[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Það er sól, frábært veður og hótelið er allt í lagi. Við kvörtum ekkert,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, landsliðsþjálfari karla í handbolta, í samtali við Morgunblaðið frá Chalkida í Grikklandi þar sem Ísland mætir Grikklandi í…

EM 2026

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

„Það er sól, frábært veður og hótelið er allt í lagi. Við kvörtum ekkert,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, landsliðsþjálfari karla í handbolta, í samtali við Morgunblaðið frá Chalkida í Grikklandi þar sem Ísland mætir Grikklandi í undankeppni Evrópumótsins á morgun, miðvikudag, klukkan 17. Þau mætast síðan í Laugardalshöll næstkomandi laugardag.

Ísland er í toppsæti C-riðils með fjögur stig eftir tvo leiki, Bosnía og Grikkland koma þar á eftir með tvö stig hvor þjóð og Georgía rekur lestina án stiga. Með sigri í Grikklandi fer Ísland ansi langt með að tryggja sér sæti á lokamóti EM á næsta ári. Tvö efstu liðin í riðlinum fara á EM og auk þess nokkur lið sem enda í þriðja sæti riðlanna.

Bullandi vesen á hópnum

Fjölmargir lykilmenn íslenska liðsins eru frá keppni vegna meiðsla um þessar mundir. Elvar Örn Jónsson, Viktor Gísli Hallgrímsson, Arnar Freyr Arnarsson, Gísli Þorgeir Kristjánsson, Ómar Ingi Magnússon, Viggó Kristjánsson og Teitur Örn Einarsson eru allir fjarverandi. Mætir Snorri því með mikið breytt lið til leiks frá heimsmeistaramótinu í janúar.

„Það er búið að vera bullandi vesen á hópnum en hópurinn er klár. Þetta eru þeir leikmenn sem standa mér til boða og þetta er að mínu mati sterkasta liðið sem ég get valið í dag. Við mætum ferskir til leiks en þurfum aðeins að þreifa á hlutunum.

Það er óþægilegt að geta ekki nýtt hlutina sem við fórum yfir á HM eins mikið og ég hefði viljað. Á köflum munum við væntanlega spila með uppstillingu sem leikmenn þekkja ekki eins vel. Það verður áhugavert að sjá hvernig það virkar.

Að því sögðu er þetta bara mótsleikur og það eru tvö stig í boði, stig sem eru mikilvæg upp á að vinna riðilinn. Við þurfum að finna leiðir til að vinna þennan leik,“ sagði Snorri.

Mikill aldursmunur

Viktor Gísli var í upprunalega hópnum hjá Snorra, þrátt fyrir að hann væri tæpur vegna meiðsla. Nú er komið í ljós að Viktor verður ekki klár í tæka tíð.

„Það kom upp bakslag í hans bata og hann náði ekki leika með Wisla Plock fyrir þetta verkefni og varð að draga sig út vegna meiðsla. Þau fylgja því miður þessum leik en við erum að glíma við heldur mörg meiðsli fyrir minn smekk,“ útskýrði Snorri.

Hinn 19 ára gamli markvörður Ísak Steinsson frá Drammen í Noregi var valinn í hópinn í fyrsta skipti og nú skipar hann markvarðapar með hinum 39 ára gamla Björgvini Páli Gústavssyni, en þeir gætu hæglega verið feðgar.

„Það skiptir ekki öllu hvort það er Björgvin eða Viktor sem er með honum í þessu verkefni. Það mikilvæga er að Ísak fái smjörþefinn af þessu, fái reynslu og geti safnað leikjum. Það mun mæða mikið á Björgvini í þessu verkefni. Ef Ísak fær að spila verður hann að grípa tækifærið en ábyrgðin er meiri á þeim sem eru reyndari,“ sagði Snorri um markvarðarstöðuna.

Benedikt í stað Gísla

Benedikt Gunnar Óskarsson var kallaður inn í hópinn í gær. Snorri þekkir miðjumanninn afar vel, þar sem þeir voru saman hjá Val áður en Snorri gerðist landsliðsþjálfari og Benedikt flutti til Þrándheims og gekk í raðir Kolstad.

„Ég beið með Gísla Þorgeir og vildi vita stöðuna á honum. Hann náði ekki að æfa fyrir leikinn um helgina og spilaði ekki með Magdeburg. Þá var ekkert annað í stöðunni en að ná í annan miðjumann og þá var það Benedikt,“ sagði Snorri.

Hann á ekki von á öðru en að þeir 17 leikmenn sem ferðuðust til Grikklands á sunnudag og í gær séu klárir í slaginn í leikina tvo.

„Þessir 17 sem eru í þessu verkefni ættu að vera leikfærir. Það er mikið álag á mörgum leikmönnum og sumir af þeim spiluðu á sunnudag. Æfingin í dag (í gær) verður lituð af því. Við tökum stöðuna þegar allir eru komnir, tökum góðan fund og hefjum formlegan undirbúning. Þá veit ég betur hvernig staðan á mönnum er,“ sagði Snorri.

Ísland er mun sigurstranglegri aðilinn í leikjunum tveimur. Grikkland hefur aðeins einu sinni spilað á lokamóti HM og einu sinni á lokamóti EM. Eina Evrópumót Grikklands til þessa var í Þýskalandi á síðasta ári er liðið endaði í 23. sæti af 24 liðum.

Gerist ekki af sjálfu sér

„Ég er búinn að skoða þá helling. Við spiluðum við þá fyrir ári og þeir voru með á síðasta Evrópumóti. Þetta er lið sem hefur farið á stórmót og er með flesta sína menn heila. Þetta hefur verið sami kjarni og sami þjálfari í svolítinn tíma.

Þeir eru erfiðir við að eiga en ég er fyrsti maðurinn til að kvitta undir að við séum með betra lið, þrátt fyrir skakkaföll. Þeir töpuðu gegn Bosníu með einu marki, unnu Georgíu og eru erfiðir. Ég á von á hörkuleik og sérstaklega í ljósi þess að það vantar menn hjá okkur og það getur tekið tíma að finna taktinn.

Við þurfum góðan leik og ef við náum honum og góðri frammistöðu þá eigum við að vinna. Það gerist ekki af sjálfu sér,“ sagði landsliðsþjálfarinn.

Savvas Savvas, sem hefur verið besti leikmaður Grikklands undanfarin ár, verður ekki með liðinu gegn Íslandi. Þrátt fyrir það á Snorri von á hörkuleik gegn sterkum andstæðingi. Langflestir leikmenn gríska liðsins leika í heimalandinu en þó eru leikmenn í efstu deildum Þýskalands og Spánar í hópnum.

„Savvas Savvas verður ekki með síðast þegar ég vissi. Þeir eru samt með fullt af leikmönnum sem spila t.d. með Olympiacos og AEK í heimalandinu. Þeir eru með góða miðjumenn og sterkar skyttur.

Þeir eru svo með leikmann sem spilar með Bidasoa á Spáni og annan sem spilar í efstu deild í Þýskalandi. Markvörðurinn þeirra er stemningskarl sem spilar í Þýskalandi. Þetta eru leikmenn sem kunna að spila handbolta og það er alls konar sem við þurfum að varast,“ sagði Snorri.

Þá getur þetta farið vel

Íslenska liðið mun þó fyrst og fremst einbeita sér að sínum leik. Snorri veit að með góðri frammistöðu eru allar líkur á að Ísland fljúgi heim með tvö stig í handfarangrinum.

Það er mjög mikilvægt að við finnum okkar takt. Við þurfum að vera sérstaklega einbeittir og grimmir þegar það vantar svona mikið í okkar lið. Ef það gengur og við finnum taktinn getur þetta farið vel,“ sagði Snorri.

Höf.: Jóhann Ingi Hafþórsson