Landakotskirkja fær hæsta styrkinn til friðlýstra kirkna eða níu milljónir króna við úthlutun Minjastofnunar Íslands úr húsafriðunarsjóði vegna verkefna á árinu 2025. Stærstu einstöku styrkirnir í flokknum friðlýst hús og mannvirki fara til Duus-húss, bryggjuhúss og bíósalar í Keflavík fjórar milljónir, Norræna húsið í Reykjavík fær fjórar milljónir og sama upphæð fer til Verkamannabústaðanna við Hringbraut.
Minjastofnun bárust alls 242 umsóknir um styrki úr húsafriðunarsjóði vegna verkefna við viðhald og endurbætur af ýmsu tagi á yfirstandandi ári þar sem sótt var um rúmlega 1,2 milljarða kr. Úthlutað var hins vegar rúmlega 265 milljónum kr. til 178 verkefna.
„Upphæð til úthlutunar úr húsafriðunarsjóði lækkaði um 32.100.000 kr. á milli áranna 2024 og 2025,“ segir í umfjöllun um úthlutanirnar úr húsafriðunarsjóði á vef Minjastofnunar. Í fyrra var úthlutað tæplega 298 milljónum kr. til 176 verkefna. „Styrkir ársins 2025 eru því almennt lægri en styrkir ársins 2024. Vegna lækkunar þá reyndist ekki unnt að styrkja ýmis verðug verkefni að þessu sinni,“ segir þar.
Alls fá 35 friðlýstar kirkjur styrki að fjárhæð 75,3 milljónir á árinu. Álftaneskirkja á Mýrum fær fimm milljónir kr., Dagverðarneskirkja á Fellsströnd fjórar millj., Húsavíkurkirkja fjórar millj. og Silfrastaðakirkja fjórar milljónir.
Þá fá 83 friðuð hús og mannvirki rúmlega 103 millj. kr. í styrki. Þar á meðal er hús Sigurðar Pálmasonar á Hvammstanga sem fær fjórar millj. kr., Galtafell við Laufásveg í Reykjavík fær 3,5 millj., Gamla apótekið á Seyðisfirði fær 3,5 millj. og Brautarholt 2, gamla íbúðarhúsið á Kjalarnesi, fær þrjár milljónir.
Meðal styrkja í flokknum önnur hús og mannvirki er sundskáli Svarfdæla sem fær 700 þúsund kr., Kirkjuhvoll, samkomuhús á Vatnsleysuströnd, fær eina millj. kr., Nýja bíó á Siglufirði 900 þús. og Hallormsstaðarskóli, kartöflugeymsla, fær 500 þúsund.
Veittir voru 13 styrkir til rannsókna og húsakannana. Voru m.a. fjórar milljónir veittar til verkefnisins Íslenskar sundlaugabyggingar frá fyrri hluta 20. aldar. Verkefnið Torfhús í Húnavatnssýslum fær 2,5 milljónir og Fornverkaskólinn, viðhald handverkshefða, þrjár milljónir.
omfr@mbl.is