aldrei hef ég mætt öðru en alúð og hlýju af ykkar hálfu þannig að ég leit eiginlega á ykkur sem „varaforeldra“. Ég minnist þess ekki að hafa heyrt neitt annað en jákvæða orðræðu hjá ykkur, alveg sama um hvað var rætt. Alltaf sáuð þið það jákvæða í hlutunum. Það hefur verið sérstaklega gaman að endurnýja og auka kynnin á síðustu árum. Það var alveg sama hvort við hittumst í Fjarðarkaupum eða sátum saman yfir kaffibolla, alltaf spurðuð þið ítarlega út í gang mála hjá okkur hjónum og hjá afkomendum okkar. Áhugi ykkar var alltaf einlægur og sannur. Það hefur verið sérstaklega gaman nú í lokin að skoða verkstæðið þitt, sem þú varst svo ánægður með, verkfærin og það sem þú varst að smíða hverju sinni. Þú varst alltaf að. Ég trúi því að þér líði nú vel og að þú sért kominn í góðan félagsskap með Sigrúnu og Gísla okkar og hér lifa eftir ykkur öll afar bjartar og ljúfar minningar.
Takk fyrir allt og allt.
Eftirlifendum votta ég mína dýpstu samúð í sorginni.
Magnús Páll.