Guðni Þorvaldur Jónsson járnsmíðameistari fæddist í Neskaupstað 16. febrúar 1928. Hann andaðist á Hrafnistu Laugarási 22. febrúar 2025.

Foreldrar Guðna voru Jón Pétursson, f. 1903, d. 1987, og kona hans Katrín Guðnadóttir, f. 1894, d. 1948. Systkini Guðna Þorvaldar eru: Jónína Sigríður, f. 1927, d. 2016, Stefanía, f. 1931, d. 2015, Þórunn, f. 1933, Anna Margrét, f. 1938, d. 2008.

12. október árið 1958 giftist Guðni Þorvaldur Evu Sturludóttur, f. 7.9. 1927 á Suðureyri við Súgandafjörð. Foreldrar hennar voru Sturla Jónsson, f. 1902, d. 1996, og kona hans, Kristey Hallbjörnsdóttir, f. 1905, d. 1983. Börn Guðna Þorvaldar og Evu: 1) Sigríður Jóna, f. 1963, gift Jóni Inga Benediktssyni, f. 1959, börn: a) Eva Margrét, f. 1998, b) Sigurjón Ingi, f. 1999, og c) Eydís Ósk, f. 2002. 2) Áður átti Guðni Þorvaldur með Rebekku Bjarnadóttur, f. 1924, d. 1950, dótturina Katrínu Halldóru, f. 1949, gift Birni Magnússyni f. 1946, börn: a) Ásta Lilja, f. 1974, gift Jóni Inga Ingimarssyni, f. 1972, börn: i) Valdimar Ingi, f. 1998, ii) Anna María, f. 2005, iii) Silja Rún, f. 2011, b) Rebekka, f. 1978, og c) Guðni Þorvaldur, f. 1983.

Guðni Þorvaldur ólst upp í foreldrahúsum í Adamsborg í Neskaupstað. Móðir hans veiktist þegar hann var ungur og lá hún ýmist heima eða á sjúkrahúsi. Guðni Þorvaldur byrjaði ungur að vinna, en hugur hans stóð til náms og fór hann suður til Reykjavíkur til að nema járnsmíði, sem þá hét ketil- og plötusmíði, og öðlaðist meistararéttindi í því og seinna þegar nafninu var breytt þá öðlaðist hann einnig meistararéttindi í stálsmíði. Guðni Þorvaldur vann hjá Vélaverkstæði Sigurðar Sveinbjörnssonar hf. og svo hjá Þrym vélsmiðju í Borgartúni og þótti lunkinn járnsmiður/suðumaður og m.a. smíðaði hann eftir teikningu Ásmundar Sveinssonar listaverkið fyrir framan MR sem heitir Andlit sólar. Að lokum var hann svo ráðinn til Hitaveitu Reykjavíkur og vann þar þangað til hann fór á eftirlaun 70 ára.

Útförin fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 11. mars 2025, klukkan 13.

Í dag kveð ég tengdaföður minn Guðna Þorvald Jónsson járnsmíðameistara. Kynntist ég honum 1989 þegar dóttir hans Sigríður Jóna kynnti mig fyrir foreldrum sínum, sem bjuggu þá í Búlandi 13 í Reykjavík. Guðni var mikill fjölskyldumaður og dáði dætur sínar. Þau hjónin Guðni og Eva fóru margsinnis með okkur hjónum og svo börnum okkar eftir að þau komu í heiminn í utanlandsferðir. Alls fóru þau hjón með okkur til útlanda í 12 skipti og það var yndislegt að sjá hvað hann var mikill barnakarl, því hann sagði aldrei nei við börnin okkar þegar hann var spurður hvort hann vildi ekki koma að leika. Hann lét það eftir þeim að skríða inn í smáhús á leiksvæði hótelgarða, ávallt tilbúinn að koma út í sundlaug og leika hval, fá sér ís eða hvað annað sem þeim datt í hug.

Við Sigga Jóna keyptum sumarbústaðaland við Gíslholtsvatn 1992 og svo þegar við ákváðum að fara að byggja sumarbústað 1994, þá var hann fyrstur til að bjóðast til að handlanga fyrir mig og var yndislegt að vinna með svona þolinmóðum og úrræðagóðum manni. Við hjónin ætluðum að taka svona tvö ár í þessar framkvæmdir, en Guðni og Eva komu nánast um hverja helgi með okkur allt sumarið og jafnvel líka í miðri viku þegar við hjónin vorum búin í vinnu, en þeim fannst yndislegt að vera með okkur og hjálpa til. Þetta verk, sem átti að taka tvö ár, kláraðist því strax á fyrsta árinu, en þá var bara veröndin eftir og hún tekin sumarið eftir. Þarna lærði ég af honum hvernig ætti að leggja pípulagnir, snitta og hvað eina, sem hefur komið sér vel, því ég hef þurft að grípa til þeirrar kunnáttu sjálfur.

Guðni var í raun járnlistamaður, hann smíðaði sjálfur stigahandriðið í Búlandi, lagði einnig allar pípulagnir þar sjálfur og var fljótur að smíða kerru fyrir mig þegar við hófum smíðar á sumarbústaðnum og var nánast allt efni flutt með þeirri kerru sem þurfti til smíðanna og oft var hún vel lestuð. Einnig smíðaði hann stóra sjálfstandandi kertastjaka fyrir dætur sínar og var m.a. fenginn til að smíða járnlistaverkið „Andlit sólar“ eftir teikningu Ásmundar Sveinssonar sem stendur framan við Menntaskólann í Reykjavík.

Fóru þau oft með okkur í sumarbústaðinn og nutu sín vel með okkur þar í mörg ár og voru venjulega með okkur um bæði hvítasunnuhelgina og verslunarmannahelgina alveg fram til ársins 2010. Þá gistu þau eina nótt um sumarið, þegar við fórum í vikudvöl í bústað við Lagarfljótið og komu þau með okkur þangað. Heimsóttum Neskaupstað, Vöðlavík, Loðmundarfjörð, Ásbyrgi, Sænautasel og keyrðum þaðan svo til Kárahnjúka og skoðuðum mannvirkin þar. Var þetta mikil upplifun fyrir þau hjón og kunni Guðni skil á flestum stöðum í Vöðlavík, þar sem móðir hans fæddist og ólst upp.

Hvíl í friði elsku Guðni, tengdafaðir og vinur, og megi Guð geyma þig og hjartans þakkir fyrir allt.

Jón Ingi Benediktsson.