Andrea Sigurðardóttir
andrea@mbl.is
Davíð Rúdolfsson, framkvæmdastjóri Gildis lífeyrissjóðs, sagði í samtali við mbl.is í gær tillögur ÍL-sjóðs og fjármála- og efnahagsráðuneytisins að uppgjöri ÍL-sjóðs endurspegla „sterka“ stöðu skuldabréfaeigenda í málinu. Þá sagði hann að þær væru meira í takti við sjónarmið lífeyrissjóða en það sem Bjarni Benediktsson, fyrrverandi fjármála- og efnahagsráðherra, hefði lagt upp með.
Heimildarmenn Morgunblaðsins lýsa nokkurri furðu á ummælum hans. Þannig benda þeir á að lífeyrissjóðirnir hefðu varla sest að samningaborðinu ef staða þeirra hefði verið jafn sterk og Davíð heldur fram.
Þeir benda jafnframt á að frumvarp sem Bjarni kynnti upphaflega um slit ógjaldfærra opinberra aðila, sem fól í sér að hægt yrði að slíta ÍL-sjóði, hefði verið kveikjan að því að menn settust við samningaborðið. Aðeins níu dögum eftir að frumvarpið var lagt fram hófust viðræður fjármálaráðuneytisins við lífeyrissjóðina um uppgjör ÍL-sjóðs. Frá fyrsta degi hafi verið ljóst að ríkið hafi verið tilbúið til þess að bjóða blöndu af eignum í samningaviðræðum við sjóðina.
Hefði frumvarpið orðið að lögum hefðu lífeyrissjóðirnir að endingu þurft að beina kröfum sínum að þrotabúi ÍL-sjóðs og hefði ríkissjóður borið einfalda ábyrgð á kröfum þeirra, eins og fram kemur í skilmálum HFF skuldabréfanna sem um ræðir.
Með samningi aðila dragi þó úr áhættu ríkissjóðs til lengri tíma auk þess sem kjör gætu orðið ríkissjóði hagfelld, takist að ná verðbólgu niður á komandi misserum.
Einn heimildarmanna bendir á að þrátt fyrir að samkomulag náist um tillögurnar sé mikilvægt að frumvarp um slit ógjaldfærra opinberra aðila nái fram að ganga, svo að koma megi í veg fyrir að annað eins endurtaki sig.